Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

44. fundur 09. desember 2024 kl. 15:30 - 17:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Ómar Örn Kristófersson vék af fundi undir lið nr.5.

1.Holtavörðuheiðarlína 1 - umhverfismatsskýrsla

2410020

Skv. Skipulagsgátt er kynning á niðurstöðum umhverfismatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum Holtavörðuheiðarlínu 1, í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og er opið fyrir umsagnir/athugasemdir vegna þess.

Landsnet áformar að byggja allt að 91 km langa 220 kV raflínu, Holtavörðaheiðarlínu 1, frá Klafastöðum í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta afhendingaröryggi á byggðalínusvæði og bæta tiltæka afhendingargetu ásamt því að stuðla að orkuskiptum í landinu með því að tengja nýja endurnýjanlega orkuframleiðslu við meginflutningskerfið. Holtavörðuheiðarlína 1 er matskyld framkvæmd og í umhverfismatinu lagði Landsnet fram 12 valkosti að fyrirhugaðri línuleið og í umhverfismatsskýrslunni er lagt mat áhrif valkosta á þætti er snerta umhverfi, samfélag, öryggi og hagkvæmni. Aðalvalkostur samanstendur af valkostum er fylgja Vatnshamralínu 1 og Hrútatungulínu 1 auk 5 valkosta er víkja aðeins frá þeirri leið.

Kynningarfundir Landsnets vegna umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðarlínu 1 voru haldnir í október m.a. á Hótel Laxárbakka.

Síðasti frestur til að gefa umsögn er til 12. desember n.k.



Skipulagsstofnun leitar umsagnar Hvalfjarðarsveitar, dagsett 1.10.2024 í Skipulagsgátt, um umhverfismatsskýrslu framkvæmda Holtavörðulínu 1, sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum á grundvelli 23. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Umsagnartími var frá 4. október til 29. nóvember 2024. Hvalfjarðarsveit fékk frest til að skila sinni umsögn til 12. desember 2024.

Umhverfismatsskýrsla fyrir Holtavörðuheiðarlínu 1 var kynnt íbúum Hvalfjarðarsveitar á opnum fundi á 23. október s.l. á Hótel Laxárbakka.

Í umsagnarbeiðni Skipulagsstofnunar til Hvalfjarðarsveitar kemur fram að í umsögn skuli koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við umfjöllun í umhverfismatsskýrslu út frá starfssviði umsagnaraðila, svo sem gögn sem byggt er á, úrvinnslu gagna, mat á vægi og eðli umhverfisáhrifa eða framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skorti, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við leyfisveitingar, svo sem varðandi mótvægisaðgerðir og vöktun. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.

Sveitarfélagið hefur farið fram á það að ný lína og gamla Vatnshamralínan verði báðar settar á eina stauralínu til þess að minnka áhrifasvæðið og ásýndina einkum með tilliti til fuglalífs og ítrekar hér með fyrri afstöðu sína og telur að betur þurfi að gera grein fyrir þessum þætti.

USNL-nefnd ítrekar athugasemdir sínar um nauðsyn þess að koma loftlínu í jörðu, vonast er til að tæknilegar lausnir verði tiltækar þegar til framkvæmda komi og að umhverfismat leiði í ljós að loftlína verði betri kostur á grundvelli umhverfissjónarmiða.

Í niðurstöðum skýrslunnar koma fram upplýsingar um fjölbreytileika og mikilvægi fuglalífs í sveitarfélaginu, ekki hvað síst á svæðinu í nágrenni framkvæmdasvæðisins eins og votlendissvæðinu umhverfis Hólmavatn og Eiðisvatn og einnig um farleiðir fugla milli mikilvægra fuglasvæða Hvalfjarðar og Grunnafjarðar. Í ljósi samantektar um samanburð á valkostum og athugunum skv. viðaukum 3 í umhverfismatsskýrslu, vill USNL-nefnd minna á mikilvægi þess að val á línuleið taki tillit til fuglalífs og farleiða þeirra í sveitarfélaginu. Á leið A1, Bjarnarholtsleið, er áflugshætta metin einna mest vegna þess að hún liggur ekki samsíða núverandi línum. Valkostur A1 liggur yfir vestanverðan bakka Hólmavatns, og myndu raflínur því þvera vatnið á tveimur stöðum með ólíka stefnu, sem gæti leitt til flóknari flugumferðar umhverfis vatnið í stað þess að liggja samsíða núverandi línum. Valkosturinn myndi því brjóta upp óbrotið svæði. Lega línunnar yrði milli tveggja nálægra vatna, Eiðisvatns og Hólmavatns og mun því einnig auka á áflugshættu vatnafugla sem flakka á milli vatnanna.
USNL-nefnd telur nokkuð dregið úr framangreindum upplýsingum í umhverfismatsskýrslu, töflu 11.8 í viðauka 3, þar sem áflugshætta fugla var metin mikil en umfang áhrifa á fuglalíf samandregið í töflu einungis metin miðlungs.

Skv. skýrslum og rannsóknum kemur fram að áflugshætta sé metin há hvort sem er með þeirri línu sem fyrir er en er metin enn hærri ef fyrir valinu verður ný línuleið yfir Hólmavatn. Því telur nefndin mikilvægt að tekið verði tillit til þessara aðstæðna og annað hvort verði ný línuleið samhliða þeirri gömlu eða þá að gamla línuleiðin verði færð að þeirri nýju til að koma til móts við þær niðurstöður um áflugshættu.

Leyfi fyrir umrædda framkvæmd er háð framkvæmdaleyfis Hvalfjarðarsveitar á þeim hluta línuleiðarinnar sem liggur um sveitarfélagið á grundvelli 13. og 14. gr. Skipulagslaga nr. 123/2021 og reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

2.Verklagsreglur Hvalfjarðarsveitar fyrir gerð viðauka við fjárhagsáætlun.

2411033

Lagðar fram meðfylgjandi nýjar verklagsreglur Hvalfjarðarsveitar fyrir gerð viðauka við fjárhagsáætlun.

Samþykktar í sveitarstjórn 27.11.2024.
Lagt fram til kynningar.

3.Heiðarskólavegur (5065-01) - lækkun á hámarkshraða.

2412007

Erindi frá Vegagerðinni þar sem kynnt er samþykkt tillaga að breytingu á hámarkshraða á Heiðarskólavegi 5065-01.

Farið verður í að setja upp ný merki eins fljótt og auðið er. Vegagerðin mun tilkynna lögreglu þegar uppsetningu merkja er lokið.

Í dag er 90 km/klst hámarkshraði frá st. 0 að ca. st. 420, en þar tekur við 50 km/klst hámarkshraði að skólalóð.

Hámarkshraðinn frá stöð 0 verður færður niður í 50 km/klst á um 500 metra kafla eða að ca. st. 500 og eftir það tekur við 30 km/klst svæði.

Einnig verða settar upp viðvörunarmerkingar "Börn" við ca. stöð 500.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd fagnar lækkun hámarkshraða á þessu svæði en breytingin felur í sér aukið umferðaröryggi s.s. barna og annarra vegfarenda á svæðinu.
Lagt fram til kynningar.

4.Hólabrú - aðalskipulagsbreyting (E13 Innri-Hólmur).

2408019

Erindi frá Eflu f.h. Steypustöðvarinnar námu ehf.

Skipulagslýsing.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd fjallaði á 42. fundi sínum þann 16.10.2024 um erindið og samþykkti nefndin að auglýsa lýsingu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á námu E132.

Eftirfarandi bókun var gerð:



Inngangur:

Lögð er fram fyrirspurn frá Steypustöðinni varðandi heimild til aukins efnisnáms úr Hólabrú, námu E13 í landi Innra-Hólms og Kirkjubóls. Fyrir liggur eldra umhverfismat vegna efnistöku upp á 2.000.000 m³og nýlega var send inn fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um aukningu um 250.000m³. Samhliða er lögð fram skipulagslýsing fyrir breytingu aðalskipulags, þar sem gert er ráð fyrir að stækka námu E-13 úr 260.000 m2 í 280.000 m2. Efnistökumagn verður aukið úr 1.200.000 m³ í 2.250.000m³. Fyrir liggur ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27 júní 2024. Á fundi Umhverfis- og skipulagsdeildar með fulltrúum landeigenda á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar þann 10. október 2024 komu fram eftirfarndi punktar sem hafa þarf til hliðsjónar við skipulagsgerðina. Stækkun námunnar hefur áhrif á reið- og gönguleið, gera þarf vel grein fyrir þeirri breytingu, samráði við landeiganda, sveitarfélagið og leita álits umsagnaraðila t.d. hestamannafélagsins Dreyra. Gildandi umhverfismat gerir ráð fyrir 2,0 milljón rúmmetrum, hér er verið að sækja um heildarmagn 2,25 milljón rúmmetra eða 2.250.000 m3. Gera þarf grein fyrir hvernig umhverfismat og áætlað magn passar saman. Ef þessar tölur sem getið er um fyrir Hólabrúarnámu gilda bara fyrir Hólarbrúarnámu (E13), þá mætti geta um að þessar tölur gildi ekki fyrir Kirkjubólsnámu (E-14) né Kúludalsárnámu. Skv. aðalskipulagi er fjallað um frágang á námum, sveitarfélagið óskar að gerð verði áætlun um frágang námunnar, í fullu samráði við landeiganda, jafnvel þótt ekki verði hafist handa við frágang hennar fyrr en síðar eða jafnvel að námuvinnslu lokinni. En hafa verður í huga að nýtingarleyfi landeiganda Kirkjubóls og Innri-Hólms er til ársins 2033. Sveitarfélagið óskar eftir að gert verði deiliskipulag fyrir svæðið. Gera þarf grein fyrir hvort og hvernig stækkun námunnar hefur áhrif á skógræktarreit og hvort samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, séu þeir umráðaaðilar skógræktarsvæðisins. Gera þarf greinargóða grein fyrir hæðarlínum og hvort verið sé að taka efni úr rótum Akrafjalls, sem sveitarfélagið telur að geti verið varhugavert, en fram kom á fundi með málsaðilum að ekki væri verið að fara í rætur fjallsins sbr. loftmynd. Gera þarf grein fyrir útrás í sjó, varðandi starfsleyfi og aðkomu Heilbrigðiseftirlits s.s. varðandi mengunar- / olíuskilju oþh. Gera þarf grein fyrir aðrein að /frá svæðinu, þannig að vörubílar geti náð ferð, áður en ekið er inná þjóðveg 1, til að auka umferðaröryggi. Gera þarf grein fyrir hvernig fundin verði lausn á óþrifnaði sem berst útá þjóðveg 1 með bílum/dekkkjum, en kvartanir hafa borist vegna þess.



Niðurstaða:

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að auglýsa lýsingu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á námu E132, enda verði þeir punktar sem fram koma í inngangi málsins hafðir að leiðarljósi við frekari skipulagsgerð s.s. aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.



Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti og staðfesti bókun nefndarinnar um að auglýsa lýsingu vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Hólabrúarnámu á 408. fundi sínum þann 23.10.2024.

Auglýsingatími var frá 31.10.- 28.11.2024 í Skipulagsgátt.

Athugasemdir umsagnaraðila koma fram í samantekt umsagna.



Lögð fram samantekt umsagna sem bárust við skipulagslýsingu sem kynnt var frá 31.10.- 28.11.2024 í Skipulagsgátt. Ekki er þörf á formlegum viðbrögðum sveitarfélagsins við þeim umsögnum en eftir atvikum verður tekið tillit til þeirra við gerð aðalskipulagsbreytingar og eftir atvikum deiliskipulags.
Lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar og voru umræður um þær.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hefur farið yfir framkomnar athugasemdir/ábendingar og munu þær verða hafðar til skoðunar við mótun frekari skipulagstillagna og mun eftir atvikum verða gerð betur grein fyrir mörgum þessara þátta í aðalskipulagsbreytingu og/eða deiliskipulagi. Bent er á að hagsmunaaðilar munu hafa formlega aðkomu að málinu síðar í skipulagsferlinu.

5.Kúludalsá - Aðalskipulagsbreyting.

2409001

Lögð fram aðalskipulagsbreyting skv. erindi frá Al-Hönnun ehf. f.h. landeiganda Kristófers Þorgrímssonar og Ágústu Þorleifsdóttur.

Sótt er um að breyta landbúnaðarsvæði í íbúðarsvæði.

Umrætt svæði er skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 landbúnaðarland L1.

Að jafnaði er eingöngu heimilt að byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur bús s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Heimilt er að byggja upp í tengslum við núverandi bæjartorfur eða í jaðri svæða. Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Kúludalsár, reitur E, frá árinu 1998. Þar kemur fram að á svæðinu eru 5 sumarhúsalóðir. Ljóst er því að deiliskipulag svæðisins er á skjön við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins.

USNL-nefnd samþykkti á 41. fundi sínum þann 18.09.2024 að um sé að ræða óverulega breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, þar kom fram að sú landnotkunarbreyting sem tillagan hafi í för með sér, sé óveruleg breyting þegar horft sé til þess að landið sé að stórum hluta til þegar byggt og þegar séu íbúðarhús og sumarhús byggð á svæðinu, fyrir sé vegtenging við þjóðveg 1 og vegagerð til staðar milli húsa í hverfinu, lagnir á svæðinu ofl. Ekki var skv. fundinum talið að breytingin hafi áhrif á einstaka aðila s.s. nágranna eða hafi áhrif á stórt svæði. Fram kom að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar, umfram það sem kemur fram í gildandi deiliskipulagi svæðisins, að öðru leyti en hvað landnotkun svæðisins varðar. Ákveðið misræmi sé því í því fólgið að landið þar sem byggingarnar eru, sem er óafturkræf framkvæmd, sé skráð sem L1 í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar. Nefndin tók jákvætt í áform landeiganda um að breyta svæðinu í íbúðarbyggð og samþykkti fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skv. 2. mgr. 36. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykki nefndarinnar var með fyrirvara um að skipulagsgögn verði uppfærð.



Með erindinu fylgdu uppfærð aðalskipulagsgögn.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillögu að breyttu aðalskipulagi með áorðnum breytingum og leggur til við sveitarstjórn að auglýsa tillöguna samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

6.Belgsholt - L 133734 - framkvæmdaleyfi vegna sjóvarnar.

2412001

Erindi frá Vegagerðinni, ósk um framkvæmdaleyfi fyrir sjóvarnir í Belgsholti.



Sú framkvæmd sem sótt er um leyfi fyrir felur í sér gerð sjóvarnar við Belgsholt í Hvalfjarðarsveit á grundvelli samgönguáætlunar.

Um er að ræða gerð 155 m sjóvarnargarðs en Vegagerðin hefur unnið að útfærslu sjóvarnargarðsins og er verkkaupi verksins.



Í gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 segir um skilgreint strandsvæði:

Víðáttumikið grunnsævissvæði, leirur og fitjar með miklu fuglalífi. Melabakkar eru sérstæð, veggbrött, allt að 30 metra há jarðvegslög, sem liggja meðfram fjörunni við Borgarfjörð, aðskilin frá sjó með stórgrýttu flæðarmáli. Þeir eru mikilvægir í jarðsögulegum skilningi þar sem þeir og grýtt fjaran bera merki stórfellds áflæðis af völdum sjávar í gegnum tíðina. Svæðið hefur mikið útivistar- og rannsóknargildi. Svæðið er líka innan hverfisverndar.



Í kafla 2.8.4. um hverfisvernd segir í aðalskipulagi Hvalfjaðarsveitar:

Víðáttumikið grunnsævissvæði, leirur og fitjar með miklu fuglalífi. Melabakkar eru sérstæð, veggbrött, allt að 30 metra há jarðvegslög, sem liggja meðfram fjörunni við Borgarfjörð, aðskilin frá sjó með stórgrýttu flæðarmáli. Þeir eru mikilvægir í jarðsögulegum skilningi þar sem þeir og grýtt fjaran bera merki stórfellds áflæðis af völdum sjávar í gegnum tíðina. Svæðið hefur mikið útivistar- og rannsóknargildi. Innvogsnes er auðugt af fuglalífi og er vel gróðri vaxið og er hentugt til útivistar og fræðslu. Hluti svæðisins er á náttúrminjaskrá. Einungis er heimild mannvirkjagerð til að bæta aðgengi til útivistar eða vegna rannsókna. Mannvirkjagerð er þó ekki leyfð á Melabakka, né neinar framkvæmdir sem raskað geta landformi eða útivistargildi svæðisins. Heimilt er að fara í bakkavarnir til að verjast ágangi sjávar.



Meðfram bakkanum er reiðleið skv. aðalskipulagi.



Í 1. viðauka skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr 111/2021, segir að framkvæmdir í flokki B skv. viðaukanum kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli umhverfismati samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 2. viðauka.

Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.

Í 2. viðauki laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, 1. gr. um viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka:

iii. verndarsvæða: (a) náttúruminja í A-, B- og C-hluta náttúruminjaskrár, svæða sem falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd og landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011,



Í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 segir í lið 10.18 í viðauka 1:

Eftirfarandi mannvirki falla í B-flokk: „Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum á verndarsvæðum, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja".



Svæðið er á B-hluta náttúruminjaskrá, Mýrar-Löngufjörur.

Forsendur fyrir verndun:

Land: Sjávarfitjungsvist, Runnamýravist á láglendi, Starungsmýravist Ferskvatn: Flatlendisvötn, Laukavötn Fjara: Sandmaðksleirur, Skeraleirur, Gulþörungaleirur, Marhálmsgræður, Árósar Fuglar: Lundi, Æður, Kría, Álft, Blesgæs, Margæs, Lómur, Himbrimi, Haförn, Rauðbrystingur, Sanderla, Sendlingur, Jaðrakan Selir: Landselur, Útselur

Það er tilgreint í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana að B-hluti náttúruminjaskrár flokkist sem verndarsvæði.



Fram kemur í kafla um hverfisvernd svæðisins skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 að heimilt er að fara í bakkavarnir til að verjast ágangi sjávar. Framkvæmdin er því heimil skv. aðalskipulagi að því marki að fara verður að lögum varðandi öflun leyfa fyrir framkvæmdinni.

Þar sem um er að ræða hverfisverndað svæði og svæðið er á B hluta náttúruminjaskrár er framkvæmdin, ef marka má inntak laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr 111/2021, tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar.

Leita þarf umsagnar Umhverfisstofnunar á fyrirhugaðri framkvæmd, mögulega einnig fleiri stofnana eins og Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar.

Tilkynningu til Skipulagsstofnunar annast framkvæmdaraðili skv. 1. mgr. 19. greinar laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.



Eftirfarandi segir í 20. grein laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana um matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar:

Skipulagsstofnun skal innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum. Skipulagsstofnun skal áður leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda, og skulu þeir veita umsögn innan fjögurra vikna frá því að beiðni Skipulagsstofnunar berst. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og hafa hana aðgengilega á netinu.

Nú er niðurstaða Skipulagsstofnunar að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati og getur Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggðar á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti veitingu framkvæmdaleyfis vegna gerð sjóvarnargarðs í Belgsholti skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og tilheyrandi fylgiskjölum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Gildistími leyfisins verði 1 ár frá samþykki sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.
Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar.
Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Umrædd framkvæmd er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Leita þarf álits Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 en svæðið er í B-flokki náttúruminjaskrár og hverfisverndað skv. aðalskipulagi.
Leyfið er með þeim áskilnaði að fyrir liggi umsögn Skipulagsstofnunar um matsskyldu um að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati, áður en leyfi verður gefið út.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

7.Ferstikla - L133168 - framkvæmdaleyfi til skógræktar.

2411030

Erindi dags. 20.11.20234 frá landeiganda og Yggdrasill Carbon.

Sótt er um framkvæmdaleyfi til skógræktar á landi Ferstiklu, landeignanúmer 1331681.

Um er að ræða 67 ha skógrækt (gróðursetningarsvæði) á 86,2 hektara verkefnasvæði.

Með erindinu fylgdi umsögn um verkefnið og bráðabirgða ræktunaráætlun.

Umrætt svæði sem fyrirhugað er að leggja undir skógrækt er á landbúnaðarsvæði L2 og óbyggðu svæði ÓB1, skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.

Skv. ákvæðum aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 kemur fram að ef skógrækt fari yfir 10 ha þá þurfi að gera aðalskipulagsbreytingu skv. almennum skilmálum aðalskipulagsins í kafla 2.4.2 Skógræktar- og landgræðslusvæði (SL).
Ekki er því að mati Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar unnt að heimila framkvæmdarleyfi fyrir þessari framkvæmd þar sem áætlun landeiganda samræmist ekki gildandi ákvæðum aðalskipulagsins.
Því þarf að breyta aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 og skilgreina skógræktar- og landgræðslusvæði.
Erindinu hafnað á grundvelli skipulags.

8.Erindi Landsnets um skipan sérstakrar raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu. 1.

2404092

Erindi dags. 04.12.2024 frá Innviðaráðuneyti þar sem óskað er umsagnar um beiðni Landsnets um skipun raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

Er sérstaklega óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til þess mats Landsnets að rík þörf sé á skipun sérstakrar raflínunefndar vegna málsins og þeirrar niðurstöðu Landsnets að skilyrði þess séu fyrir hendi.

Óskað er eftir að svar berist í síðasta lagi 31. desember n.k.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að skipuð verði raflínunefnd vegna Holtavörðuheiðarlínu 1, ef það megi verða til þess að flýta afgreiðslu skipulagsmála vegna verkefnisins.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Efni síðunnar