Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

46. fundur 19. febrúar 2025 kl. 15:30 - 17:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Landeldi í Hvalfirði - umsagnarbeiðni.

2407026

Umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun.

Skipulagsstofnun leitar nú umsagnar sveitarfélagsins vegna matsáætlunar vegna fyrirhugaðs landeldis, sbr. meðfylgjandi ódagsett bréf frá Skipulagsstofnun, sem finna má á vef Skipulagsgáttar.



Aurora fiskeldi ehf. áformar að byggja landeldistöð fyrir lax á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Fyrirhuguð framleiðsla er um 28.000 tonn á ári en stöðin verður staðsett á lóð nr. 34 á Grundartanga.

Sjó verður dælt beint inn í stöðina úr Hvalfirði en áætluð vatnsþörf er um 27,0 m3/sek og gert er ráð fyrir um 75% endurnýtingu á sjóvatni. Áætluð ferskvatnsþörf er um 7,2 l/s en gert er ráð fyrir 99% endurnýtingu á ferskvatnshluta framleiðslunnar.

Uppbygging er áætluð á næstu árum og gert er ráð fyrir að fullri framleiðslu verð náð árinu 2028.

Málið á sér forsögu, en sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit gaf umsögn um matstilkynningu á sl. ári, sbr. bréf í viðhengi til Skipulagsstofnunar dags. 28. ágúst 2024, þá var fyrirhuguð framleiðsla um 14.000 tonn á ári.



„Í umsögn umsagnaraðila skal koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.“



Umhverfis- og skipulagsdeild leitaði ráðgjafar hjá Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðingi hjá Environice vegna málsins.
Með ódagsettu bréfi hefur Skipulagsstofnun leitað umsagnar Hvalfjarðarsveitar um matsáætlun vegna umhverfismats fyrirhugaðs landeldis Aurora fiskeldi ehf. á Grundartanga, þar sem ætlunin er að framleiða 28.000 tonn af laxi árlega. Það er mat umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar að í matsáætluninni sé gerð fullnægjandi grein fyrir því hvernig staðið verði að umhverfismati. Því telur nefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við matsáætlunina. Nefndin vill þó leggja áherslu á nauðsyn þess að í umhverfismatsskýrslu komi skýrt fram hver sé heildarferskvatnsþörf framleiðslunnar og hversu margir sekúndulítrar þar af þurfi að koma frá vatnsveitu (eða úr sjó með RO-síun), ásamt nákvæmri lýsingu á því hvernig þess vatns verður aflað. Einnig er ástæða til að skýra hvernig komið verður í veg fyrir slysasleppingar við flutning sláturfisks, svo sem frá kerjum til skips. Þá bendir nefndin á að eins og fram kemur í matsáætlun er framkvæmdasvæðið í jaðri svæða á Náttúruminjaskrá og hverfisverndarsvæðis samkvæmt aðalskipulagi. Gera þarf skýra grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á þessi svæði og hvernig reynt verður að lágmarka þau. Þessu til viðbótar minnir nefndin á, að eins og fram kemur í matsáætlun er framkvæmdin háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, mannvirki á framkvæmdasvæðinu eru háð byggingarleyfi og framkvæmdin kallar á breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og deiliskipulagi hafnar-, iðnaðar-, og athafnasvæðis á Grundartanga, austursvæði.

2.Umsagnarbeiðni vegna vísindarannsókna.

2502007

Utanríkisráðuneytið óskar með bréfi dags. 04.02.2025 eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna umsóknar Rastar sjávarrannsóknarseturs í samstarfi við fleiri aðila, um leyfi til vísindalegra rannsókna í Hvalfirði sbr. VI. kafla laga nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn.

Sótt er um leyfi til að framkvæma tvær aðskildar rannsóknir í Hvalfirði sumarið 2025. Annars vegar er um að ræða litaefnisrannsókn sem áætluð er í maí 2025 og hins vegar basavirknirannsókn sem áætluð er í júní 2025.

Tilgangur rannsóknanna er að auka vísindalegan og tæknilegan skilning á aðferð sem felst í aukningu á basavirkni sjávar og aðferðar til að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu.

Frestur til að svara erindinu er til 27.02.2025.

Utanríkisráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum frá Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, Matvælaráðuneytinu, Kjósarhreppi, Hval hf, Veiðifélags Kjósarhrepps, auk Hvalfjarðarsveitar.

Umhverfis- og skipulagsdeild leitaði ráðgjafar hjá Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðingi hjá Environice vegna málsins.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar leggst ekki gegn því að Utanríkisráðuneytið veiti Röst sjávarrannsóknasetri leyfi til rannsókna á basavirkni sjávar í Hvalfirði, sbr. umsagnarbeiðni ráðuneytisins dags. 4. febrúar 2025. Út frá fyrirliggjandi gögnum telur nefndin mjög ólíklegt að rannsóknin hafi neikvæð áhrif á lífríki í Hvalfirði, nema þá mjög tímabundið í 0-100 m fjarlægð frá losunarstað. Hönnun rannsóknarinnar miðast við að losun natríumhýdroxíðs verði þannig stýrt að öruggum pH-mörkum verði viðhaldið og í umsókninni er sett fram ítarleg áhættugreining og viðbragðsáætlun sem fylgt verður ef eitthvað fer úrskeiðis. Þá hefur umsækjandi lagt til að Umhverfis- og orkustofnun hafi eftirlit með rannsókninni, þrátt fyrir að slíkt sé ekki skylt skv. lögum. Loks bendir nefndin á að rannsóknin er til þess fallin að auka þekkingu á basavirkni sjávar og mögulegri nýtingu þessarar virkni í þágu loftslagsmála og viðhalds lífríkis í sjó.

3.Kúludalsá - Skipulagslýsing.

2409001

Lögð fram skipulagslýsing dags. 14.02.2025.

Breyting aðalskipulags fyrir Kúludalsá. Landbúnaðarsvæði verður íbúðarbyggð og frístundabyggð verður athafnasvæði.

Lögð er fram skipulagslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 og vinnslu deiliskipulags í landi Kúludalsár í Hvalfjarðarsveit.



Skipulagssvæðið skiptist í tvo hluta sem eru sitt hvorum megin við bæjarhúsin að Kúludalsá. Svæðið vestan bæjartorfunnar var í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 skilgreint sem frístundabyggð, en í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 var því breytt í landbúnaðarland. Að öllum líkindum átti ekki að breyta landnotkun svæðisins, en þar standa sumarhús og er svæðið deiliskipulagt fyrir frístundabyggð. Þessu svæði verður breytt úr landbúnaðarsvæði í íbúðarbyggð og nær það til eftirtalinna landeigna: Kúludalsárland 4 L133703, Kúludalsá 4a L192916, Lambalækur L192917, Kúludalsá 4C L192918, Kúludalsá 4D L192919, Kúludalsá 4E L192920.



Svæðið austan við bæjartorfuna nær það til hluta Kúludalsárlands 2 L186597. Því verður að hluta til breytt úr frístundabyggð (F35) í athafnasvæði og því sem eftir stendur verður breytt í landbúnaðarland. Fyrirhugað er að skipuleggja athafnasvæðið fyrir léttan iðnað, vörugeymslur o.fl. Svæðið sem um ræðir er deiliskipulagt sem skógræktarsvæði. Skipulags- og byggingarskilmálar verða nánar útfærðir í aðalskipulagsbreytingu og í deiliskipulagi sem verður unnið nokkuð samhliða breytingu á aðalskipulagi, annars vegar fyrir íbúðarsvæði og hins vegar fyrir athafnasvæði.

Skipulagssvæðið er í tvennu lagi, sitt hvoru megin við bæjartorfuna á Kúludalsá. Innan þess eru 6 lóðir og þar eru skráð 8 mannvirki. Samanlagt er stærð skipulagssvæðisins er um 13 ha.
Umrætt svæði er skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skilgreint annars vegar sem úrvals landbúnaðarland L1 með takmörkuðum byggingarheimildum og hinsvegar sem frístundasvæði F35. Um landbúnaðarland L1 gildir að eingöngu er að jafnaði heimilt að byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur bús s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Heimilt er að byggja upp í tengslum við núverandi bæjartorfur eða í jaðri svæða.
Skv. kafla 2.2.1 um íbúðabyggð segir í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, í almennum skilmálum fyrir dreifbýli, að ekki sé gert ráð fyrir nýjum íbúðasvæðum í dreifbýli á skipulagstímanum, umfram Hlíðarbæ (ÍB1) og Bjarkarás (ÍB2).
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að um sé að ræða verulega breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í ljósi þess að umrædd breyting sé ekki í samræmi við meginmarkmið aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Hinsvegar telur nefndin að breytingartillaga aðalskipulagsins sem snýr að breytingu landbúnaðarlands í íbúðarbyggð, á svæði sem er deiliskipulagt sem frístundabyggð, sé að stóru leyti leiðrétting á misræmi sem sé að finna í skipulagi svæðisins.
Vill nefndin árétta eftirfarandi atriði og tefla fram sem rökstuðningi fyrir umræddum breytingum:

a)

Skv. töflu 3, um skilmála fyrir frístundabyggð í kafla 2.2.2, segir í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 að gert sé ráð fyrir tveimur frístundabyggðasvæðum í landi Kúludalsár, en um sé að ræða svæði F34 sem er 14 ha að stærð, ofan þjóðvegar og gerir ráð fyrir 24 frístundahúsalóðum og svæði F35 sem er 18 ha að stærð, neðan þjóðvegar og gerir ráð fyrir 18 frístundahúsalóðum. Samtals er því um að ræða 32 hektara af frístundabyggð og 42 frístundahúsalóðum, umfram það svæði sem þegar sé deiliskipulagt sem frístundasvæði, en er landbúnaðarland skv. aðalskipulagi. Engum lóðum hefur verið úthlutað / engin lóð verið seld það sem af er skipulagstímabilinu og skv. þeirri tillögu sem hér um ræðir er frístundasvæðið neðan þjóðvegar, þ.e. F35, fellt út úr skipulagi sem frístundasvæði og því breytt að hluta til aftur í landbúnaðarland og að hluta til í aðra landnotkun þ.e. athafnasvæði.
Telur nefndin að umrædd breyting sé ekki óeðlileg sé raunin sú að ekki hafi verið eftirspurn eftir frístundahúsalóðum á svæðinu.

b)

Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Kúludalsár, reitur E, frá árinu 1998. Þar kemur fram að á svæðinu séu 5 frístundahúsalóðir.
Ljóst er því að deiliskipulag svæðisins er á skjön við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins, en landnotkun þess lands sem skilgreint er deiliskipulag frístundabyggðar sbr. reitur E, frá árinu 1998, er landbúnðarland skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

c)

Sú landnotkunarbreyting sem tillagan hefur í för með sér (íbúðabyggð), hefur óveruleg áhrif á umhverfið þegar horft er til þess að landið er að stórum hluta til þegar byggt og þegar séu íbúðarhús og sumarhús byggð á svæðinu, fyrir sé vegtenging við þjóðveg 1 og vegagerð til staðar milli húsa í hverfinu, lagnir á svæðinu ofl. Ekki er talið að breytingin hafi áhrif á einstaka aðila s.s. nágranna eða hafi áhrif á stórt svæði.

d)

Ákveðið misræmi er í því fólgið að landið, þar sem þegar eru komnar byggingar, sé skráð sem L1 í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar. Svæðið er þegar raskað og ljóst að ekki er um að ræða afturkræfar framkvæmdir og landið því ekki nýtanlegt sem landbúnaðarland.

e)

Skv. kafla 2.2.1 um íbúðarbyggð segir í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 að sveitarfélagið leggi áherslu á að skilgreind íbúðarsvæði verði í góðum tengslum við núverandi veitukerfi s.s. vegi, rafmagns- og ljósleiðaratengingar. Við skipulag þeirra skuli tryggja aðkomu og flóttaleiðir út frá öryggissjónarmiðum. Að mati nefndarinnar er þessi breyting á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar gerð með hliðsjón af þessu.

f)

Eins og fram hefur komið segir í kafla 2.2.1 um íbúðarbyggð, í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, í almennum skilmálum fyrir dreifbýli, að ekki sé gert ráð yfir nýjum íbúðarsvæðum í dreifbýli á skipulagstímanum, umfram Hlíðarbæ (ÍB1) og Bjarkarás (ÍB2). Í Hlíðarbæ er skipulagssvæðið fullbyggt, en í Bjarkarási hefur þeim lóðum sem til reiðu voru við gerð aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, ýmist verð úthlutað eða þær verið byggðar.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í landi Kúludalsár í Hvalfjarðarsveit. Lýsingin er samþykkt með áorðnum breytingum og er Umhverfis- og skipulagsdeild falið að koma þeim breytingum á framfæri við skipulagshöfund.
Í afgreiðslu nefndarinnar felst m.a. að leita umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

4.Hafnarberg Hafnarland L 208217 - deiliskipulag

2411019

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 28. nóvember 2024 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Hafnarberg í landi Hafnar. Skipulagssvæðið er um 10 ha að stærð og skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Innan svæðisins eru fyrirhuguð 22 gistihús, 3 þjónustubyggingar/veitingahús, aðstaða fyrir tjaldsvæði, 2 íbúðarhús og skemma. Aðkoma að svæðinu er frá Vesturlandsvegi.

Tillagan var auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins og í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2024 til 16. janúar 2025.

Alls bárust umsagnir/athugasemdir frá 7 aðilum á kynningartíma tillögunnar.

Lagðar eru fram tillögur að viðbrögðum við umsögnum og eftir atvikum hefur verið brugðist við þeim. Eftir auglýsingu hafa verið gerðar breytingar á byggingarreitum og var nýjum reit, b4 bætt við fyrir þjónustuhús á tjaldsvæði, bætt hefur verið inn texta varðandi fornminjar, vatnsból og varðandi votlendi og fuglalíf. Á uppdrætti voru gögn uppfærð í samræmi við uppfærða landeignarskrá HMS og nr. á byggingarreiti uppfært fyrir þjónustuhús á tjaldsvæði.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti deiliskipulag Hafnarbergs með áorðnum breytingum og að gildistaka þess verði send til staðfestingar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar eftir auglýsingu.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

5.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Vallarás.

2501004

Erindi sem vísað var til USNL-nefndar frá byggingarfulltrúa.

Með umsókn dags. 06.01.2025 sækir hönnuður f.h. lóðarhafa um byggingaráform og byggingarleyfi á lóðinni Vallárási L237453, sem er 4.355 m2 lóð skv. fasteignaskrá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar.



Ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu. Sótt er um leyfi til að byggja steinsteypt íbúðarhús á lóðinni Vallarási, um er að ræða matshluta 01, brúttóflötur 397,7 m2 og 1.699,9 m3. Undirstöður og veggir eru steinsteypt ásamt gólfplötu. Burðarvirki þaks er timbur, klætt bárujárni. Húsið er eitt brunahólf.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið.
Grenndarkynnt verði m.a. hjá aðliggjandi lóðarhöfum.
Vellir 7 L219979, Reynivellir L219975, Vellir 4 L219976, Vellir 6 L219978, Vellir 2 L219974, auk upprunajarðar Vellir 1 L219973.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

Sæmundur Víglundsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

6.Virkjun í landi Þórisstaða.

2310021

Erindi dags. 14.02.2025 frá landeiganda Þórisstaða.

Óskað er eftir að USNL-nefnd taki afstöðu til fyrirhugaðrar staðsetningar stöðvarhúss vegna örvirkjunar sem landeignadi hefur áform um.

Nefndin hefur áður fjallað um erindi er varðar greinda framkvæmd.
Á fundi nefndarinnar þann 17. apríl 2024 kom fram að deiliskipulag þurfi að liggja fyrir áður en framkvæmdarleyfi er gefið út. Umsókn landeiganda um útgáfu framkvæmdarleyfis var hafnað á greindum fundi þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Þá ákvörðun hefur landeigandi kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir.
Landeigandi óskar nú eftir því að nefndin taki afstöðu til staðsetningar stöðvarhúss sem áætlað er að verði 15 til 25 fermetrar að stærð. Þá er í erindinu skorað á nefndina að kynna sér aðstæður við Kúhallará varðandi þá stöðu sem verður ef ekki verður veitt leyfi fyrir stöðvarhúsinu á þeim stað sem óskað er eftir.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur sér ekki fært að verða við beiðni landeiganda um að staðfesta fyrirhugaða staðsetningu stöðvarhúss áður en deiliskipulagsferlið hefst. Nefndin ítrekar því fyrri bókun sína frá 17. apríl 2024 og bendir á að réttur farvegur málsins er að deiliskipulag verði gert fyrir umrætt svæði.

7.Erindi vegna endurskoðunar á gjaldskrá byggingarleyfisgjalda.

2502022

Erindi dags. 14.02.2025 frá Axel Helgasyni.

Með erindinu er m.a. ábendingum við gildandi gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir afgreiðslu umsókna, leyfisveitinga og þjónustu byggingarfulltrúa, komið á framfæri við sveitarfélagið.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd þakkar fyrir þær ábendingar sem gerðar eru við gildandi gjaldskrá sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

8.Styrkvegasjóður Vegagerðarinnar.

2502017

Erindi dags. 10.02.2025 frá Vegagerðinni.

Fram kemur að búið sé að opna fyrir umsóknir í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar og er umsóknarfrestur til 7. mars næstkomandi en sótt er um á mínum síðum Vegagerðarinnar.

Umsækjandi skal leggja fram greinargóða lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd sem felur m.a. í sér upplýsingar um staðsetningu og notkun vegar, áætlaðan kostnað og aðra fjármögnun verksins.

Umsækjandi hverju sinni skal vera veghaldari samgönguleiðar sem nýtur styrks samkvæmt reglum þessum.

Samgönguleiðir sem njóta styrkja samkvæmt þessum reglum skulu opnar allri almennri umferð.

Vegagerðin greiðir út styrki á grundvelli umsókna sem fullnægja skilyrðum reglna þessara og fengið hafa samþykki ráðherra.

Styrkur skal eigi afgreiddur fyrr en framkvæmd hefur verið tekin út án athugasemda og framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi liggur fyrir ef þess gerist þörf.

Vegagerðin gerir tillögu um afgreiðslu styrkveitinga til ráðherra.



Heimilt er að veita styrki til samgönguleiða skv. reglum nr. 1155/2011, vegna:

1) vega yfir fjöll og heiðar sem ekki teljast þjóðvegir;

2) vega að bryggjum;

3) vega að skíðasvæðum;

4) vega að skipbrotsmannaskýlum;

5) vega að fjallskilaréttum;

6) vega að leitarmannaskálum;

7) vega að fjallaskálum;

8) vega innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða;

9) vega að ferðamannastöðum;

10) vega að flugvöllum og lendingarstöðum sem ekki eru áætlunarflugvellir, en taldir eru upp í samgönguáætlun.



Vegna þessa óskaði sveitarfélagið á heimasíðu Hvalfjarðarsveitar eftir ábendingum frá landeigendum um styrkhæf verkefni, fyrir miðvikudaginn 19. febrúar n.k.

USNL-nefnd samþykkir að fela Umhverfis- og skipulagsdeild og eftir atvikum í samstarfi við landeigendur/veghaldara á hverjum stað, að sækja um verkefni skv. umræðum á fundinum. Fram kom að sækja um vegna liða 5) og 8), en um er að ræða vegi að fjallskilaréttum og skógræktarsvæði.

9.Útgáfa ferlisleiðbeininga fyrir skipulagsgerð

2502018

Erindi dags. 11.02.2025.

Skipulagsstofnun vill vekja athygli á að út eru komnar leiðbeiningar um ferli við gerð aðal- og deiliskipulags. Leiðbeiningarnar gefa yfirlit yfir ferli við gerð nýs skipulags og verulegra- og óverulegra breytinga á skipulagi og er ætlað að nýtast þeim sem koma að skipulagsferlinu með einum eða öðrum hætti. Þar er leitast við að gefa heildstætt yfirlit yfir hvert ferli, allt frá lýsingu til staðfestingar skipulags og um leið gera grein fyrir hverju skrefi ferlisins og aðkomu þeirra aðila sem að því koma, með vísan í skipulagslög og reglugerð.



Leiðbeiningarnar má finna undir útgefnu efni á vef stofnunarinnar:

- Nýtt aðalskipulag

- Breyting á aðalskipulagi

- Frestun á gerð aðalskipulags

- Nýtt deiliskipulag

- Breyting á deiliskipulagi



Útgáfan er skref í endurskoðun leiðbeininga Skipulagsstofnunar um skipulag og umhverfismat, sem stofnunin vinnur nú að.

Ábendingum um leiðbeiningarnar má koma á framfæri við Skipulagsstofnun.



Skipulagsstofnun vinnur einnig að gátlistum fyrir skipulagsgerð sem nýst gætu skipulagsfulltrúum við yfirferð skipulags og ráðgjöfum við gerð og frágang skipulagsáætlana. Gátlistarnir eru nú í rýni.



Lagt fram til kynningar.

10.Fluglainflúensa.

2502020

Erindi frá Náttúruverndarstofnun þar sem fram kemur að þann 30. janúar sl. hafi íslenskur refur greinst með fuglaflensu af gerðinni H5N5.

Fram kemur í erindinu að nú séu vetrarveiðar á ref í gangi og mikilvægt sé að veiðimenn séu upplýstir um málið ef ske kynni að þeir rækjust á ref sem hegðar sér undarlega eða virðist máttfarinn, svo og ef hræ af refum finnast en þá ætti að hafa samband við Matvælastofnun. Á vef Matvælastofnunar má koma ábendingum á framfæri. Matvælastofnun hefur birt frétt um efnið á heimasíðu sinni þann 31. janúar sl., og mælist til þess að sveitarfélög upplýsi veiðimenn sína um málið.
Sveitarfélagið upplýsti veiðimenn Hvalfjarðarsveitar 3. febrúar s.l. um málið.
Lagt fram til kynningar.

11.Reglur Hvalfjarðarsveitar um laun sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarmanna.

2204048

Reglur Hvalfjarðarsveitar um laun til fulltrúa í sveitarstjórn, nefndum, ráðum og kjörstjórn.

Uppfærðar reglur voru samþykktar á 413. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 22. janúar 2025.

Breytingin felur í sér að bætt hefur verið inn í reglurnar launum fyrir setu í ráðum/vinnuhópum/stýrihópum og launum fyrir setu í kjörstjórn.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Efni síðunnar