Fara í efni

Ársreikningur Hvalfjarðarsveitar 2021

Á 348. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 22. mars sl. var ársreikningur Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2021 samþykktur, sjá HÉR.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins árið 2021 samkvæmt ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 216,1mkr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2021 námu rúmum 1.121mkr. samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.110,3mkr. Rekstrargjöld A og B hluta árið 2021 voru alls 978,5mkr. Veltufé frá rekstri var 18,58% og veltufjárhlutfall 13,65%.

Heildareignir sveitarfélagsins í árslok 2021 voru 3.677,7mkr. og heildarskuldir námu 106,8mkr. og er þar einungis um skammtímaskuldir að ræða, engar langtímaskuldir.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2021 nam 3.570,8mkr. samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall var 97%.

Eitt af fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga skv. sveitarstjórnarlögum er skuldaviðmið. Það er áfram jákvætt, fer úr 102,3% í 110,98% árið 2021 en veltufé er áfram umtalsvert hærra en skuldir. Rekstrarjöfnuður sveitarfélagsins síðustu þrjú ár (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) hækkar um 141,3mkr.

Síðasta ár var okkur, líkt og árið 2020, óvenjulegt á margan hátt sökum Covid-19 faraldursins. Þakkarvert er að áhrifa hans er, sem fyrr, ekki mikið að gæta í rekstrarniðurstöðu ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2021. Tekjur eru talsvert yfir áætlun ársins sem rekja má til íbúafjölgunar og hærri útsvarstekna henni tengdri auk þess sem útsvarsáætlunin var enn varfærnari en áður, á covidtímum. Endurgreiðslur ríkis, sveitarfélaga, jöfnunarsjóðs og annarra voru einnig hærri en áætlun ráðgerði auk þjónustutekna, s.s. byggingarleyfa. Rekstrarkostnaður var af ýmsum sökum umtalsvert lægri en áætlun, flestir samanteknir liðir, ýmis aðkeypt þjónusta og sérfræðiþjónusta og hefur covid faraldurinn að einhverju leyti áhrif þar á. Almennt voru málaflokkar og deildir, nær undantekningarlaust, innan áætlunar ársins.

Það er afar ánægjulegt að við sjáum nú fram á bjartari og betri tíma, eðlilegra samfélag með hækkandi sól, að lokinni tveggja ára vegferð í baráttunni við covid-19. Það er von mín að um leið og við njótum frelsis, mannfagnaða og viðburða þá hugum við öll að einstaklingsbundnum sóttvörnum sem best við getum.

Hvalfjarðarsveit 25. mars 2022
Linda Björk Pálsdóttir
sveitarstjóri