Fara í efni

Umhverfis- skipulags- og náttúruverndarnefnd 2013-2022

157. fundur 06. apríl 2022 kl. 15:30 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel A. Ottesen formaður
  • Guðjón Jónasson varaformaður
  • Ása Hólmarsdóttir ritari
  • Helgi Magnússon aðalmaður
  • Ragna Ívarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Gámur í Melahverfi fyrir rúlluplast.

2203051

Erindi frá Sigurði A. Sigurðssyni.
Óskað er eftir að settur verði upp gámur á geymslusvæði við Melahverfi fyrir rúlluplast fyrir frístundabændur sem ekki hafa aðstöðu til að sækja um gám á sömu forsendum og lögbýliseigendur.

Í ljósi þess að þjónustuaðilar hafa ekki þær lausnir sem þarf til að verða við beiðninni sér sveitarfélagið sér ekki fært að verða við erindi bréfritara að svo stöddu.

2.Hreinsunarátak 2022.

2203017

Vorhreinsun 2022.
Árleg vorhreinsun er fyrirhuguð dagana 12. maí til og með 30. maí í Hlíðarbæ, Melahverfi og Krosslandi. Frá 1. júní - 31. ágúst geta íbúar í dreifbýli sótt um gáma til afnota í tvo sólarhringa. Tímabil hreinsunarátaks í frístundabyggðum er það sama, þ.e. frá 1. júní til 31. ágúst. Meðfylgjandi er tillaga að dreifibréfi og frétt ásamt samþykktu verklagi Hvalfjarðarsveitar um hreinsunina.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd felur umhverfisfulltrúa að undirbúa og auglýsa vorhreinsun 2022 í Hvalfjarðarsveit. Tímabilið 12. maí til og með 30. maí verða gámar fyrir timbur, járn og dekk, gróðurúrgang, óflokkaðan úrgang, spilliefni og moltu staðsettir í Melahverfi, Hlíðarbæ og Krosslandi. Frá 1. júní-31. ágúst gefst íbúum í dreifbýli kostur á að fá tvær gerðir af gámum til afnota í tvo sólarhringa (timbur, járn og dekk, gróðurúrgangur, óflokkaður úrgangur). Tímabil hreinsunar í frístundabyggðum er frá 1. júní til 31. ágúst og er hægt að fá gáma undir timbur, járn og gróðurúrgang í 11 daga samfellt innan tímabilsins. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag vorhreinsunar verður kynnt á heimasíðu sveitarfélagsins og í dreifibréfi.

3.Sorphirðusamningur - framlenging.

2203069

Í gildi er verksamningur um sorphirðu í Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppi fyrir tímabilið 2017-2022. Í kafla 1.1.8 Verktími, kemur fram að verkkaupi getur með tilkynningu a.m.k. 6 mánuðum áður en samningurinn rennur út, einhliða framlengt samningnum til 1 árs. Þetta getur verkkaupi gert allt að 2 sinnum og rennur samningurinn að því loknu út án uppsagnar. Samningstíminn er 1. des. 2017-30. nóv. 2022.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar leggur til við sveitarstjórn að nýta framlengingarákvæði í verksamningi um sorphirðu í Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppi, en það getur verkkaupi gert einhliða a.m.k. sex mánuðum áður en samningurinn rennur út.

4.Verkefnið - Samtaka um hringrásarhagkerfið.

2202035

Meiriháttar breytingar á úrgangsstjórnun sveitarfélaga eru framundan. Þessar breytingar voru innleiddar í íslenskt regluverk í júní 2021 og koma til framkvæmda 1. janúar 2023.

Samtaka um hringrásarhagkerfið er verkefni sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett á fót með aðstoð umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins til að aðstoða sveitarfélög við að innleiða þessar miklu breytingar. Verkefnið skiptist í þrjá verkefnahluta, sem allir hafa það hlutverk að renna styrkari stoðum undir innleiðingu hringrásarhagkerfis hérlendis. Þessir verkefnahlutar eru: 1. Svæðisáætlanir sveitarfélaga sem verkfæri í ákvarðanatöku. 2. Kaup í anda hringrásarhagkerfisins - innkaup í úrgangsstjórnun sveitarfélaga. 3. Borgað þegar hent er kerfi heim í hérað.
Útbúin hefur verið vefsíða um allt verkefnið sem finna má á www.samband.is.
Sambandið efndi til upphafsfundar um verkefnið þann 16. mars sl., en á fundinn voru boðaðir tengiliðir alla sveitarfélaganna. Umhverfisfulltrúi Hvalfjarðarsveitar sat þann fund f.h. Hvalfjarðarsveitar.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hvetur sveitarstjórn til að kynna sér þær umfangsmiklu lagabreytingar sem samþykktar voru um mitt ár 2021 um flokkun og endurvinnslu, hollustuhætti, mengunarvarnir, úrvinnslugjald og fleira en þessar breytingar koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023.
Samband íslenskra sveitarfélaga býður fram aðstoð við innleiðingu breytinganna, enda gegna sveitarfélög veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrgangsstjórnun og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Hvalfjarðarsveit er skráð í verkefnahlutann: Borgað þegar hent er - heim í hérað. Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hvetur sveitarstjórn til að nýta sér vel þá aðstoð sem Sambandið veitir, enda skammur tími til stefnu til að innleiða nýjar kröfur um úrgangsstjórnun sveitarfélaga.

5.Reiðvegamál.

2203070

Erindi frá Marie G. Rasmussen.
Með erindinu er vakin athygli á ástandi reiðgötunnar frá Leirá upp að Tungu, en þar er að finna járn og plastrusl, sem komið er upp í yfirborð reiðgötunnar.
Umhverfis-, skipulags- og náttúrverndarnefnd þakkar bréfritara fyrir erindið og felur starfsmönnum tæknideildar sveitarfélagsins að vinna að lausn málsins með reiðveganefnd Hestamannafélagsins Dreyra og Vegagerðinni.

6.Umsagnarbeiðni vegna efnistöku í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit

2011019

Erindi frá Skipulagsstofnun.
BM Vallá ehf. hefur tilkynnt til athugunar Skipulagsstofnunar, umhverfismatsskýrslu um efnistöku úr Skorholtsnámu í Hvalfjarðarsveit.
Meðfylgjandi erindinu er umhverfismatsskýrsla ofangreindrar framkvæmdar.
Skipulagsstofnun fer fram á að Hvalfjarðarsveit gefi umsögn um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Umsagnaraðilar skulu gefa álit sitt í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Í umsögn umsagnaraðila skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu út frá starfssviði umsagnaraðila, svo sem um gögn sem byggt er á, úrvinnslu gagna, mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa eða framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við leyfisveitingar, svo sem varðandi mótvægisaðgerðir og vöktun. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Umsögn óskast send Skipulagsstofnun í síðasta lagi 12. apríl 2022.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd gerir ekki athugasemdir við umhverfismatsskýrslu um efnistöku úr Skorholtsnámu í Hvalfjarðarsveit, en áréttar eftirtalin atriði:
- Mikilvægt er að huga vel að umgengni á rekstrartíma, sér í lagi þar sem framkvæmdatíminn er langur og lokafrágangur ekki fyrirhugaður fyrr en í lok vinnslutímans. Sérstaklega þarf að huga að ásýnd (landslag og sjónrænir þættir), foki og umferð. Einnig þarf að tryggja að umgengni um framkvæmdasvæðið sé ávallt til fyrirmyndar.
- Mikilvægt er að viðhalda samráði við landeigendur, sveitarfélagið og eftir atvikum aðra hagsmunaaðila, þar sem fyrirhugaður framkvæmdatími er 30-40 ár. Gott samstarf þarf að ríkja um vinnsluna allan vinnslutímann.
- Frágangur. Gert er ráð fyrir því að frágangi verði þannig háttað að raskað svæði falli sem best að umhverfi sínu. Hér er um gríðarlegt efnismagn að ræða og aðeins hægt að ganga frá hverjum hluta námunnar að litlu leyti, þar til í lok framkvæmdatíma. Tryggja þarf að frágangi svæðisins verði þannig háttað að svæðið komi til með að líkjast sem mest þeim landformum sem umhverfis það eru. Frágangsáætlun þarf einnig að taka mið af landnotkun í framtíðinni og óskum landeiganda. Afar brýnt er að ganga frá svæðinu jafn óðum að svo miklu leyti sem hægt er.
- Í tillögu að nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar er gert ráð fyrir efnistöku í landi Skorholts, enda hefur verið unnið í námunni síðan 1954.

Framkvæmdin er háð eftirfarandi leyfum:
1. Framkvæmdaleyfi, útgefið af Hvalfjarðarsveit, veitt á grundvelli staðfests aðalskipulags og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum.
2. Starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

7.Háimelur 1 - Deiliskipulagsbreyting

2203018

Erindi frá Targa ehf.
Lögð fram ný tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Háamel 1, en skv. tillögunni er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja 4 íbúðir í stað 3 á lóðinni Háamel 1.
Samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Háamels með áorðnum breytingum skv. 1. málsgrein 41. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Lóðir við Lyngmel.

2203004

Fyrirspurnarerindi frá Targa ehf.
Óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi lóðanna við Lyngmel nr. 7, 9 og 11 en í breytingunni felst að breyta lóðunum úr einbýlishúsalóðum í parhúsalóðir.
Umhverfis-, skipulags- og náttúrverndarnefnd hafnar erindinu.

9.Flæðigryfjur Grundartanga - Umsagnarbeiðni.

2203027

Erindi frá Skipulagsstofnun er varðar matsáætlun í kynningu vegna flæðigryfja á hafnarsvæði Grundartanga.

Elkem og Norðurál hafa sent Skipulagsstofnun matsáætlun um nýjar flæðigryfjur á hafnarsvæði við Grundartanga, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Óskað er eftir að sveitarfélagið gefi umsögn um matsáætlun ofangreindrar framkvæmdar skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Í umsögninni þarf eftir því sem við á að koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Umsögnin óskast send Skipulagsstofnun eigi síðar en 19. apríl 2022.
Borist hefur erindi Skipulagsstofnunar er varðar útvíkkun á flæðigryfjum á hafnarsvæði Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um hvort sveitarfélagið telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Einnig er óskað eftir að Hvalfjarðarsveit geri grein fyrir þeim leyfum sem framkvæmdin er háð og eru á starfssviði sveitarfélagsins.
Hvað varðar hvort sveitarfélagið telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun, bendir nefndin á eftirfarandi: Tryggt verði að allur farmur sem fluttur er að flæðigryfjunum sé varinn bæði í flutningi og við losun, þannig að ekkert efni losni í andrúmsloft, hvorki í flutningi né við losun í gryfjurnar.
Tryggt verði að einungis sá úrgangur sem starfsleyfi heimilar sé losaður í flæðigryfjurnar.
Sækja þarf um framkvæmdarleyfi til Hvalfjarðarsveitar og tryggja þarf að framkvæmdin sé í samræmi við skipulag.
Umhverfis-, skipulags - og náttúruverndarnefnd samþykkir að vísa umsögninni til sveitarstjórnar.

10.Leirá - lýsingartillaga að deiliskipulagi - Réttarhaga I og II

2111023

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fjallaði um lýsinguna og umsagnir vegna hennar, á 152. fundi sínum þann 19. janúar sl.
Í kjölfarið var ákveðið að óska umsagna frá fleiri aðilum, og var í framhaldi óskað umsagnar Hafrannskóknarstofnunar og Veiðifélags Leirár, um lýsingartillögu dags. 24.01.2022.

Lögð fram umsögn Hafrannsóknarstofnunar dags. 24.02.2022 vegna lýsingartillögunnar, en þar bendir stofnunin á fjarlægð byggingarreita frá austurbakka Leirár en skv. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 segir "um heimild til mannvirkjagerðar í veiðivötnum" að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Hafrannsóknarstofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglum settum samkvæmt þeim.

Lögð fram umsögn Veiðifélagins Leirár vegna lýsingartillögunnar dags.13.03.2022, en fundur var haldinn í veiðifélaginu 11.03.2022 og bókað að engar athugasemdir væru gerðar við drög að væntanlegu deiliskipulagi.

Gerð er fyrirspurn um mögulega breytingu á deiliskipulagi Heiðarskóla og Heiðarborgar vegna fyrirhugaðs aðkomuvegar að nýjum lóðum Réttarhaga.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur lagt mat á framkomnar ábendingar vegna lýsingar og eftir atvikum brugðist við þeim/tekið tillit til þeirra.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd telur að heimila þurfi lagningu vegar gegnum land sveitarfélagsins vegna vegtengingar við Réttarhaga I og II.
Heimildin verði á grundvelli 2. málsgreinar 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010, en skv. henni þarf að grenndarkynna óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi en með hliðsjón af notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis, telst breytingin óverulega að mati Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar.

Umhverfis-,skipulags-og náttúruverndarnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún heimili lagningu vegar í gegnum land sveitarfélagsins vegna vegtengingar fyrir Réttarhaga I og II.

11.Erindi frá Veiðifélaginu Leirá

2104052

Erindi frá Veiðifélaginu Leirá er varðar aðkomu að veiðisvæði Leirár.
Á 348. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 22.03.2022 var erindið tekið fyrir og samþykkti sveitarstjórn að vísa erindinu til umfjöllunar í Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd.
Varðar málið skipulagskvöð um gegnumakstur skv. deiliskipulagi Vestri-Leirárgarða frá árinu 2010, m.a. um bæjarhlað Vestri-Leirárgarða sem jafnframt er aðkoma að veiðisvæði Leirár, en ábúendur/eigendur Vestri-Leirárgarða hafa að nokkru leyti lokað veginum fyrir umferð síðast liðið ár.
Er í bréfi formanns Veiðifélagsins Leirár gerð krafa um að sveitarfélagið beiti sér fyrir beitingu þvingunarúrræða í því skyni að opna akstursleið á landi Vestri-Leirárgarða.

Ragna Ívarsdóttir yfirgaf fundinn.
Í gildi er deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Vestri-Leirárgarða frá árinu 2010 og skv. deiliskipulaginu er kvöð um gegnumakstur eins og komið hefur fram. Umrædd kvöð samræmist sjónarmiðum og skipulagsmarkmiðum sveitarfélagsins á því svæði sem tillagan nær til enda tillagan samþykkt og staðfest af sveitarfélaginu á sínum tíma.
Á milli aðila málsins er ágreiningur, sem sveitarfélagið er ekki aðili að og telur sér ekki fært að taka afstöðu til enda um einkamál að ræða á landi í einkaeigu og hvetur sveitarfélagið aðila málsins til að leysa úr sínum ágreiningi.
Fyrir liggur tillaga að nýju vegstæði sem leysir af hólmi hið umdeilda vegstæði sem verið hefur að nokkru leyti lokað síðast liðið ár. Hefur sveitarfélagið tekið jákvætt í lagninu hins nýja vegar og hvatt landeigendur til að sækja um styrk í Styrkvegasjóð Vegagerðarinnar vegna lagningu hans og liggur fyrir að sótt hefur verið í þann sjóð en niðurstaða um styrkveitingu liggur ekki fyrir.

Í bréfi formanns Veiðifélagsins Leirár er gerð krafa um að sveitarfélagið beiti sér fyrir beitingu þvingunarúrræða í því skyni að opna akstursleið á landi Vestri-Leirárgarða. Telur sveitarfélagið sér ekki fært að hlutast um þetta deilimál milli aðila, sem er land í einkaeigu og málefnið því einkamál, hinsvegar telur sveitarfélagið að það hafi lagt sitt af mörkum við lausn málsins m.a. með með því að funda með málsaðilum og leita sátta, með því að taka jákvætt í lagningu nýs vegar osfrv.
Erindinu hafnað.

12.Melahverfi-Endurskoðun gildandi deiliskipulags.

2203054

Erindi frá Eflu hf dags. 15.03.2021 er varðar endurskoðun deiliskipulags fyrir Melahverfi þ.e. Lækjarmel, Innrimel og Hagamel.
Varðar erindið gerð nýs deiliskipulags fyrir núverandi íbúðarhverfi í Melahverfi en í gildi er deiliskipulag dags. í mars 1998.
Verkefnið felst í að útbúa nýtt deiliskipulag fyrir íbúða- og stofnanasvæði í samræmi við nýtt aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, sem auglýst verður síðar á árinu 2022.
Samþykkt að ganga til samninga við Eflu um gerð nýs endurskoðaðs deiliskipulags fyrir Melahverfi.

13.Gjaldskrárbreyting - Skipulags- og byggingarfulltrúi

2112013

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá umhverfis- og skipulagssviðs Hvalfjarðarsveitar.
Erindi frestað til næsta fundar.

14.Háhóll-Nafnabreyting-Hóll 1 F 2504870.

2203052

Erindi vegna nafnabreytingar frá Friðjóni Guðmundssyni.
Óskað er eftir að nafni lóðarinnar Háhóls, landeignanúmer L228513 verði breitt í Hóll 1, til samræmis við Hóll, landeignanúmer L133182 og Hóll 2, landeignanúmer L133184.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir erindið.

15.Br.ASK-Draghálsvirkjun

1911008

Þann 17. janúar 2022 hélt sveitarfélagið fund með fulltrúum Dragháls þar sem m.a. var rætt um fyrirhuguð rif á óleyfismannvirkjum sem risið hafa í landi Dragár. Á fundinum ræddu fulltrúar Dragháls um að þeir hyggðust reyna að ná samkomulagi við veiðifélagið um að nýta virkjunarmannvirkin til miðlunar vatns fyrir Laxá. Voru þessar hugmyndir ræddar á fundi veiðifélagsins í árslok 2021.
Á fundinum 17. janúar 2022 var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að fulltrúar Dragár fengju 4 vikur til að reyna að ná niðurstöðu um málið við veiðifélagið.

Nýlega kom fram að fundur hafi verið haldinn hjá Veiðifélagi Laxár miðvikudaginn 30. mars 2022 þar sem fulltrúar Dragháls hefðu farið yfir sínar hugmyndir um hvernig nýta mætti stíflumannvirki sem risin væru til vatnsjöfnunar fyrir vatnasvæði Laxár. Í framhaldi fundarins ætluðu fulltrúar Dragháls að senda veiðifélaginu formlegt erindi vegna málsins.

Lögmaður sveitarfélagsins hefur ítrekað málið við lögmann eiganda Dragháls.
Umhverfis-, skipulags og náttúruverndarnefnd samþykkir að vísa málinu til áframhaldandi vinnu til lögmanns sveitarfélagsins og skipulagsfulltrúa.

16.Ályktun frá fundi stjórnar Faxaflóahafna sf., 18. febrúar 2022.

2202023

Á 346. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar var erindiu vísað til umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar.
Bókun frá fundi stjórnar Faxaflóahafna sem haldinn var 18. febrúar 2022.
Bókunin varðar vatnsveitumál og framtíðartækifæri á Grundartanga.
Fyrir liggur m.a. skýrsla um vatnsöflunarmöguleika við Hvalfjörð sem unnin var árið 2011 af Gísla Karel Halldórssyni verkfræðingi hjá Verkís Verkfræðistofu.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að beina því til sveitarstjórnar að leita til Ísor, Íslenskra orkurannsókna varðandi samstarf um framtíðarvatnsöflun neysluvatns fyrir Hvalfjarðarsveit.

17.Eystri-vestri Leirárgarðar vegstæði.

2106060

Lagt fram kort af vegi í landi Eystri-Leirárgarða ásamt skilyrtu samþykki landeigenda Vestri-Leirárgarða frá 8. mars 2022.
Send hefur verið umsókn um styrk í svokallaðan Styrkvegasjóð Vegagerðarinnar vegna vegarins, umsóknarfrestur var til 11. mars sl. og niðurstöður styrkveitinga munu liggja fyrir í lok maí 2022.
Landeigendur Eystri-Leirárgarða hafa fallist á lagningu á nýjum vegi í sínu landi en vegurinn verður í landi Eystri-Leirárgarða.
Rætt hefur verið við fulltrúa hestamannafélagsins Dreyra um aðkomu að þessu verkefni.
Fyrirhugaður vegur verður um 420 m að lengd.
Lagt fram til kynningar.

18.Deiliskipulag Melahverfis, 3. áfangi.

2102151

Farið yfir umsagnir sem borist hafa um lýsinguna.
Rarik, Veitur, Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðin, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands.
Rarik gerir ábendingar um ýmsi atriði, m.a. um lagnaleiðir, mögulega þörf fyrir nýja spennistöð og færslu háspennustrengjar og kostnað sem af slíkum breytingum hlýst.
Veitur gera ábendingar um ýmis atriði sem snúa að dreifikerfi hitaveitu sem er í eigu Veitna, m.a. varðandi mögulega stækkun á hluta af dreifikerfi sem liggur frá stofnlögn að þéttbýlismörkum.
Skipulagsstofnun telur að lýsingin geri ágætlega grein fyrir skipulagsáformum en bendir á nokkur praktísk atriði í tengslum við vinnu við deiliskipulagið.
Minjastofnun gerir ekki athugasemdir við lýsingu deiliskipulags Melahverfis III.
Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemd við tillöguna en í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd kemur fram að leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar við gerð deiliskipulags á náttúruverndarsvæðum og á svæðum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laganna, telur stofnunin að svæðið sem deiliskipulagstillagan nær til sé hvorki á náttúruverndarsvæðum né á svæðum sem njóta sérstakrar verndar og því þurfi þurfi ekki umsögn stofnunarinnar.
Vegagerðin gerir ekki athugasemdir við lýsingu deiliskipulags Melahverfis III.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gerir ekki athugasemdir við lýsingu deiliskipulags Melahverfis III.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur lagt mat á framkomnar ábendingar og eftir atvikum brugðist við þeim/tekið tillit til þeirra.
Samþykkt að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Melahverfi III.

19.Fellsendavegur-héraðsvegur

2012031

Svarbréf frá Vegagerðinni sem var móttekið 18.03.2022.
Á 329 fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 11.5.2021, var samþykkt að óska eftir því við Vegagerðina að Fellsendavegur verði á ný skráður sem héraðsvegur og færður undir umsjá Vegagerðarinnar. Var Vegagerðinni í kjölfarið sent erindi þess efnis.
Í svarbréfi Vegagerðarinnar er óskað nýrrar umsóknar frá Þrótti ehf, um að Fellsendavegur verði aftur tekinn inn á vegaskrá, enda séu uppfyllt skilyrði vegalaga um atvinnustarfsemi og þurfa gögn að fylgja umsókninni til stuðnings.
Lagt fram til kynningar.
Málið verður áfram í höndum lögmanns sveitarfélagsins.

20.Umsögn um umhverfismatsskýrslu vegna endurnýjunar búnaðar og aukna framleiðslugetu eggjabús Vallár á Kjalarnesi.

2203065

Erindi frá Skipulagsstofnun.
Stjörnuegg hf. hafa lagt fram umhverfismatsskýrslu um endurnýjun búnaðar og aukna framleiðslugetu eggjabús Vallár á Kjalarnesi í Reykjavík. Skipulagsstofnun fer fram á að sveitarfélagið sem umsagnaraðili veiti umsögn um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Umsagnaraðilar skulu gefa álit sitt í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í umsögn skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu út frá starfssviði sínu, svo sem um gögn sem byggt er á, úrvinnslu gagna, mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa eða framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við leyfisveitingar, svo sem varðandi mótvægisaðgerðir og vöktun. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.

Umsögn óskast send Skipulagsstofnun í síðasta lagi 17. maí 2022.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd felur umhverfisfulltrúa og skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

21.Vegalagning á milli Hafnarland Lísuborgir og Hrauka

2112025

Ósk um framkvæmdaleyfi skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Ósk um heimild til veglagningar vegna aðkomuvegar að Hafnarlandi-Lísuborgum landeignanúmer L203319, en vegurinn tengist einnig Þjóðvegi 1.
Fyrir liggur jákvæð umsögn Vegagerðarinnar.
Skipulagsfulltrúa falið að óska eftir frekari gögnum.

22.Ósk um stofnun lóðar umhverfis íbúðarhúsið Gandheimum

2204002

Sótt er um stofnun 3,0 ha lóðar umhverfis íbúðarhúsið Gandheimum, landeignanúmer L197607.
Nýja lóðin mun heita Gandheimar 1.
Matshlutar 01 íbúðarhús og 02 bílskúr munu fylgja nýju lóðinni.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir stofnun lóðarinnar.

23.Bjarkarás 11 - Grenndarkynning - byggingarleyfi

2109006

Á 156. fundi Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar þann 02.03.2022 samþykkti nefndin að óska leiðbeininga frá Skipulagsstofnun hvort fyrirhuguð bygging samræmist deiliskipulagsskilmálum fyrir íbúðarbyggðina Bjarkarási.

Meðfylgjandi er svar Skipulgsstofnunar:
"Vegna fyrirspurnar sveitafélagsins frá 8. mars sl. um túlkun stofnunarinnar eða skilgreiningu á frístundabúskap eða hvers konar starfsemi geti fallið undir slíka skilgreiningu vill stofnunin benda á að þar sem ákvæði aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar fyrir landbúnaðarland eru opin en ekki takmarkandi hvað þetta varðar þá verði að telja svo að hvers konar starfsemi sem ekki er hugsuð í atvinnuskyni geti flokkast undir frístundabúskap sbr. einnig það sem kemur fram í deiliskipulagi fyrir Bjarkarás. Það geti átt við hvers konar vélargeymslur eða verkstæði til eigin nota.
Að mati stofnunarinnar eru ákvæði aðalskipulags það opin að túlka megi það svo að umrædd starfsemi, eða eins og kemur fram í fyrirspurn, 697,38 fermetra bílgeymsla, sé í samræmi við ákvæði bæði í aðalskipulagi og deiliskipulag fyrir umrætt svæði.
Í þessu tilfelli bendir stofnunin á, óháð þessu máli, að tilefni getur verið til að endurskoða ákvæði aðalskipulags fyrir landbúnaðarsvæði sé vilji til þess að skilgreina nánar starfsemi á landbúnaðarlandi."
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd samþykkir að leita álits/rökstuðnings Skipulagsstofnunar að nýju, er varðar álitaefni í svari stofnunarinnar.

24.Matfugl að Hurðarbaki - Matsáætlun-Starfsleyfi.

2201012

Erindi frá Umhverfisstofnun þar sem vakin er athygli á að stofnunin hefur tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrir Matfugl að Hurðarbaki Hvalfjarðarsveit.
Starfsleyfið hefur þegar tekið gildi, eins og sjá má nánar í frétt vegna útgáfunnar á vefsíðu stofnunarinnar, www.ust.is, en gildistími starfsleyfisins er til febrúar 2038.

Lagt fram til kynningar.

25.Umsögn um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029-Ásgarðsland.

2203043

Erindi frá Skipulagsfulltrúa Kjósarhrepps.
Óskað er umsagnar skv. 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur ekki athugasemd og gefur jákvæða umsögn.

26.Litlu-Tunguskógur - ósk um umsögn - skipulagslýsing fyrir aðalskipulagsbreytingu

2203062

Erindi frá Skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar.
Óskað er umsagnar skv. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur ekki athugasemd og gefur jákvæða umsögn.

27.Breiðabólsstaður 2 - ósk um umsögn - skipulags- og matslýsing fyrir aðalskipulagsbreytingu

2203061

Erindi frá Skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar.
Óskað er umsagnar skv. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd hefur ekki athugasemd og gefur jákvæða umsögn.

28.Smíði leiðbeininga um skipulag í dreifbýli

2203044

Erindi frá Skipulagsstofnun.
Skipulagsstofnun hóf nýlega vinnu við gerð leiðbeininga um skipulag í dreifbýli. Gert er ráð fyrir að þær muni nýtast kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum, skipulagsfulltrúum, skipulagsráðgjöfum og öðrum aðilum sem koma að skipulagsgerð í dreifbýli, svo sem umsagnaraðilum og landeigendum.
Að mörgu er að hyggja við gerð skipulagsáætlana eins og lög og reglugerðir kveða á um. Við gerð leiðbeininganna hefur verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti sem valdir hafa verið m.t.t. markmiða skipulagslaga og jarðalaga, Landsskipulagsstefnu 2015?2026, tillögu að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu (sbr. þingskjal 1184 / 705. mál á 151. löggjafarþingi 2020-2021) og aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
Á þessu stigi er gert ráð fyrir að leiðbeiningarnar skiptist í fjóra meginkafla með eftirfarandi áherslum:
- Náttúrugæði og verndun
- Loftslagsmál og landnotkun
- Landslag og staðarandi
- Byggð, samfélag og samgöngur

Erindið nú er að upplýsa um að þessi vinna er hafin.
Jafnframt að hvetja til að komið verði á framfæri ábendingum um efnistök og atriði sem tilefni er til að gefa sérstakan gaum í leiðbeiningunum.
Ábendingum skal komið til Salvarar Jónsdóttur sem annast verkefnisstjórn við smíði leiðbeininganna.
Lagt fram til kynningar.

29.Farsímasamband á Vesturlandi.

2203035

Farsímasamband á Vesturlandi - vinnan framundan.
Á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi þann 29. sept sl. var m.a. lögð fram ályktun um samgöngumál og innviði þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að ráðin yrði bót á lélegu farsímasambandi og dreifikerfi almannaútvarps á afmörkuðum svæðum við þjóðveg 1, í dreifbýli og á vinsælum útivistarsvæðum á Vesturlandi, af öryggisástæðum.
Á fundi Almannavarnarnefndar Vesturlands þann 11. mars sl. var m.a. umræða um farsímasamband og mikilvægi þess að fá fram úrbætur á þeim stöðum og svæðum þar sem samband er lélegt en um afar brýnt öryggisatriði er að ræða. Á Vesturlandi eru þó nokkur svæði sem þetta á við um og í Hvalfjarðarsveit eru m.a. svæði á Hvalfjarðarströnd og Innnesi sem mikilvægt er að fá fram úrbætur.
Í samræmi við nýja samgöngu- og innviðaáætlun Vesturlands munu sveitarfélögin á Vesturland vinna saman að því á vegum SSV að kortleggja svæðið og vinna að framgangi málsins, þrýsta á um betra farsímasamband á þeim svæðum þar sem úrbóta er þörf.
Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd telur mikilvægt að unnið verði að bættum fjarskiptaskilyrðum í sveitarfélaginu.
Lagt fram til kynningar.

30.Mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og réttur barna til þáttöku og áhrifa.

2201060

Á 345. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar sem haldinn var 8.2.2022 var tekið fyrir erindi frá Umboðsmanni barna og því vísað áfram til starfandi nefnda sveitarfélagsins til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

31.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Vinnslutillaga hefur verið auglýst og nú er endanleg tillaga sveitarstjórnar vegna aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í yfirferð hjá Skipulagsstofnun, og bíður sveitarfélagið heimildar til að auglýsa aðalskipulagstillöguna.
Þegar heimild kemur frá Skipulagsstofnun mun sveitarfélagið auglýsa aðalskipulagið og hafa m.a. almenningur og hagsmunaaðilar þá 6 vikur til að gera athugasemdir við aðalskipulagið.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar