Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

41. fundur 18. september 2024 kl. 15:00 - 17:30 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir Varamaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Svenja Neele Verena Auhage boðaði forföll.

1.Hafnarland - Lísuborgir - deiliskipulag.

2110020

Hvalfjarðarsveit hefur, með erindi dags. 11. júlí 2024 sent Skipulagsstofnun ofangreint deiliskipulag til yfirferðar samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og var málsmeðferð skv. 41. gr. laganna.

Athugasemdafresti lauk 31. maí 2024. Umsagnir bárust frá opinberum umsagnaraðilum.

Deiliskipulagið var samþykkt í sveitarstjórn þann 10. júlí 2024.



Í deiliskipulaginu felst að á 17,5 ha lóð á skilgreindu frístundasvæði skv. aðalskipulagi, eru afmarkaðar 4 lóðir þar sem heimilað er að reisa 17 hús á 6 byggingareitum, B1, B2 og B3. Heilmilað er að reisa 12 stk 60 m² frístundahús, 4 frístundahús, hvert þeirra 250 m² og 250 m² þjónustuhús.



Deiliskipulagið er sett fram á kortblaði með greinargerð og uppdrætti í mkv. 1:2000 með skýringaruppdrætti í mkv. 1:10.000, dags. 2. janúar 2024, br. 26. júní 2024.



Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna eftirfarandi:



1) Tillagan þar sem gert er ráð fyrir 12 frístundahúsum á einni lóð, samræmist ekki ákvæðum aðalskipulags um frístundabyggð, en í aðalskipulagi kemur fram að heimilt sé að byggja þrjú hús (þar af eitt frístundahús) á hverri lóð innan frístundasvæða (sem skulu að jafnaði vera 0,5-2 ha) og að heildarbyggingarmagn fari ekki yfir 250 m2. Þá eru aðeins settar fram upplýsingar um stærðir lóða næst vegi, sem eru 0,7 ha hver.



2) Óljóst er hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum sem fram koma í umsögnum, m.a. Heilbrigðiseftirlits og Umhverfisstofnunar. Í meðfylgjandi samþykkt sveitarfélagsins dags. 10. júlí 2024 kemur fram að lögð hafi verið fram samantekt á umsögnum og viðbrögðum sveitarfélagsins við þeim. Óskað er eftir að fá afrit af þessari samantekt þar sem fram komi viðbrögð við umsögnum. Í þessu samhengi er bent á að setja þarf fram öll gögn sem lágu til grundvallar samþykktar sveitarstjórnar eftir auglýsingu og afriti af auglýsingum og samþykktum fram í skipulagsátt undir fasanum, athugun eftir auglýsingu.



3) Ekki er að sjá á þeim gögnum sem send voru stofnuninni til yfirferðar og eru með breytingardagsetningu 26. júní 2024, að þau séu á neinn hátt frábrugðin auglýstum gögnum með dagsetningunni 2. janúar 2024 og aðeins er settur fram uppdráttur undir

fasanum athugun eftir auglýsingu, en ekki ný greinargerð. Gera þarf grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru á uppdrætti og í greinargerð eftir auglýsingu.



4) Bent er á að ósamræmi er í greinargerð, dags. 2. janúar 2024 þar sem fram kemur að afmarkaðar verði 4 nýjar lóðir fyrir 12 frístundahús og 5 þjónustuhús, en þetta er ekki í samræmi við það sem fram kemur á uppdrætti. Þá kemur fram í greinargerð að engin hús séu fyrir á svæðinu en á uppdrætti eru merkt inn 2 núverandi hús. Gera þarf grein fyrir þeim í greinargerð.



5) Þá bendir stofnunin á að á svæðum þar sem sérstök aðgát skal höfð s.s. vegna vistgerða eða votlendis er æskilegt að byggingareitir séu ekki mjög rúmir heldur marvisst afmarkaðir.



6) Afmarka þarf vatnsverndarsvæði tveggja borhola. Ef verndarsvæði borholu er ekki afmarkað í aðalskipulagi þarf að gera það í deiliskipulagi sbr. einnig umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 31. maí 2024.



7) Ekki á við að afmarka byggingarreit yfir reiðleið. Ástæða gæti verið að leita umsagnar hestamannafélags á svæðinu.



Skipulagsstofnun minnir á að sveitarstjórn skal taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.



Uppfærð gögn hafa borist frá skipulagshöfundi, eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Lögð fram uppfærð gögn frá skipulagshöfundi, eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Í lokaafgreiðslu Skipulagsstofnunar voru gerðar athugasemdir sem brugðist hefur verið við og einnig var orðlag lagfært og breytt í greinargerð. Til að koma til móts við athugasemd um mögulegt votlendi og áhrif á vistgerðir hafa byggingareitir verið minnkaðir verulega og reiðleið er utan byggingareits. Þá eru vegir betur afmarkaðir og aðkoma að byggingum. Lóðir afmarkaðar fyrir byggingar og þær númeraðar og sett er inn lóðatafla í greinargerð í samræmi við ábendingu um almenna skilmála frístundabyggðar. Ekki er unnt að setja inn grann- og fjarsvæði vatnsverndar við núverandi borholur en sett er inn í greinargerð að þær séu víkjandi og stefnt sé að neysluvatn komi frá viðurkenndri samveitu.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið með áorðnum breytingum.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

2.Reglur um skilti í Hvalfjarðarsveit

2310043

Drög að endurskoðuðum reglum um skilti sem bera heitið "Reglur um staðsetningu og útlit auglýsingaskilta í Hvalfjarðarsveit".



Farið yfir drög að reglum um skilti í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir drög að uppfærðum reglum, endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

3.Nes - umsögn vegna beiðni um undanþágu fjarlægðar byggingar frá vegi.

2408025

Erindi frá Innviðaráðuneyti.

Ráðuneytinu hefur borist meðfylgjandi erindi Vesna Djuric f.h. VALZ ehf., dags. 8. ágúst sl., þar sem farið er þess á leit að ráðherra veiti undanþágu frá skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. 13. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með vísan til 13. mgr. 45. gr. skipulagslaga er þess farið á leit að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar veiti ráðuneytinu umsögn sína um beiðni þessa og sendi ráðuneytinu eigi síðar en 27. september nk.

Umrædd lóð liggur milli Svínadalsvegar nr. 502 og Glammastaðavatns. Hún er í landi lögbýlisins Ness landeignanúmer 190661 sem stofnað var úr upprunalandinu Glammastöðum landeignanúmer 133175. Ekkert deiliskipulag er fyrir hendi.

Með erindinu fylgdi málsettur uppdráttur dags. 28.06.2022 af svæðinu þar sem fram kemur byggingarreitur og fjarlægð hans frá Svínadalsvegi sem er 50 m.



Svínadalsvegur er tengivegur og skv. skipulagsreglugerð má ekki byggja íbúðar- eða frístundahús nær tengivegi en 100 m (5.3.2.5 gr. liður d).



Skv. grein 5.3.2.5, lið d í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir:

Fjarlægð milli bygginga og vega:

„Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi."



USNL-nefnd fjallaði m.a. um málið á 14. fundi sínum þann 01.02.2023. Fram kom í bókun fundarins að Skipulagsfulltrúi og formaður USNL-nefndar hefðu fundað með fulltrúa landeigenda þann 27.01.2023. Á fundinum hafi verið ákveðið að umsækjendur endurnýji umsókn sína til Hvalfjarðarsveitar þar sem byggingarreitur neðan Svínadalsvegar verði færður þannig að staðsetning hans verði 50 m neðan Svínadalsvegar og kanna þannig hug umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar til þess að óska eftir undanþágu ráðherra frá ákvæðum skipulagsreglugerðar þar sem kveðið er á um 100 m fjarlægð frá Svínadalsvegi sbr. ákvæði greinar 5.3.2.5, lið d í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.



Samkvæmt 12. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur ráðherra, þegar sérstaklega stendur á, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar.



Eftirfarandi bókun var m.a. gerð á 14. fundi USNL-nefndar:



"Í ljósi þess skipulags sem fyrir er á svæðinu sbr. deiliskipulag frístundabyggðarinnar við Kjarrás í landi Glammastaða, og þeirra fjarlægða sem byggingarreitir þess skipulags eru staðsettir frá Svínadalsvegi, samþykkir nefndin vegna byggingarreits milli Svínadalsvegar og Glammastaðavatns, að óska eftir undanþágu ráðherra frá ákvæðum skipulagsreglugerðar þar sem kveðið er á um 100 m fjarlægð frá Svínadalsvegi að byggingarreit sbr. ákvæði greinar 5.3.2.5, lið d í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þess í stað verði fjarlægðin að minnsta kosti 50 m. Eftir sem áður verði 50 m fjarlægð frá byggingarreit að Glammastaðavatni."

Í ljósi fyrirliggjandi gagna telur Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd að ekki sé svigrúm fyrir byggingu húss á þessu svæði og gefur ekki jákvæða umsögn vegna fjarlægðar frá þjóðvegi.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

4.Hafnarberg - breyting á aðalskipulagi.

2403046

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 402 fundi sínum þann 10.07.2024 að auglýsa tillögu að breyttu Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 og að hún verði kynnt og auglýst skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Um er að ræða breytingu á aðalskipulagi fyrir Hafnarberg í landi Hafnar, landeignanúmer 208217.

Lóð Hafnarbergs verður breytt úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði.

Landbúnaðarsvæðið verður 3 ha að stærð og innan þess verður íbúðarhús og skemma. Verslunar- og þjónususvæðið verður 6 ha að stærð og innan þess verða 22 gistihús til útleigu, 2 þjónustubyggingar, bygging fyrir veitingastað og afmörkuð verður aðstaða fyrir tjaldsvæði.Í deiliskipulagi verður gerð grein fyrir fyrirhuguðum mannvirkjum. Fyrirhugað er að byggja 400 m2 íbúðarhús og 400 m2 skemmu, 22 lítil gistihús til útleigu, 2 þjónustubyggingar, byggingu fyrir veitingastað og afmarka aðstöðu fyrir tjaldsvæði. Aðkoma að svæðinu verður frá Vesturlandsvegi.



Kynningartími var frá 25.07.2024 - 05.09.2024.

Alls bárust 7 athugasemdir.



1) Frá Vegagerðinni. Engar athugasemdir gerðar en hvatt til samráðs vegna 2 1 breikkunar Hringvegar 1 á þessu svæði.



2) Frá Veitum. Veitur benda á að skipulagssvæðið er utan þjónustu og skyldusvæði Veitna. Ef óskað er eftir tengingum við kerfi Veitna þá þarf að semja sérstaklega um það.



3) Frá Minjastofnun. Minjastofnun Íslands veitti umsögn varðandi verkefnið á lýsingarstigi sem hægt er að líta til.



4) Frá Landi og Skógum:

Birkiskógurinn sem fyrirfinnst á svæðinu er ekki á lista stofnunarinnar yfir birkiskóga sem falla undir sérstaka vernd skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Hinsvegar er Hafnarskógur á náttúruminjaskrá, eins og getið er um í greinargerðinni. Það er og meðal markmiða laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 að vernda náttúruskóga landsins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra, og fellur Hafnarskógur þar undir.

Skv. textanum í náttúruminjaskrá felst náttúruverndargildi Hafnarskógar í því að hann er náttúrulegur birkiskógur í nágrenni þéttbýlis og með mikið útivistargildi. Það má benda á að í náttúruminjaskrá er vísað til Hafnarskógar, þó að mestur hluti hans geti allt eins talist kjarr frekar en skógur. Kjarr og skógur voru ekki skilgreind í lögum fyrr en núgildandi skógræktarlög komu til sögunnar (2019), og þessvegna er það skilningur undirritaðs að Hafnarskógur allur, hvort sem hann

er kjarr eða skógur á hverjum stað, falli undir að teljast náttúruminjar.

Á loftmynd sést að nokkuð svæði af hekturunum 10 er ekki vaxnið skógi eða kjarri. Sé vegum, framkvæmdum og byggingum þannig komið fyrir á skipulagssvæðinu, að Hafnarskógur skerðist hvorki né beri skaða af, þá verður ekki séð annað en að það sé í lagi.

Að því sögðu hvetur stofnunin til þess að gróðri, kjarri og skógi, sem og votlendi sem finnast kann á svæðinu, verði hlíft eftir föngum. Ekki er annað að sjá en að hvað þetta varðar þá standi til að taka mið af innsendum athugasemdum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um málið á fyrri stigum þess, og er það vel.

Stofnunin gerir ekki aðrar athugasemdir við tillöguna.



5) Frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Náttúrufræðistofnun veitt umsögn um skipulagslýsinguna 21. júní síðastliðinn og ítrekar hér fyrri athugasemdir. Skipulagssvæðið er innan svæðis á náttúruminjaskrá, svæðið Hafnarskógur (nr. 237) og náttúrulegir birkiskógar njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga (60/2013). Svæðið er einnig hverfisverndað (HV7) í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Náttúruminjar svæðisins hafa hátt verndargildi sem felst í samfelldri heild birkiskógar og náttúrulegri þróun hans. Aukin ásókn í uppbyggingu frístundabyggða og þjónustusvæða innan náttúruminjasvæðisins getur haft áhrif og mögulega rýrt verndargildi náttúruminja sem er ekki í góðu samræmi við lög um náttúruvernd. Huga þarf að því við frekari vinnslu skipulagsins.



6) Frá Umhverfisstofnun. Stofnunin bendir á ýmis atriði varðandi sérstaka vernd náttúruverndarlaga, vistgerðir og fuglalíf og vatn, sbr. bréf dags. 05.09.2024.



7) Frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Bent er á að gerð hefur verið grein fyrir nýju vatnsbóli VB60, staðsettu á lóð VÞ20 vestan Vesturlandsvegar. Vatnsverndarsvæðið nær undir Vesturlandsveg í austur. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands telur mikilvægt að taka fram að stærsta mengunarógnin fyrir vatnsbólið stafar af umferð yfir verndarsvæðið. Til að draga úr þessari áhættu mætti íhuga að bæta mengunarvarnir við veginn þar sem hann liggur um vatnsverndarsvæðið. Þá kæmi til álita að hanna vegaxlir þannig að afrennsli af veginum færi í

ógegndræpan jarðveg þannig að olíumengun myndu ekki ná að skila sér í vatnsbóli eða að leiða afrennsli á þessum hluta vegarins í tilheyrandi olíugildru.
Fyrir liggur samantekt athugasemda og viðbrögð við þeim.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir breytingu á aðalskipulagi í samræmi við samantekt um málið og leggur til að tillagan verði send Skipulagstofnun til afgreiðslu í samræmi við 3. mgr. 32 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

5.Fráveitur í Hvalfjarðarsveit

2409012

Drög að endurskoðaðri samþykkt um fráveitur í Hvalfjarðarsveit.

Farið yfir samþykkt um fráveitur í Hvalfjarðarsveit og helstu breytingar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd felur Umhverfis- og skipulagsdeild að afla viðeigandi umsagna og drögum að uppfærðri samþykkt vísað til sveitarstjórnar.

6.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit.

2210038

Drög að samþykkt um meðhöndlun úrgangs.



Farið yfir samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit og helstu breytingar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd felur Umhverfis- og skipulagsdeild að afla viðeigandi umsagna og drögum að uppfærðri samþykkt vísað til sveitarstjórnar.

7.Glymur- Framkvæmdasjóður ferðamannastaða - Styrkir

2304041

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða fyrir árið 2025. Umsóknarfrestur er til kl. 13 þriðjudaginn 15. október.

Farið yfir stöðu mála á framkvæmdum við Glym árið 2024.

Skv. fundi starfsfólks Umhverfis- og skipulagsdeildar og landeigenda þann 18.09.2024, eru landeigendur hlynntir fyrirhugaðri umsókn í sjóðinn og þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á árinu 2025.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að sækja um styrk til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna áframhaldandi framkvæmda við Glym, fyrir árið 2025 í samvinnu við landeigendur.

8.Galtarlækur - breyting á landnotkun í aðalskipulagi.

2405015

Erindi frá Magnúsi H. Ólafssyni f.h. landeiganda Galtalækjar landeignanúmer 133627.

Sótt er um breytingu á aðalskipuagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 vegna Galtarlækjar.

Málið var áður á dagskrá USNL-nefndar á 37. fundi hennar þann 05.06.2024.

Með erindinu er ósk um að landnotkun Galtarlækjar neðan þjóðvegar verði skilgreind sem athafnarsvæði í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að heimila landeiganda að hefja vinnu við skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 vegna áforma landeiganda.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

9.Kjalarnes og dreifbýl svæði - umsagnarbeiðni.

2407033

Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 - Kjalarnes og dreifbýl svæði.

Beiðni um umsögn.

Fyrirhugaðar eru breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Ætlunin er að beina einkum sjónum að stefnuákvæðum aðalskipulagsins um landbúnaðarsvæði og önnur strjálbyggð svæði, opin svæði og óbyggð. Sérstök áhersla verður á Kjalarnesið, þ.m.t. Grundarhverfið. Jafnhliða því er lögð fram áætlun um hvernig standa skuli að umhverfismati breytinganna.



Þann 11. júlí 2024 samþykkti borgarráð Reykjavíkur verklýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, er varða þróun byggðar og landnotkun utan megin þéttbýlis borgarinnar.



Gögnin eru kynnt í skipulagsgátt, samráðsvettvangi um skipulagsmál.

Óskað er eftir að athugasemdum verði komið á framfæri á þeim vettvangi fyrir 1. október nk. Þeir sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við tillöguna.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

10.Kúludalsá - Aðalskipulagsbreyting.

2409001

Erindi frá Kristófer Þorgrímssyni.

Umsókn um aðalskipulagsbreytingu þar sem sótt eru að breyta landbúnaðarsvæði í íbúðarsvæði.



Umrætt svæði er skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 úrvals byggingarland L1 með takmörkuðum byggingarheimildum. Að jafnaði er eingöngu heimilt að byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur búsins s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Heimilt er að byggja upp í tengslum við núverandi bæjartorfur eða í jaðri svæða. Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Kúludalsár, reitur E, frá árinu 1998. Þar kemur fram að á svæðinu eru 5 sumarhúsalóðir. Ljóst er því að deiliskipulag svæðisins er á skjön við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins.



Ekki kemur fram í erindinu hvort óskað sé breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skv. 1. eða 2. málsgrein 36. greinar skipulagslaga nr. 123/2010, né hvort fyrirhugað sé að gera skipulagslýsingu sbr. ákvæði 1. málsgreinar.





Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að um sé að ræða óverulega breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032, sú landnotkunarbreyting sem tillagan hafi í för með sér, sé óveruleg breyting þegar horft sé til þess að landið sé að stórum hluta til þegar byggt og þegar séu íbúðarhús og sumarhús byggð á svæðinu, fyrir sé vegtenging við þjóðveg 1 og vegagerð til staðar milli húsa í hverfinu, lagnir á svæðinu ofl. Ekki er talið að breytingin hafi áhrif á einstaka aðila s.s. nágranna eða hafi áhrif á stórt svæði. Engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar, umfram það sem kemur fram í gildandi deiliskipulagi svæðisins, að öðru leyti en hvað landnotkun svæðisins varðar. Ákveðið misræmi er því í því fólgið að landið þar sem byggingarnar eru, sem er óafturkræf framkvæmd, sé skráð sem L1 í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.
Nefndin tekur jákvætt í áform landeiganda um að breyta svæðinu í íbúðarbyggð og samþykkir fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skv. 2. mgr. 36. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykki nefndarinnar er með fyrirvara um að skipulagsgögn verði uppfærð.
Ómar Örn Kristófersson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

11.Móar - deiliskipulagsbreyting.

2405024

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 10. júlí 2024 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Móa.

Í deiliskipulagstillögunni verða skipulagsmörk færð til og bætt inn hnitum og málsetningum. Stærð skipulags-svæðisins er um 1,8 ha. Byggingarreitir B3 og B5, ásamt skilmálum þeirra breytast nokkuð. B3 - Í gildandi deiliskipulagi er heimilt að byggja allt að 60 m² gróðurhús. Breytingin felur í sér að færa byggingarreitinn norður, við hlið byggingarreits B1 og heimila stærð gróðurhússins í allt að 80 m². B5 - Í gildandi deiliskipulagi er heimilt að byggja 70 m² þjónustuhús. Breytingin felur í sér að breyta þjónustu- og veitingahúsinu í 4 íbúðir, um 25 m² hver íbúð, og þá auka byggingarheimildir úr 70m² í 100 m².

Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna var frá 25.07.2024 - 5.09.2024.

Athugasemdir bárust frá tveimur aðilum:

Heilbrigðiseftirit Vesturlands - Bendir á mikilvægi hljóðvistar í samræmi við reglugerðir og að mögulega þyrfti að koma upp hljóðmönum vegna fyrirhugaðs tjaldsvæðis. Einnig þarf að gera ráð fyrir þjónustuhúsi, aðstöðu til uppþvotta, fullnægjandi aðstöðu fyrir sorp og að uppfylla hreinlætisaðstöðu í samræmi við 30. gr. Tjald- og hjólhýsasvæði reglurgerðar 903/2024 um hollustuhætti.

Vegagerðin - Gerir athugasemd við að í tillögunni er gert ráð fyrir tveimur vegtengingum við Reynisveg. Það samræmist ekki veghönnunarreglum Vegagerðarinnar.

Fyrir liggur uppfærð tillaga frá skipulagshöfundi.
Landeigandi hefur fallið frá hugmyndum um tjaldsvæði og liggur fyrir uppfærð tillaga frá skipulagshöfundi.
Ekki er í deiliskipulagsbreytingu verið að fjölga vegtenginum við Reynisveg frá því sem þegar er í samþykktu deiliskipulagi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

12.Deiliskipulag Melahverfis, 3. áfangi.

2102151

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 10. júlí 2024 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Melahverfi 3. áfanga í samræmi við ákvæði 1.mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.



Í tillögunni er deiliskipulag nýrrar íbúðarbyggðar austan við núverandi byggð, nefnt Melahverfi 3. Svæðið er óbyggt. Aðkoma að því er um núverandi aðkomu af Vesturlandsvegi, um Bugðumel og nýja götu í hverfinu. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir allt að 68 íbúðum. Markmið deiliskipulagsins er að bjóða upp á fjölbreytta búsetukosti hvað varðar stærð og gerð íbúðarhúsnæðis og mynda sterka þéttbýlisheild. Skipulagssvæðið er um 8,2 ha.



Eftirfarandi athugasemdir bárust á auglýsingatíma:



Landsnet - Tillagan hefur ekki áhrif á hagsmuni Landsnets.

Minjastofnun - Gerir ekki athugasemdir.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Gerir ekki athugasemdir.

Land og skógur - Gerir ekki athugasemdir.

Vegagerðin - Gerir ekki athugasemdir.

Náttúrufræðistofnun Íslands - Gerir athugasemd við að ekki sé rétt farið með er varðar vistgerðarkort Náttúrufræðistofnunar. Á fyrirhuguðu skipulagssvæði sé ekki graslendi og lúpína heldur m.a. grasengjavist, starungsmýravist og gulstararflóavist sem hafa hátt verndargildi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið með áorðnum breytingum.
Ekki er talin ástæða til að bregðast við umsögn Náttúrufræðistofnunar, enda er svæðið á þegar skilgreindu íbúðarsvæði, sem ekki var gerð athugasemd við í umsögn um aðalskipulag.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

13.Framkvæmdaleyfi - Gröf II, L 207694 - borhola.

2409013

Erindi frá Redstone ehf.

Sótt er um framkvæmdarleyfi fyrir borun eftir köldu neysluvatni í Gröf II, landeignanúmer 207694.

Um er að ræða eina 40 m djúpa borholu, 170mm í þvermál en verkið verður unnið af Ræktunarsambandi Flóa & Skeiða ehf.

Fyrir liggur skýrsla um könnun á fýsileika borunar og um tilvist á köldu vatni á svæðinu.

Með erindinu fylgir teikning sem sýnir fyrirhugaða staðsetningu holunnar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti veitingu framkvæmdaleyfis vegna borunar fyrir köldu neysluvatni skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

14.Framkvæmdaleyfi - flæðigryfja á vestursvæði Grundartanga.

2409015

Erindi frá Norðuráli ehf og Elkem ehf vegna sameiginlegrar umsóknar um framkvæmdaleyfi fyrir byggingu á flæðigryfjugarði á vestursvæði Grundartangahafnar.

Framkvæmdaleyfið er ætlað til uppbyggingar á flæðigryfjugarði sem afmarkar losunarsvæði við Grundartangahöfn til losunar á efnum og afurðum sem ekki fara í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu hjá Elkem og Norðuráli.

Þetta er í samræmi við gildandi starfsleyfi hjá báðum félögum. Flæðigryfjugarðurinn mun afmarka 38.870 m2 svæði fyrir landfyllingu á lóð Faxaflóahafna skv. samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.

Framkvæmdin er unnin í samvinnu við Faxaflóahafnir sem landeiganda og því til staðfestingar fylgir með í viðhengi yfirlýsing frá Faxaflóahöfnum. Áætlanir gera ráð fyrir að losunarsvæðið endist í 13 ár, eða til ársins 2038.

Í erindinu kemur fram að óskað sé eftir að gildistími framkvæmdaleyfis sé þar til umræddur flæðigryfjugarður sé að fullu reistur, en áætlað er að framkvæmdatími sé 12 mánuðir.



Í samræmi við reglugerð nr. 772/2012, um framkvæmdaleyfi, fylgja m.a. eftirtalin gögn með umsókn:



1) Umhverfismatsskýrsla dags. janúar 2023 vegna nýrrar flæðigryfju vestan núverandi flæðigryfja á hafnarsvæði við Grundartanga.

2) Áhættumat flæðigryfja á hafnarsvæði við Grundartanga, dags. janúar 2023.

3) Álit Skipulagsstofnunar frá 2023 um umhverfismat framkvæmdar vegna nýrrar flæðigryfju vestan eldri gryfja á hafnarsvæði við Grundartanga.

4) Undirrituð yfirlýsing dags. september 2024 um framtíðaráform Elkem og Norðuráls vegna afsetningar á úrgangsefnum í flæðigryfjur.

5) Ýmsir uppdrættir, flestir frá árinu 2023 og aðrir skipulagsuppdrættir. M.a. yfirlitsmynd af flæðigryfjunum með skiptingu milli Elkem og Norðuráls. Samþykktur og útgefinn deiliskipulagsuppdráttur í mælikvarða 1:2000, sem sýnir vestursvæði

Grundartangahafnar og staðsetningu nýrrar flæðigryfju, samþykkt í júlí 2024. Hönnunargögn fyrir flæðigryfjugarð unnin af COWI.

6) Undirrituð yfirlýsing Faxaflóahafna dags. september 2024, um að umsókn Norðuráls Grundartanga ehf og Elkem Ísland ehf, um framkvæmdaleyfi fyrir gerð nýrrar flæðigryfju til samræmis við gildandi deiliskipulag athafnasvæðis, athafna- og hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðis á Grundartanga, Vestursvæði, samþykkt 25. október 2023, og á grundvelli hönnunargagna Cowi Ísland ehf. sem fylgja með umsókn, sé sett fram með fullu samþykki félagsins, sem eiganda viðkomandi landsvæðis.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt vegna fyrirhugaðs flæðigryfjugarðs, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Leyfið takmarkist við svæði 1, sbr. mynd 1.1 og 2.1 í umhverfismatsskýrslu dags. janúar 2023 sem unnin var af Mannviti, sbr. einnig hafnarsvæði H1 skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sbr. mynd 3.1 í umhverfismatsskýrslu dags. janúar 2023.
Leyfið taki mið af fylgigögnum umsóknar s.s. áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar frá ágúst 2023.
Gildistími leyfisins verði 1 ár frá samþykki sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar en áætlað er að framkvæmdatími sé 12 mánuðir.
Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

15.Fjárhagsáætlun USNL nefndar 2025.

2409016

Fjárhagsáætlun 2025.



Umræður voru um fjárhagsáætlun ársins 2025 og þær áherslur sem nefndin hefur.
Rætt um að gera ráð fyrir fjármagni til að skoða námumál og fyrir jarðvegstipp fyrir uppgröft og gróðurúrgang.
Skila þarf endanlegri fjárhagsáætlun fyrir kl. 16:00 föstudaginn 4. október n.k.

Fundi slitið - kl. 17:30.

Efni síðunnar