Fara í efni

Að gefnu tilefni...........

Að gefnu tilefni vill undirritaður f.h. sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar upplýsa að atriði sem varða húsnæðismál Leikskólans Skýjaborgar hafa í vetur verið til umfjöllunar hjá Mannvirkja- og framkvæmdanefnd, fræðslu- og skólanefnd og í sveitarstjórn.

Á fundi sveitarstjórnar þann 22. mars sl. var samþykkt að fela USN- nefnd að vinna að skipulagi og staðsetningu nýrrar leikskólabyggingar. Í þessu felst að nefndin fær það verkefni að finna leikskólabyggingu stað í skipulagi sveitarfélagsins og skila tillögu til sveitarstjórnar um þá staðsetningu. USN-nefnd hefur nú óskað samstarfs við fræðslu- og skólanefnd um þetta verkefni.

Ekki er auðvelt að spá fyrir um fjölgun barna á leiksskólaaldri næstu árin og þó farið sé í framkvæmdir við nýja götu í Melahverfi þá koma áhrif hennar í  fyrsta lagi til eftir ca. 2 ár m.v eðlilegan framkvæmdatíma. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur ekki úthlutað neinum aðila lóð á umræddri götu.

Miðað við gildandi reglur um inntöku barna á leikskólann þá er í dag ekki biðlisti eftir leikskólaplássum og því ekki ástæða til að örvænta eða fullyrða að núverandi ástand réttlæti það að ráðist sé í hundruðmilljóna króna fjárfestingu í byggingu leikskólahúsnæðis.

Ef í ljós kemur að skortur verði á leikskólarýmum þá skiptir máli að leitað verði lausna og þá er alls ekki víst að fyrsti kostur sé að ráðast í byggingu nýs leikskóla, þó það sé heldur ekki útilokað. Aðrar lausnir kunna að vera í boði og þá er mikilvægt að vandleg greining fari fram áður en ákvarðanir eru teknar.

Fjárfesting í nýjum leikskóla er mikil fyrir fámennt sveitarfélag og það er alls ekki gott að vera með mikla offjárfestingu í mannvirkjum líkt og sum sveitarfélög hafa fengið að reyna á sl. árum. Þess vegna er mikilvægt að taka eitt skref í einu og byrja á því að huga að staðsetningu nýrrar leikskólabyggingar áður en lengra er haldið.

Innan sveitarfélagsins hefur einnig verið rætt um niðurgreiðslur skólamáltíða hjá Hvalfjarðarsveit. Um það er þetta að segja:

Árið 2010 var samþykkt að veita afslátt af fæðisgjaldi. Meginrök þáverandi sveitarstjórnar voru þau að verið væri að létta undir með fólki vegna þeirra fjármálaáfalla sem höfðu dunið yfir og með þessari aðgerð væri komið til móts við barnafólk í sveitarfélaginu. Frá þeim tíma hefur ýmislegt færst til betri vegar í efnahag fólks almennt séð.        

Rétt er að geta þess að afsláttur af fæði í leik- og grunnskólum hjá sveitarfélögum líkt og er í Hvalfjarðarsveit er nánast án fordæma.  Fæðisgjöldum er einungis ætlað að standa undir hráefniskostnaði í mötuneytum skólanna, sveitarsjóður greiðir fyrir alla vinnu, aðstöðu, búnað og afskriftir. Fæði í skólum í Hvalfjarðarsveit er almennt viðurkennt af góðum gæðum en hér er í boði morgunverður, ávaxtastund og hádegisverður í leik- og grunnskóla en í leikskóla er jafnframt í boði síðdegishressing.

Mánaðarfæðisgjald í gunnskóla Hvalfjarðarsveitar fyrir allar þessar máltíðir er kr. 5.760 frá 1. mars sl. Verð pr. dag er kr. 266.

Hér er samanburður á hádegisverði í grunnskólum 15 stærstu sveitarfélaga landsins sem ASÍ tók saman fyrr í vetur (tekið af vef ASÍ).

 

http://www.asi.is/media/274664/Skoldagvistun-hressing16.png

 

Fæðisgjöld á leikskólanum Skýjaborg er eftirfarandi frá 1. mars sl.:

·         Morgunmatur  kr. 1.818              pr. dag kr.   84

·         Hádegisverður kr. 2.521              pr. dag kr. 116.

·         Miðdagshressing kr. 1.818         pr. dag kr.   84.

 Til samanburðar er hér gjaldskrá fyrir leikskóla Akraneskaupstaðar fyrir árið 2016 (tekið af vef AK).

·         Morgunmatur kr. 1.763

·         Hádegisverður kr. 4.085

·         Síðdegishressing kr. 1.763

·         Ávaxtastund kr. 881

Á þessum samanburði sést glöggt að gríðarlega vel er gert við barnafólk hér í Hvalfjarðarsveit varðandi kostnað við fæði í leik- og grunnskóla.

 

 

Stöndum saman um enn betri Hvalfjarðarsveit!!

 

Hvalfjarðarsveit 14. apríl 2016
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.