Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

40. fundur 21. ágúst 2024 kl. 15:30 - 17:55 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
  • Guðbjartur Þór Stefánsson 1. varamaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Vindorkugarðurinn Sólheimar- Umsagnrbeiðni.

2407028

Erindi dags. 2. júlí 2024 frá Skipulagsstofnun.

Óskað er eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna kynningar umhverfismatsskýrslu (Mats á umhverfisáhrifum) vegna Vindorkugarðsins Sólheimum nr. 0852/2024 en málið er til kynningar í Skipulagsgátt.

Qair Iceland áformar að reisa 209 MW vindorkugarð með 29 vindmyllum sem verða allt að 200 m á hæð. Staðsetning er á Laxárdalsheiði í Dalabyggð.

Kynningartími er frá 2.7.2024 til 3.9.2024.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við umhverfismatið en vill benda á samlegðaráhrif vegna áforma um aðra vindorkugarða á Norðvesturlandi svo sem við Garpsdal, Hróðnýjarstaði, Grjótháls, Múla, Tjörn á Vatnsnesi og fl.
Nefnin bendir jafnframt á að uppskipun og flutningur vindmylluspaða um Grundartangahöfn og þjóðvegakerfið upp á Laxárdalsheiði er úrlausnarefni framkvæmdaraðila í nánu samstarfi við Grundartangahöfn og Vegagerð og eftir atvikum lögreglu, en hefur ekki áhrif á skipulagsmál sveitarfélags að því að best verður séð. Um er að ræða aukinn flutning á framkvæmdatíma sem mun hafa tímabundin áhrif á aðliggjandi svæði og aðra vegfarendur. Nefndin telur hins vegar að aðstæður í Grundartangahöfn séu góðar en vill þó beina því til framkvæmdaraðila að leitast verði við að tímasetning flutninga verði þannig að þeir hafi sem minnst áhrif á aðra vegfarendur.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

2.Landeldi í Hvalfirði - umsagnarbeiðni.

2407026

Aurora fiskeldi ehf. áformar að byggja landeldistöð fyrir lax á Grundartanga, Hvalfjarðarsveit. Fyrirhuguð framleiðsla er um 14.000 tonn á ári en stöðin verður staðsett á lóð nr. 34 á Grundartanga nánar tiltekið norðaustan við álver Norðuráls.

Katanestjörn er við vesturenda lóðarinnar og er landið í eigu Faxaflóahafna. Fyrirhuguð framkvæmd Qair Íslands mun vera staðsett á lóðinni suðvestan megin við framkvæmdarsvæði Aurora fiskeldis þ.e. á lóðum Grundartanga nr. 30 og 32.

Stærð lóðarinnar er 152.573 m2 og er fyrirkomulag fiskeldis innan lóðarinnar skilgreint í meðfylgjandi gögnum.

Sjó verður dælt beint inn í stöðina úr Hvalfirði en áætluð vatnsþörf er um 13,5 m3 /sek og gert er ráð fyrir um 75% endurnýtingu á sjóvatni. Áætluð ferskvatnsþörf er um 3,6 l/s en gert er ráð fyrir 99% endurnýtingu á ferskvatnshluta framleiðslunnar.

Framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar samkvæmt tölulið 11.05 og 1.09 í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana en losun stöðvarinnar mun fara umfram 2.000 persónueiningum.



Mannvirki skiptast að megin stofni í eftirfarandi liði:



Ferskvatnshluti

Gert er ráð fyrir klak- og starthúsi þar sem verða 6 klakskápar og 6 startker sem eru um 60 m3 hvert. Fyrir áframvöxt verða byggð 6 x 500 m3 ker og fyrir lokahluta ferskvatns stöðvarinnar verður byggt hús með 10 x 500 m3 kerjum þar sem verður hægt að nota bæði ferskvatn og sjó. Samtals er ferskvatnsstöðin um 8.300 m3 af kerjum. Full hönnun á húsum liggur ekki fyrir en gera má ráð fyrir að byggingarflötur verði um 5.000 m2.



Sjóvatnshluti

Ker fyrir sjóhluta stöðvarinnar eru í þremur stærðum, samanber töflu 2.11. Gert er ráð fyrir fjórum kerjum sem verða 1.500 m3, sex kerjum sem verða 5.000 m3 og tólf kerjum sem verða 10.000 m3. Heildar kerjarými fyrir sjó hlutann verður því samtals um 156.000 m3. Þessi ker verða yfirbyggð sem kemur í veg fyrir ljósmengun frá stöðinni.

Eins og áður segir þá eru kerin um 10 m djúp en byggt verður yfir kerin með vinnuaðstöðu sem er um 3,5 m þannig að heildarhæð kerja verður um 13 m.

Einnig verða byggð starfsmanna og þjónustuhús um 300 m3, eitt inntakshús fyrir sjó um 200 m2 hvert og rafmagnshús með varaaflstöð sem verður um 300 m2. Hæð þessara bygginga verður um 4-6 m.

Fóður síló, fóðurstöð og súrefnistankar verða einnig reistir. Gert er ráð fyrir þremur súrefnistönkum sem hver um sig er um 30 m3 og eru þeir um 2 m í þvermál og 10 m á hæð. Þá er gert ráð fyrir fjórum fóður sílóum. Hvert fóður síló samanstendur af tveimur 40 feta gámum sem staflað er hvor upp á annan. Hvert síló tekur um 25 tonn af fóðri og því hægt að geyma um 100 tonn af fóðri í sílóum. Leitast verður við að fella mannvirki sem best að byggingum og landlagi.



Heildar fjöldi kerkja á lóðinni verða 44 talsins og kerjarými stöðvarinnar verður um 161.000 m3. Seiðastöðin verður byggð sem RAS stöð (Recirculation Aquaculture System) með allt að 99% endurnýtingu vatns.



Lífmassi og ferill fiska í stöðinni:

Teknir verða inn 1,2 milljón laxa hrognahópar þrisvar sinnum á ári eða samtals 3,6 milljón. Keypt verða um 4 milljón laxahrogn á ári. Fjöldi fiska til slátrunar verður að teknu tilliti til 20 % affalla, um 3 x 960.000 fiskar frá hverjum hrognahóp, eða um 2.800.000 fiskar sem eru um 5 kg á ári, samtals um 14.000 tonna ársframleiðsla.



Reiknað er með að slátra um 1.160 tonnum í hverjum mánuði eða um 14.000 tonnum á ári. Ekki hefur enn verið endanlega ákveðið hvar fiski verður slátrað. Ekki er gert ráð fyrir sláturhúsi á lóð framkvæmdaraðila og því líklegt að fiskur verði fluttur með brunnbát til slátrunar í nærliggjandi sveitarfélagi.



Vegna skort á ferskvatni á lóð félagsins verður reist RAS stöð (Recirculation Aquaculture System) með allt að 99% endurnýtingu vatns. Vatnstaka mun fara fram með því að fá afhent kalt ferskvatn frá vatnsveitu á svæðinu. Einnig verður framleitt vatn úr sjó með RO (Reverse Osmosis) síum. Síurnar umbreyta söltu vatni í ferskt vatn. Áætluð meðalvatnsnotkun stöðvarinnar verður um 3,6 l/s og hámarksvatnsnotkun um 7,2 l/s við hefðbundinn rekstur og að hámarki um 20-30 l/s vegna bólusetninga, flokkunnar og flutnings seiða milli eininga.



Inntakslagnir í sjó verða annars vegar á 10 metra dýpi og 150-200 metra frá landi og hins vegar 30-50 metra dýpi og um 300-500 metra frá landi. Gerð verða göt á lagnir þannig að sjór flæði óhindrað inn í

lagnir. Inntakslagnir verða fjórar lagnir sem eru um 1.200 mm í þvermál. Gert er ráð fyrir að tvær verði lagðar á um 15 m dýpi og tvær á um 40 m dýpi. Sjódælur sjá um um að miðla vatni frá inntakslögnum og í kerin.

Hámarks sjóvatnsnotkun verður um 13.500 l/s (44.600m3/kls)



Gert er ráð fyrir heildarfóðurnotkun fóðurs verði um 17.000 tonn á ári. Fóðrið verður flutt með skipum til Grundartanga. Fóðrið verður að mestu afhent í stórsekkjum og komið fyrir á fóðurlager og fóðursílóum.



Fráveita og lífrænn úrgangur:

Frárennsli verður veitt út í sjó, 5 m fyrir neðan stórstraumsfjöru.Eldisvatnið verður hreinsað í seiða og matfiskeldi með ristum í kerjum og síubúnaði þar sem grófar agnir

eru hreinsaðar áður en veitt er í viðtaka. Gert er ráð fyrir að minnstu 70-90% hreinsum af föstum efnum. Við endurnýtingu vatns í sjóeldiskerjum, verður föstum efnum veitt í söfnunartank.Affallið verður síað/hreinsað á tveimur hreinsistöðvum. Hreinsistöðvarnar verða reistar með 500 m3 þró fyrir fiskimykju. Gera má ráð fyrir allt að 12 tonnum á dag og verður geymslugetan/ -rýmið rúmlega 40 dagar.



Meðhöndlun á dauðfiski

Meltutankur verður á stöðinni, með það í huga að nýta meltuna til frekari framleiðslu á verðmætum. Dauðfiskur frá daglegum rekstri verður kvarnaður í meltutanki og látin liggja í maurasýru með pH undir 3,5-4. Gert er ráð fyrir að gera samning við fyrirtæki sem sjá um móttöku á dauðfiski vegna massadauða eða förgunar vegna sjúkdóma. Dauðfiskur verður fjarlægður eins fljótt og unnt er úr stöðinni.



Heildaraflþörf er áætluð um 7.400 kW.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árið 2025 og verði lokið 2028.

Samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins fellur fyrirhuguð framkvæmd innan athafnarsvæðisins AT5 en fyrirhuguð framkvæmd kallar á breytingar á aðalskipulagi.

Skv. aðalskipulagi liggur hitaveitulögn um svæðið.

Í töflu 2.15 kemur fram heiti svæðis AT5, lýsing og skilmálar skv. aðalskipulagi. Þar kemur fram að svæðið sé til framtíðarnota, sé fyrir hreinlega starfsemi. M.a. er heimilt að byggja allt 500 m2 upplýsinga- og

þjónustumiðstöð sem verður nánar skilgreind í deiliskipulagi.

Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir athafnarstarfsemi á fyrirhugaðri lóð [11]. Gera þarf breytingar á deiliskipulagi og aðlaga m.a. byggingarreit að starfsemi og skilmála um mannvirki.

Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru metin samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrif framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Samkvæmt tölulið 11.05 og 1.09 í 1. viðauka laganna, þá fellur þessi framkvæmd í flokk B og er því tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu.

Samkvæmt sveitarfélagauppdrætti Aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 eru skráðar minjar á svæðinu, skv. aðalskráningu fornminja. Eins og sjá má á mynd 3.13 þá er flestar minjar skráðar við bæjarhólinn en samkvæmt skráningu er einnig að finna minjar norðar og þá innan fyrirhugaðs framkvæmdarsvæðis.

Framkvæmdar hafa verið fornleifaúttektir á Katanesi en árið 2003 fór fram aðalskráning minja við Katanes svæðinu [14] [15] og árið 2023 í tengslum við umhverfismat Qair Íslands.

Nákvæmur fjöldi eða staðsetning menningarminja innan fyrirhugaðs framkvæmdarsvæðis liggur ekki fyrir.

Dreifing frárennslismengunar frá fyrirhugaðri fiskeldisstöð sem fyrirtækið hyggst reisa í Hvalfirði voru metin og dreifing köfnunarefnis (N), fosfórs (P) og lífrænnar (BOD) var reiknuð. Niðurstöður útbreiðslulíkans í Hvalfirði benda til þess að umhverfisáhrif af rekstri Auroru Fiskeldis séu lítil.



Frestur til að skila umsögn er til 28. ágúst næstkomandi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hefur yfirfarið matstilkynningu sem gerir grein fyrir helstu umhverfisþáttum framkvæmdar. Nefndin vill þó árétta, það sem fram kemur að vatnsveita sveitarfélags annar tæplega núverandi notkun og því óljóst hvort aukning upp á 3,6 l/s takmarki aðra notkun. Nefndin bendir á að náið samráð skuli hafa við veitustofnun vegna afhendingar á ferskvatni á svæðinu. Þá þarf að tryggja að flutningur sláturfisks sé öruggur m.t.t. varna við slysasleppingum við umskipun/dælingu sláturfisks frá kerjum til skips. Einnig má gera betur grein fyrir förgun/nýtingu lífræns úrgangs eftir hreinsun hans og geymslu í allt að 40 daga.
Fram kemur í matstilkynningunni að frárennsli verði leitt út í sjó í Hvalfirði, 5 m fyrir neðan stórstraumsfjöru og að eldisvatnið verði hreinsað með ristum í kerjum og síubúnaði þar sem grófar agnir verði hreinsaðar áður en veitt verði í viðtaka. Nefndin vill árétta að vel verði fylgst með mengunarhættu sem gæti hlotist af því að leiða frárennsli frá starfseminni í sjó í Hvalfirði.
Fram kemur einnig að meltutankur verði á stöðinni, með það í huga að nýta meltuna til frekari framleiðslu á verðmætum og í því skyni verði dauðfiskur kvarnaður og látin liggja í maurasýru og gerður samningur við fyrirtæki sem sjá um móttöku á dauðfiski vegna massadauða eða förgunar vegna sjúkdóma. Að mati nefndarinnar þarf að skýra betur út hvernig farið verður með dauðfisk eftir að hann hefur verið afhentur til förgunar svo sem hvar og hvernig fiski verður fargað.
Að öðru leyti gerir USNL-nefnd ekki athugasemdir við framkomna matstilkynningu.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.


3.Endurskoðun aðalskipulags Kjósarhrepps 2024-2036 - Umsagnarbeiðni.

2407029

Erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er umsagnar vegna endurskoðunar aðalskipulags Kjósarhrepps 2024-2036, mál nr. 0917/2024: Lýsing (Nýtt aðalskipulag).

Málið er til kynningar í Skipulagsgátt og er kynningartími er frá 15.7.2024 til 22.8.2024.

Sveitarstjórn Kjósarhrepps samþykkti á fundi sínum 11. júlí sl. skipulagslýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulags Kjósarhrepps 2024-2036.

Síðan gildandi aðalskipulag Kjósarhrepps 2017-2029 var unnið hafa ýmsar forsendur breyst er varða m.a. landnotkun, innviði og þróun búsetu og atvinnulífs.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við skipulagslýsingu Kjósarhrepps.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

4.Umsögn um deiliskipulag - Eyri í Kjós í Hvalfirði.

2403014

Erindi frá Kjósarhreppi.

Kjósarhreppur auglýsir til kynningar verkefnislýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi samkvæmt 1. mgr. 30. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 og nýs deiliskipulags fyrir svæði ÍB8 í landi Eyrar í Kjós í Hvalfirði í samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Um er að ræða skipulagslýsingu vegna breyttrar landnotkunar innan aðalskipulags Kjósahrepps 2017-2029.

Svæðið sem um ræðir liggur norðan-, og sunnanmegin við Hvalfjarðarveg (Þjóðvegur 47). Breytt notkun felst í breytingu á landbúnaðarlandi í íbúðabyggð. Í dag er landið skilgreint sem íbúðabyggð að hluta og sem landbúnaðarsvæði. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Breyting á aðalskipulagi verður unnin samhliða deiliskipulagi á öllu skipulagssvæðinu. Í verkefnislýsingu kemur lögum samkvæmt fram hvaða áherslur sveitastjórn hefur við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli s.s. um kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við fyrirhuguð áform.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

5.Stefnumörkun um bátaskýli og bátaaðstöðu við Skorradalsvatn.- umsagnarbeiðni.

2407025

Lögð fram tillaga að stefnumörkun um bátaskýli og bátaaðstöðu við Skorradalsvatn.

Í megin dráttum felur skipulagsbreytingin í sér að sett er fram stefna um bátaskýli og bátaaðstöðu við Skorradasvatn. Í stefnunni er lagt til að uppbygging bátaskýlasvæða og bátastæða verði utan strandarinnar og á skilgreindum bátalægum verði heimilt að setja upp flotbryggjur og bátabrautir.

Frestur til að skila inn athugasemd er til 19. ágúst 2024.





Skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir varðandi gerð aðalskipulags, kynningu og samráð að áður en tillga að aðalskipulagi sé tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn, skuli tillgan, forsendur hennar og umhverfismat, þegar við á, kynnt sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga og sveitarfélögum sem kunna að eiga hagsmuna að gæta vegna skipulagsins.



Skv. grein 4.6.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir að kynna skuli aðalskipulagstillögu á vinnslustigi fyrir aðliggjandi sveitarfélögum, áður en tillaga að aðalskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við fyrirhuguð áform.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

6.Deiliskipulag fyrir athafnasvæðið fyrir svínabúið að Melum

2407027

Með ábendingu dags. 18.06.2024 vill Umhverfisstofnun benda Hvalfjarðarsveit á nýfallinn úrskurð hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 1/2024 (svínabú að Minni-Vatnsleysu) þar sem fellt var úr gildi fyrirmæli 3. mgr. 10. gr. starfsleyfis svínabús Síldar og fisks ehf., ákvæði til bráðabirgða, varðandi heimild til tímabundinnar dælingar blauthluta svínamykju í sjó þar sem úrskurðarnefndin taldi skilyrðið ekki í samræmi við reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.



Í gr. 5.2 í reglugerð nr. 804/1999 er lagt bann við losun úrgangs frá búfjárframleiðslu í yfirboðsvatn. Engin heimild er í reglugerð nr. 804/1999 til þess að veita undanþágu frá banni reglugerðarinnar við losun mykju í yfirborðsvatn í starfsleyfi eða í skipulagi.



Árið 2009 var gerð veruleg breyting á deiliskipulagi fyrir athafnasvæðið fyrir svínabúið að Melum en skipulagið var auglýst í B-deild þann 21. júlí 2009. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að blauthluta sé safnað í tank og því dælt út í sjó þrátt fyrir að slík framkvæmd sé bönnuð skv. reglugerð nr. 804/1999.



Umhverfisstofnun bendir í ábendingu sinni á að óheppilegt sé að í gildi sé skipulag sem kveður á um losun blauthluta í sjó sem stangast á við ákvæði reglugerðar nr. 804/1999.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd þakkar fyrir ábendingu Umhverfisstofnunar.
Starfsfólk Umhverfis- og skipulagsdeildar hefur rætt við landeiganda vegna málsins og er það í farvegi.

7.Virkjun í landi Þórisstaða.

2310021

Frestað frá síðasta fundi.

Ósk landeiganda um endurupptöku málsins.

Forsaga málsins er sú að USNL-nefnd hafnaði landeigendum um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í landi Þórisstaða, án undangengis deiliskipulags, sbr. 35. fundur USNL-nefndar þann 17.04.2024.



Eftirfarandi er niðurstaða við afgreiðslu USNL-nefndar á fundi síum þann 17. apríl 2024:

Fyrir liggur minnisblað frá lögmanni sveitarfélagsins dags. 12. apríl 2024 vegna málsins og voru umræður um efni og innihald þess á fundinum. Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar og landbúnaðarnefnd telur sér ekki fært um, á þessu stigi málsins, að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir fyrirhugaða virkjun í landi Þórisstaða. Skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 kemur fram að virkjanir eins og sú sem hér er til umfjöllunar, séu í samræmi við aðalskipulag, kafla 2.3.4 um stakar framkvæmdir. Þar segir einnig: „Gert er ráð fyrir að skoðað verði í hverju tilfelli fyrir sig hvort og þá hvar eftirfarandi stakar framkvæmdir verða heimilaðar. Áfram verður gerð krafa um deiliskipulag eða eftir atvikum grenndarkynningu, þá þarf framkvæmdaleyfi og/eða byggingaleyfi.“ Ekki er að mati Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar, fullnægjandi eitt og sér, að gert sé ráð fyrir stökum virkjanaframkvæmdum í aðalskipulagi, til að veita megi leyfi fyrir virkjun á Þórisstöðum, heldur þurfi jafnframt að liggja fyrir deiliskipulag vegna fyrirhugaðra áforma. Erindi landeiganda þar sem óskað er framkvæmdaleyfis vegna virkjunar í landi Þórisstaða er því hafnað þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Umhverfis-, skipulags, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd vill hvetja landeigendur Þórisstaða til að leita frekari leiða til að afla samþykkis allra aðliggjandi landeigenda vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.



Sveitarstjórn staðfesti síðar afgreiðslu USNL-nefndar.



Erindið var aftur á dagskrá USNL-nefndar þann 5. júní sl. Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Erindi dags. 22.05.2024 frá landeigendum á Þórisstöðum. Í erindinu felst áskorun til USNL-nefndar um að endurskoða höfnun á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna örvirkjunar að Þórisstöðum. Er skorað á USNL-nefnd að skoða hvort höfnun á framkvæmdaleyfi fyrir örvirkjun að Þórisstöðum hafi byggt á réttum upplýsingum, meðalhófi og jafnræði við afgreiðslu mála af sambærilegum toga hjá sveitarfélaginu. Er jafnframt skorað á USNL-nefnd að endurskoða afstöðu sína til umsóknar landeigenda Þórisstaða og leita álits Skipulagsstofnunar á því hvort gera þurfi deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, ella rökstyðja kröfu um gerð deiliskipulags á annan hátt en með tilvísun í minnisblað lögmanns sveitarfélagsins. Í erindinu er jafnframt óskað eftir svörum, skýringum og gögnum við 6 tölusettum liðum.



Niðurstaða:

Á fundinum var farið yfir erindi landeiganda á Þórisstöðum og voru umræður um málið. Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fela deildarstjóra umhverfis- og skipulagsdeildar að vinna áfram að málinu. Afgreiðslu málsins frestað.



Málið var enn á dagskrá USNL-nefndar þann 3. júlí 2024. Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Ósk landeiganda um endurupptöku málsins. Forsaga málsins er sú að USNL-nefnd hafnaði landeigendum um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í landi Þórisstaða, án undangengis deiliskipulags, sbr. 35. fundur USNL-nefndar þann 17.04.2024. Sveitarstjórn staðfesti síðar afgreiðslu USNL-nefndar.



Niðurstaða:

Skipulagsfulltrúa barst tölvupóstur frá landeignada að kvöldi dags. þann 28. júní, eftir að fundardagskrá hafði verið send út til Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndarinnar. Óskaði landeigandi eftir að nefndinni yrði sendur þessi tölvupóstur. USNL-nefnd barst þessi tölvupóstur þann 02.07.2024 eða degi fyrir fundardag. Í ljósi þess að ekki hafa allir haft tækifæri til að kynna sér efni þessa tölvupósts ákveður nefndin að fresta afgreiðslu málsins.
Forsaga málsins er að Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hafnaði landeigendum um framkvæmdarleyfi fyrir virkjun í landi Þórisstaða, án undangengis deiliskipulags, sbr. 35. fundur USNL-nefndar þann 17. apríl 2024. Sú ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar þann 24. apríl 2024. Þann 22. maí 2024 skoruðu landeigendur á USNL-nefnd að endurskoða höfnun á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna örvirkjunar.

Erindi landeigenda verður skilið þannig að verið sé að fara fram á endurupptöku framangreinds máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef (1) ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða (2) íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Vegna þessa hefur landeigendum verið gefinn rúmur frestur til að koma á framfæri frekari skýringum og gögnum máli sínu til stuðnings. Eftir ítarlega skoðun allra gagna málsins er það niðurstaða USNL-nefndar að ákvörðun um að hafna umsókn landeiganda um framkvæmdaleyfi vegna örvirkjunar hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum og atvik hafi ekki breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Kröfu landeiganda um endurupptöku málsins er því hafnað.

8.Ágangsbúfé

2306024

Erindi dags. 14.07.2024 frá Eyjólfi Jónssyni er varðar ágang sauðfjár.

Fram kemur að ágangurinn varði Hlíð, Hurðarbak og Vestra-Miðfell, auk nærliggjandi vegi, en féð sem málið varði sé að mestu leyti frá sama búinu.

Þá kemur einnig fram að rætt hafi verið við starfsfólk Hvalfjarðarsveitar og Vegagerðarinnar vegna málsins en engin niðurstaða eða lausn hafi fengist.

Spurst er fyrir um hvað hægt sé að gera til að sporna við þeim ágangi sem lýst er í bréfinu.





Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur í ljósi erindisins rétt að fara yfir girðingarmál á svæðinu og felur Umhverfis- og skipulagsdeild að afla upplýsinga um ástand girðinga á svæðinu og eftir atvikum ræða við Vegagerðina vegna málsins. Þá felur nefndin Umhverfis- og skipulagsdeild að upplýsa umrædda fjáreigendur um málið.

9.Galtalækur - breyting á landnotkun

2407024

Erindi dags. 14.05.2024 frá Gunnari Þór Gunnarssyni þar sem óskað er eftir breytingu á landnotkun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 fyrir Galtalæk.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fela deildarstjóra Umhverfis- og skipulagsdeildar og formanni USNL-nefndar að funda með landeiganda vegna málsins.

10.Sólarorkuver með sólarspeglum

2407023

Erindi frá Íslensku gagnavinnslunni ehf þar sem kynntar eru fyrirætlanir um uppsetningu 2,4 MW sólarorkuvers í landi Leirár.

Um er að ræða 33 hektara svæði, sem á verður búnaður í tengslum við sólarsellur, á um 4,6 ha svæði vegna bila á milli sólarsellu raða.

Mörk vegna tilkynningarskyldu til Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum eru 2,5 MW.

Spurst er fyrir um hvort þessar fyrirætlanir kalli á breytingu aðalskipulags og jafnframt hvort einhver verndarsvæði séu í Hvalfjarðarsveit, sem ekki koma fram á núverandi aðalskipulagi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur að framkvæmdin, eins og henni er lýst í erindinu, kalli á breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 þar sem landnotkun yrði skilgreind sem iðnaðarsvæði. Ætla má að framkvæmdin muni hafa nokkur ásýndaráhrif. Staðsetning starfseminnar í landi Leirár er utan verndarsvæða eftir því sem best verður séð. Nefndin vill benda á að lagnaleiðir og aðkoma að svæðinu, sjást ekki á yfirlitsmyndinni sem fylgdi með erindinu og taka verður tillit til þess í svari USNL-nefndar vegna verndarsvæða.
Nefndin mælir með að skoðað verði hvort framkvæmdin kunni að vera tilkynningarskyld sbr. lög um umhverfimat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

11.Lækur L 133785 - framkvæmdaleyfi - fyrirspurn.

2407015

Erindi dags. 05.07.2024 frá Landi og skógum þar sem spurst er fyrir um framkvæmdaleyfi í tengslum við endurheimt votlendis á jörðinni Læk L133785 í Hvalfjarðarsveit.

Jafnframt er spurst fyrir um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi og óskað slíks leyfis sé þörf á framkvæmdaleyfi.

Í bréfinu er bent á að Skipulagsstofnun hefur gefið út bækling um endurheimt votlendis, "Um endurheimt votlendis-skipulag og leyfi". Í þessum leiðbeiningum Skipulagsstofnunar kemur m.a. fram að framkvæmdir við endurheimt votlendis kunni að vera háðar framkvæmdaleyfi. Við mat sveitarstjórnar á því hvort framkvæmd skuli háð framkvæmdaleyfi skuli m.a. hafa til hliðsjónar stærð þess svæðis sem í hluta á og áhrif á landslag og önnur umhverfisáhrif.

Fyrirhugað endurheimtarsvæði er um 30 ha að stærð skv. upplýsingum sem fram koma í umsóknargögnum og verða framkvæmdir utan fuglavarpstíma, síðsumars eða að hausti.

Um er að ræða í meigin dráttum tvö skurðstykki sem verður fyllt í, í öðru eru um 2.450 metrar af skurðum en í hinu um 2.350 metrar af skurðum, samtals um 4.800 metrar.
Skv. 5. grein reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 segir að endurheimt votlendis geti með hliðsjón af 4. grein sömu laga, verið háð framkvæmdaleyfi enda sé umfang verksins ekki óverulegt.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur, með tilvísun til 4. og 5. greinar reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að fyrirhuguð framkvæmd sé framkvææmdaleyfisskyld, hún hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess og með hliðsjón af stærð svæðis, umfangi framkvæmdar, varanleika og áhrifum á landsalg og ásýnd umhverfisins og annarra umhverfisáhrifa, sé hún því háð framkvæmdaleyfi.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur að umrædd framkvæmd stuðli að endurheimt náttúrulegra vistkerfa á svæðinu án þess að hafa áhrif á önnur aðliggjandi svæði með neikvæðum hætti. Þrátt fyrir að hluti svæðis flokkist sem úrvals ræktunarland og sé ræktað land, má endurheimta ræktunarmöguleika þess síðar með framræsingu gerist þess þörf til matvælaframleiðslu.
Fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við framtíðarsýn um stefnu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 þar sem segir m.a. að lögð sé áhersla á að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda m.a. með endurheimt votlendis. Þá segir ennfremur í kafla um landbúnðarsvæði að leitast verði við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði m.a. með endurheimt votlendis.
USNL-nefnd fellur frá grenndarkynningu og telur að fyrirhugaðar framkvæmdir varði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda sbr. 3. mgr. 44. greinar skipulagslaga.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd mælist til þess við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að framkvæmdaleyfi verði veitt vegna fyrirhugaðrar endurheimtar á votlendi innan jarðar Lækjar, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvaljarðarsveitar.

12.Brekka L- 230005 - framkvæmdaleyfi.

2407032

Erindi frá Elku Guðmundsdóttur f.h. JG bygginga.

Ósk um framkvæmdaleyfi fyrir gerð aðkomuvegar að Brekku.

Vegurinn verður 4 m breiður og með um 40 cm þykkt burðarlag. Gert ráð fyrir 2 ræsum.

Uppgröftur verður nýttur í vegfláa og annan frágang.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt vegna fyrirhugaðs aðkomuvegar, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvaljarðarsveitar.

13.Hólabrú - Fyrirspurn um aðalskipulagsbreytingu (E13 Innri-Hólmur)

2408019

Erindi frá Eflu f.h. Steypustöðvarinnar náma ehf.

Lögð er fram fyrirspurn frá Steypustöðinni varðandi heimild til aukins efnisnáms úr Hólabrú, námu E13 í landi Innra-Hólms og Kirkjubóls. Fyrir liggur eldra umhverfismat vegna efnistöku upp á 2.000.000 m³og nýlega var send inn fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um aukningu um 250.000m³. Samhliða er lögð fram skipulagslýsing fyrir breytingu aðalskipulags, þar sem gert er ráð fyrir að stækka námu E-13 úr 260.000 m2 í 280.000 m2. Efnistökumagn verður aukið úr 1.200.000 m³ í 2.250.000m³.

Fyrir liggur ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27 júní 2024.



Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að óska eftir fundi með aðilum málsins.

14.Aðalvík 211189 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Flokkur 1,

2406009

Erindi frá byggingarfulltrúa.

Ekkert deiliskipulag er til um landið.



Eignanúmer: 01, Matshluti: 2, Fastanúmer: F2315555, Landnúmer: L211189

Flatarmál: 314,8m2, Rúmmál 1067,2m3, Stærð lóðar 53,400m2

Sótt er um leyfi til að byggja stálgrindarhús sem byggist á hefðbundinn hátt. Húsið verður nýtt sem vélaskemma.

Undirstöður eru staðsteyptar úr járnbentri steinsteypu sem hvíla á burðarhæfri frostfrýrri malarfyllingu. Utan á stálgrindarramma og Z-prófíla í þaki koma PIR-/steinullarsamlokueiningar. Allar raf-, neyslu- og hitavatnslagnir eru utanáliggjandi. Upphitun hússins verður með hitablásurum og ofnum.
Umrædd lóð er í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skilgreind sem landbúnaðarsvæði L2 þar sem heimilt er byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur bús s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Lóðastærðir fara eftir umfangi framkvæmdar.
Skv. almennum skilmálum fyrir landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 segir að byggingar fyrir ótengda atvinnustarfsemi geti verið allt að 1.200 m².
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að byggingaráform verði grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum.
Endalegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

15.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Ölver 3 - Flokkur 1,

2312006

Erindi sem vísað var frá byggingarfulltrúa vegna skipulags.

Sótt er um leyfi til að flytja einnar hæðar timburhús - frístundahús - á lóðina Ölver 3, Hvalfjarðarsveit frá Akranesi, sem var smíðaverkefni nemenda tréiðnaðardeildar skólans. Húsið verður flutt frá Akranesi og sett niður skv. afstöðumynd. Brúttóflötur húss: 25,3m2, Brúttórúmmál: 88,1 m3.

Húsið verður sett á forsteypta sökkuleiningar. Gólfbitar eru fylltir með steinullareinangrun, klætt undir með 12mm krossvið og ofan með 22mm gólfnóvapan. Burðarvirki veggja húsa er timburstoðir, einangrað milli stoða og klætt að utan með timburklæðningu. Þaksperrur eru einangraðar á milli sperra með steinullareinangrun. Ofan á sperrur er timburklæðning, þakpappi og báraðar málmplötur.Þakhalli verður 30°.



Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkti á 35. fundi sínum þann 17.4.2024 að grenndarkynna byggingarleyfið í ljósi þess að ekkert deiliskipulag var í gildi á svæðinu.

Grenndarkynnt verði skv. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010 meðal aðliggjandi lóðarhafa þ.e. Ölveri 13, 24, 25 og landeiganda Hafnar.

Kynningartími var frá 12. júní til 10. júlí 2024.

Grenndarkynningu lokið - engar athugasemdir bárust.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir niðurstöðu grenndarkynningarinnar og gerir ekki athugsemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi í samræmi við fyrirliggjandi byggingaráform.

16.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hjallholt 26 - Flokkur 1,

2402054

Erindi vísað frá byggingarfulltrúa en ekkert deiliskipulag er í gildi.

Undirstöður eru steyptir hólkar, dregarar eru fesir á undirstöður með innsteyptum teinum. Undirstöður fara niður á burðarhæfan jarðveg, gólfbitar koma á dregara, í botn bólfbita kemur olíusoðinn krossviður, gólf er einangrað með steinull, músanet á milli gólfbita undir einangrun. Ofan á gólfbita kemur rakavarnarlag og nótaðar spónaplötur. Allir burðarveggir eru hefðbundnir timbur veggir. Burðarvirki í þaki er hefðundið krossloftað sperruþak.



Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkti á 35. fundi sínum þann 17.4.2024 að grenndarkynna byggingarleyfið. Grenndarkynnt verði skv. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010 meðal aðliggjandi lóðarhafa og landeiganda.

Athugasemdafrestur er frá 12.6.2024 til 10.7.2024.

Grenndarkynningu lokið - Engar athugasemdir bárust.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir niðurstöðu grenndarkynningarinnar og gerir ekki athugsemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi í samræmi við fyrirliggjandi byggingaráform.

17.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Narfastaðaland 1 no.1 - Flokkur 2,

2405006

Erindi frá byggingarfulltrúa.

Ekkert deiliskipulag er til um landið.



Narfastaðir 1. no. 1.

Mhl. 01, Landeignanúmer: L203932.

Stærð hússins er: Einbýlishús MHL 01 - 159,3m2 og 542,4m3, landstærð er 48000 m2.

Sótt er um leyfi til að byggja einbýlishús á einni hæð. Húsið er í notkunarflokki 3 skv. gr. 9.1.3 BR 112-2012.

Húsið er með fjórum svefnherbergjum, svefnaðstaða er fyrir 6-8 manns.

Undirstöður eru steinsteyptar ásamt gólfplötu. Allir burðarveggir eru hefðbundnir timbur veggir. Burðarviður í þaki er hefðbundið krossloftað sperruþak, þakhalli er 7°. Útveggir eru klæddir með loftræstri timburklæðningu lóðrétt í dökkum lit. Klæðningarefni að innan er í flokki 2. Allir gluggar og hurðir eru hefðbundnir ál/timbur. Innveggir eru hefðbundnir timburveggir klæddir með Fermacell harðgifsi á báðum hliðum. Í votrýmum koma vatnsvarðar Aquapanel sementsplötur.



Á 39. fundi umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar-, og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar þann 3.7.2024 var gerð eftirfarandi bókun:

Erindi sem vísað var frá byggingarfulltrúa til USNL-nefndar vegna skipulags.

Ekkert deiliskipulag er fyrir hendi.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið meðal aðliggjandi lóðarhafa og fyrir Vegagerðinni.

Frestur til að skila athugasemdum var frá 16. júlí til 15. ágúst 2024.

Engar athugasemdir bárust.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir niðurstöðu grenndarkynningarinnar og gerir ekki athugsemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi í samræmi við fyrirliggjandi byggingaráform.

18.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hjallholt 28 - Flokkur 1,

2405003

Erindi sem vísað er frá byggingarfulltrúa vegna skipulags.

Ekkert deiliskipulag er til yfir landið.

Húsið er 312,0m2 og 873,6m3 Landnúmer: L133585, Fasteignanr: F2333896, Staðgreinir: 3511-1-60030280, Mhl. 01 Hjallholt 28 er skráð sumarbústaðaland að stærð 10050,0m2 Sótt er um leyfi fyrir byggingu á frístundahúsi í landi Þórisstaða í Svínadal Hvalfjarðarsveit. Landið er í eigu Starfsmannafélags Íslenskra Járnblendifélagsins. Akstursaðkoma er frá Dragavegi um vegslóða Hjallholts og að sumarh´sinu. Sílskýli og bílastæði er í framhaldi af aðkomuvegi, s- austan við húsið. Bílskýli er samtengt og hluti af sumarhúsinu. Grei aðkoma er frá bílskýli og bílastæði um aðalinngangi. Hugað verður að góðu aðgengi hreyfihamlaðra að inngangi og alm. um lóðina. Byggingin er á tveimur hæðum og greinist húsið í tvo megin hluta, alrými og herbergjahluta, með svefn- og vinnuherbergjum ásamt baðherbergi. Efri hæð er opið rými, inndregið frá neðri hæð og opnast með sjónræn tengsl að alrými neðri hæðar. Með stórum glerfögum útveggja er aukið útsýni að náttúru og umhverfi. Heitur pottur mun verða a verönd og frágegninn samkv. kröfum í Byggingarreglugerð kafli 12.10. Undirstöður eru staðsteyptir sökklar undir sjálfu íbúðarhúsinu með staðsteyptri plötu á þjöppuðu undirlagi, einangrað er með sökkuleinangrun undir plötu og upp með sökklum. Útveggir, burðargrind hússins er timburgrind. Þak er sperru þak með mótuðum vatnshalla með þakpappa sem endanlegu yfirborði þaks. Innanhúsklæðning er fyrirhugðuð hljóðdempandi viðarklæðning eða viðarlistar. Gluggar og hurðir eru úr timbri. Innveggir eru léttir gipsplötuveggir.



Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkti á 39. fundi sínum þann 3.7.2024 að grenndarkynna byggingarleyfið fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeiganda í ljósi þess að ekkert deiliskipulag var í gildi á svæðinu.

Grenndarkynnt verði skv. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

Kynningartími var frá 16. júlí til 14. ágúst 2024.

Grenndarkynningu er lokið - engar athugasemdir bárust.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir niðurstöðu grenndarkynningarinnar og gerir ekki athugsemd við að byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi í samræmi við fyrirliggjandi byggingaráform.

19.Fjallskil 2024

2407031

Smölun og réttir í Hvalfjarðarsveit fyrir árið 2024.





Tillaga umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar að fjallskilaseðli Hvalfjarðarsveitar árið 2024.

A. Leitarsvæði Núparéttar: Leitarsvæðið nær yfir Leirár- og Melasveit og Svínadal norðan Laxár inn að mörkum Hlíðarfótar og Eyrar. Leitardagur er á laugardegi fyrir rétt. Fyrri Núparétt er sunnudaginn 8. september kl. 13 og seinni rétt laugardaginn 22. september þegar smölun lýkur. Leitarstjórar eru Baldvin Björnsson og Hannes Adolf Magnússon. Réttarstjóri er Baldvin Björnsson. Marklýsingamenn eru Helgi Bergþórsson og Atli Viðar Halldórsson.

Skilamenn í Hornsrétt eru Baldvin Björnsson og Hannes Adolf Magnússon.

B. Leitarsvæði Reynisréttar. Leitarsvæðið nær yfir Skilmannahrepp allan, Innri-Akraneshrepp og Akraneskaupstað. Leitardagar skulu vera sömu daga og réttir eru. Fyrri Reynisrétt er laugardaginn 14. september þegar smölun lýkur. Leitarstjóri er Sigurgeir Guðni Ólafsson. Réttarstjóri er Lilja Guðrún Eyþórsdóttir. Marklýsingamenn eru Ólafur Sigurgeirsson og Lilja Guðrún Eyþórsdóttir.

C. Leitarsvæði Svarthamarsréttar. Leitarsvæðið nær yfir Hvalfjarðarströnd, Svínadal allan sunnan Laxár og norðan Laxár að innanverðu allt að merkjum Eyrar og Hlíðarfótar og upprekstrarland Akraneskaupstaðar á Botnsheiði og land jarða í Skorradalshreppi sunnan Fitjaár allt að landi Litlu Drageyrar. Leitardagar eru föstudagur og laugardagur fyrir fyrri skilaréttir. Fyrri Svarthamarsrétt er sunnudaginn 15. september kl. 10 og seinni rétt sunnudaginn 29. september þegar smölun lýkur. Leitarstjóri er Guðmundur Sigurjónsson. Réttarstjóri er Arnheiður Hjörleifsdóttir. Marklýsingamenn eru Guðmundur Sigurjónsson og Jón Ottesen.

Skilamenn í Oddstaðarétt eru Stefán Gunnar Ármannsson og Guðbjartur Þór Stefánsson.

Þá leggur nefndin til við sveitarstjórn að við réttir í sveitarfélaginu verði kaffiveitingar að höfðu samráði við réttarstjóra.

20.Breytingar á landsskipulagsstefnu

2308014

Erindi dags. 12.06.2024 frá Skipulagsstofnun þar sem vakin er athygli á nýsamþykktri landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt aðgerðaráætlun sem þar er sett fram fyrir árin 2024-2028. Í meðfylgjandi bréfi er farið stuttlega yfir uppbyggingu stefnunnar og eru sveitarfélög og aðrir sem koma að skipulagsgerð hvattir til að kynna sér nýja stefnu.
Lagt fram til kynningar.

21.Verkefnaráð vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

2206050

Lagt fram svar innviðaráðuneytis dags. 10.07.2024 við beiðni Landsnets um að skipuð verði sérstök raflínunefnd vegna Holtavörðuheiðarlínu 1 í samræmi við 9. gr. a skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. lög nr.35/2023.

Í niðurstöðu ráðuneytisins er fjallað um greinargerð sem fylgdi með frumvarpi því er varð að lögum nr. 35/2023, ásamt umfjöllun Alþingis um málið.

Að mati ráðuneytisins felst í heimild 9. gr. a skipulagslaga nr. 123/2010 frávik frá þeirri meginreglu laganna að sveitarstjórnir annist gerð skipulagsáætlana og veiti framkvæmdarleyfi. Því beri að túlka heimildina þröngt. Er sú niðurstaða í samræmi við þann vilja löggjafans sem birtist í umfjöllun Alþingis um frumvarp laga nr. 35/2023.



Af því leiðir að einungis komi til greina að beita heimildarákvæði 9. gr. a um skipan raflínunefnda í þeim tilvikum þegar fyrir liggur að ágreiningur sé til staðar, eða að slíkur ágreiningur sé a.m.k. augljóslega fyrirsjáanlegur, milli hlutaðeigandi aðila vegna framkvæmdarinnar. Af gögnum fyrirliggjandi máls verður hins vegar ekki séð að til staðar sé slíkur ágreiningur milli framkvæmdaraðila og sveitarfélags eða milli hlutaðeigandi sveitarfélaga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar.



Með vísan til m.a. framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Landsnet hafi í beiðni sinni um skipun raflínunefndar ekki sýnt fram á að nægjanlegur grundvöllur sé til þess að víkja frá meginreglu skipulagslaga um að sveitarfélögin fari með skipulagsvaldið, þar sem ekki liggi fyrir að ágreiningur sé við sveitarfélögin eða á milli þeirra um framkvæmdina. Telur ráðuneytið því að svo stöddu að synja beri framkominni beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

Lagt fram til kynningar.

22.Breyting á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85-2007 (rekstrarleyfisskyld gististarfsemi).

2407030

Vakin er athygli USNL-nefndar á breytingu sem orðið hefur á lögum nr. 85/2007 sem fjalla um rekstrarleyfisskylda starfsemi, og tóku gildi þann 30. apríl 2024.

Skv. þessum breytingum þarf rekstrarleyfisskyld starfsemi innan þéttbýlis að vera í samþykktu atvinnuhúsnæði.

Einnig hefur þessi breyting í för með sér að breyta þurfi aðaluppdráttum þannig að notkunarflokkur 4 sé tilgreindur á uppdráttum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:55.

Efni síðunnar