Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032
Endurskoðun á gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 hefur verið í vinnslu hjá sveitarfélaginu síðan í byrjun árs 2019 og er fyrirhugaður samráðsfundur umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar og sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar nú í apríl þar sem kynnt verða fyrstu drög að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Fyrirhugað er að halda íbúafund í maí næstkomandi þar sem aðalskipulagsdrögin s.s. greinargerð, umhverfisskýrsla, uppdrættir o.fl. verða lögð fram og helstu atriði aðalskipulagsins kynnt og rædd en vegna smitvarna í tengslum við Covid-19 hefur fyrirkomulag kynningarfundanna ekki verið ákveðið og verður það kynnt síðar.
Almenningi s.s. íbúum, landeigendum og hagsmunaðilum gefst kostur á að koma á framfæri ábendingum og óskum vegna aðalskipulagsins.
Á komandi kynningartímabili sem stefnt er að hefja í maí næstkomandi verður almenningi boðið að koma á framfæri óskum og ábendingum ef einhverjar eru auk þess sem öllum gefst aftur kostur á að koma með athugasemdir á 6 vikna auglýsingartímabili í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar á endanlegri aðalskipulagstillögu sem vænta má að verði á seinni hluta árs 2021.
Að lokum má nefna að senda má skipulags- og umhverfisfulltrúa Hvalfjarðarsveitar erindi sem varða endurskoðun aðalskipulagsins á netfangið hvalfjardarsveit@hvalfjardarsveit.is og verða þau tekin fyrir og fjallað um þau hjá umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar. Frestur til að skila inn erindum vegna aðalskipulagsins áður en kynningartímabil aðalskipulagstillögunnar hefst í maí næstkomandi er til 28. apríl næstkomandi.