Ágangur búfjár
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar bíður eftir leiðbeinandi reglum frá Innviðaráðuneytinu varðandi skilgreiningar á mikilvægum atriðum sem enn ríkir óvissa um, s.s. réttarstöðu aðila, hvernig standa skuli að fyrirkomulagi á smölun ágangsfjár, óvissu um ástand girðinga, skilgreiningu á ágangi búfjár og fleiri veigamiklum atriðum. Það er ekki hvað síst vegna mismunandi túlkana er komið hafa fram í kjölfar álits Umboðsmanns Alþingis og úrskurðar Dómsmálaráðuneytisins í upphafi ársins en í áliti Umboðsmanns beindi hann m.a. þeim tilmælum til Innviðaráðuneytisins að taka umræddar leiðbeiningar til endurskoðunar en tók að öðru leyti ekki afstöðu til réttinda og skyldna málsaðila.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar telur sér ekki fært að setja reglur á málefnanlegum grunni og gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, þ.m.t. um meðalhóf, rannsóknarskyldu og andmælarétt, fyrr en ofangreindar leiðbeiningar frá ráðuneytinu liggja fyrir enda verða skilgreiningar á þessum mikilvægu atriðum að vera fyrirliggjandi og skýrar áður en unnt er að taka afstöðu um viðbragð og verklag vegna smölunar ágangsfjár í sveitarfélaginu.