Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

37. fundur 05. júní 2024 kl. 15:30 - 18:15 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Sorphirða - útboð

2401057

Lagðar fram upplýsingar um stöðu mála vegna vinnu starfsfólks sveitarfélagsins og GB Stjórnsýsluráðgjafar slf, vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu í Hvalfjarðarsveit en vinnu við útboðsgögn miðar vel og er á lokastigi.
Farið yfir stöðu vegna vinnu við útboðsgögn vegna fyrirhugaðs sorpútboðs.
USNL-nefnd gerir ekki athugasemd við framlögð gögn.

2.Glymur 2024

2402031

Styrkveiting úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Erindi frá Ferðamálastofu dags. 30.04.2024.

Í kjölfar umræðna í USNL-nefnd um áframhaldandi áherslur við að vernda viðkvæma náttúru, stýra umferð ferðamanna og auka öryggi gangandi fólks að fossinum Glymi og í kjölfar styrkumsóknar sveitarfélagsins í framkvæmdasjóð ferðamannastaða hefur Menningar- og viðskiptaráðherra staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um styrkveitingar úr sjóðnum vorið 2024.

Fram kemur í erindinu að verkefnið Glymur í botni Hvalfjarðar, hafi hlotið styrk að upphæð 11.500.000 kr.

Styrkurinn er veittur til áframhaldandi stígagerðar við krefjandi aðstæður austan megin í gljúfrinu og lokun og tilfærslu á hættulegum köflum leiðarinnar.

Verkefnið er á áfangastaðaáætlun og fellur vel að áherslum sjóðsins um náttúruvernd, bætt öryggi og aðgengi.

Samningur um styrkveitinguna lagður fram en þar kemur fram að mótframlag sveitarfélagsins sé 20% af styrkfjárhæð.

Lokaskýrslu ásamt fylgigögnum skal skila framkvæmdasjóði ferðamannastaða þegar verkefni er að fullu lokið samkvæmt verklýsingu og eigi síðar en 20. apríl 2025.

Lagt fram til kynningar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnend vill f.h. sveitarfélagsins þakka fyrir veittan styrk.
Umhverfis- og skipulagsdeild falið að fylgja verkefninu eftir.

3.Kúludalsá - deiliskipulagsbreyting.

2401021

Erindi er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir Kúludalsá.

Erindið var áður á dagskrá USNL-nefndar þann 19.01.2024 og 26.02.2024.



Skipulagshöfundur f.h. landeiganda sendi sveitarfélaginu uppfærðan skipulagsuppdrátt þann 22.03.2024, (sbr. Kúludalsá-breyting á deiliskipulagi reitur E.pdf), þar sem farið er fram á að breyta deiliskipulagi úr frístundabyggð í einbýlishúsalóðir.

Á uppdrætti er deiliskipulagi breytt á þann veg að lóðum á svæðinu er breytt úr frístundabyggð í lóðir fyrir einbýlishús.



Þá sendi skipulagshöfundur f.h. landeiganda einnig þann 22.03.2024, skipulagsuppdrátt af sama svæði, (sbr. Kúludalsá-breyting á deiliskipulagi.pdf), þar sem óskað var eftir að sá uppdráttur yrði samþykktur eftir að búið væri að samþykkja fyrra deiliskipulag þar sem lóðum væri breytt í einbýlishúsalóðir. Skv. hinum síðari deiliskipulagsuppdrætti er nýr byggingarreitur gerður eða byggingarreitur stækkaður, fyrir hluta lóðanna, og er staðsetning bygginarreits nær þjóðvegi 1 sem nemur 15 m og verður fjarlægð byggingarreits frá þjóðvegi þá 85 m í stað 100 skv. gildandi skipulagi.



Óskar skipulagshöfundur f.h. landeiganda eftir afgreiðslu sveitarfélagsins á umræddum deiliskipulagsbreytingum.



Umrætt svæði er skv. aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 úrvals landbúnaðarland L1 með takmörkuðum byggingarheimildum. Að jafnaði er eingöngu heimilt að byggja til landbúnaðar eða í tengslum við rekstur búsins s.s. minni háttar rekstur með landbúnaði, til að auðvelda kynslóðaskipti eða byggingar til landbúnaðar. Heimilt er að byggja upp í tengslum við núverandi bæjartorfur eða í jaðri svæða.

Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar fyrir umrætt svæði í landi Kúludalsár, reitur E, frá árinu 1998. Þar kemur fram að sumarhúsalóðir svæðisins séu 5 talsins.

Ljóst er því að deiliskipulag svæðisins er á skjön við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins.

Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 er stefna sveitarstjórnar um þróun byggðar og landnotkunar í sveitarfélaginu og skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.



Fram hefur komið í fyrri afgreiðslum Umhverfis, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar að ekki sé hægt að gera breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar sem er á skjön við landnotkun aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sem er landbúnðarland F1. Gera þurfi því annað hvort breytingu á aðalskipulagi til samræmis við deiliskipulag eða breyta deiliskipulagi til samræmis við gildandi aðalskipulag, nema hvoru tveggja sé gert.



Ef breyta á svæðinu sem nú er skilgreint sem landbúnaðarland í aðalskipulagi og sumarhúsasvæði í deiliskipulagi, í íbúðarsvæði, er nærtækast að breyta aðalskipulagi í íbúðabyggð og breyta deiliskipulagi til samræmis við aðalskipulag.



Varðandi færslu byggingarreita nær þjóðvegi 1, hefur nefndin áður bent á að skv. grein 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 með áorðnum breytingum, segir um "Fjarlægð milli bygginga og vega", d-lið: "Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði. Óheimilt er að færa þjóðveg eða byggja nýjan veg utan þéttbýlis þannig að fjarlægð milli bygginga og vega verði minni en framangreind mörk segja til um án undangenginnar málsmeðferðar um deiliskipulag."

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd telur sér ekki unnt að heimila byggingar nær þjóðvegi 1 en 100 m á umræddu svæði með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum skipulagsreglugerðar. Þetta á við hvort sem svæðið verður sumarhúsasvæði eða íbúðarbyggð. Jafnframt telur nefndin sér ekki fært um að heimila breytingu deiliskipulags svæðisins í íbúðarbyggð, án undangenginnar breytingar á gildandi aðalskipulagi svæðisins.
Erindinu er hafnað.
Ómar Örn Kristófersson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

4.Sauðfjárbeit á landi Þórisstaða.

2404103

Erindi frá landeigendum Þórisstaða.

Með erindinu er sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar tilkynnt að beit sauðfjár og annars búfénaðar sé óheimil á landi Þórisstaða.

Með erindinu fylgdi ósk um að sveitarfélagið tilkynni þeim sauðfjárbændum sem sleppa fé á svæði sem liggja að landi Þórisstaða um þessa ákvörðun landeigenda eða sendi landeigendum lista yfir aðila sem hafa heimild til þess samkvæmt fjallskilasamþykkt.

Fram kom í erindinu að ástæða þessarar ákvörðunar væri sú nýlega staðfesting sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á höfnun USNL-nefndar á umsókn landeigenda Þórisstaða um framkvæmdaleyfi vegna örvirkjunar að Þórisstöðum.

Fram kom einnig að landeigendur áformi að hefja skógrækt á tilteknu svæði.



Að mati USNL-nefndar er það ekki hluti lögbundins hlutverks Hvalfjarðarsveitar samkvæmt lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 að hlutast til um það fyrir eigendur tiltekinna jarða að hafa samband við eigendur nærliggjandi jarða til að upplýsa um breytta afstöðu til sauðfjárbeitar. Ekki er kveðið sérstaklega á um hvaða aðilar hafa heimild til beitar í landi Þórisstaða í fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp.

5.Sauðfjárbeit á landi Þórisstaða 2.

2405028

Erindi dags. 23.05.2024 frá STJÁ, Starfsmannafélagi Íslenska járnblendifélagsins vegna sauðfjárbeitar á landi Þórisstaða 2.

Með erindinu er sveitastjórn Hvalfjarðarsveitar tilkynnt um að öll beit sauðfjár sé bönnuð í landi Þórisstaða 2.

Er þess óskað að sveitarfélagið tilkynni þeim sauðfjárbændum sem sleppa fé á svæði sem liggja að landi Þórisstaða 2 um þessa ákvörðun.

Í erindinu kemur fram að land félagsins sé afgirt en ágangur sauðfjár sé það mikill að girðingar haldi ekki fé frá landinu þrátt fyrir að viðhaldi girðinga sé sinnt árlega.

Fram kom í erindinu að leigendur á sumarhúsasvæðinu væru orðnir þreyttir á stöðu mála.
Að mati USNL-nefndar er það ekki hluti lögbundins hlutverks Hvalfjarðarsveitar samkvæmt lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 að hlutast til um það fyrir eigendur tiltekinna jarða að hafa samband við eigendur nærliggjandi jarða til að upplýsa um breytta afstöðu til sauðfjárbeitar.

6.Eystri-Leirárgarðaland - Nafnabreyting - Mið Leirárgarðar, L199966.

2311009

Erindi frá Magnúsi Inga Hannessyni, Eystri-Leirárgörðum. Með erindinu óskar Magnús eftir að breyta heiti á íbúðarlóðinni Eystra-Leirárgarðalandi, landeignanúmer 199966, í Mið-Leirárgarða. Skv. erindinu er þetta nafn með tilvísun til heitis á annarri Leirárgarðajörðinni áður en þær voru sameinaðar eftir 1918. Stærð lóðarinnar er 5.017 m2 og er hún í eigu þriggja aðila.

Erindið var áður á dagskrá 28. fundar USNL nefndar þann 15.11.2023.

Eftirfarandi var bókað:

"Samþykkt að óska eftir umsögn Örnefnanefndar á vegum stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, varðandi breytt heiti landspildu. Einnig að fá samþykki meðeigenda lóðarinnar. Afgreiðslu málsins frestað."

Í kjölfarið eða þann 16.11.2023 óskaði sveitarfélagið eftir umsögn Örnefnanefndar vegna nýs nafns íbúðarlóðar Eystri-Leirárgarðalands, sem átti að breytast í Mið-Leirárgarða.

Þann 14.05.2024 lá álit fyrir frá Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um nafnbreytinguna og gerir stofnunin fyrir sitt leyti ekki athugasemd við nafnabreytinguna.



Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir nafnabreytinguna.

7.Starfsleyfi svínabús Stjörnugríss hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit.

2405012

Erindi dags. 14.05.2024 frá Umhverfisstofnun þar sem kemur fram að stofnunin hafi auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir svínabú Stjörnugrís hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit.

Tillagan gerir ráð fyrir allt að 8.000 stæðum fyrir eldissvín, þ.e. alisvín frá 30 kg lífþyngd.

Fram kemur í gögnum að fyrirsjáanleg losun framleiðslunnar verði 16.397 tonn af seyru.

Einnig kemur fram varðandi upplýsingar um stöðu mats á umhverfisáhrifum eða matsskyldu fyrirspurnar, að frummat á umhverfisáhrifum hafi verið gert árið 2000. Dómur hafi svo fallið í málinu við Umhverfisráðherra og í kjölfarið hafi framkvæmdin ekki farið í umhverfismat.

Samkvæmt reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit hefur rekstraraðili tekið saman skýrslu um grunnástand svæðisins og fylgir hún með erindinu.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Ef áhugi er fyrir hendi að halda opinn kynningarfund um starfsleyfistillöguna, er bent á að hafa megi samband við Umhverfisstofnun með slíkt erindi sem fyrst.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun merkt UST202306-401.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 11. júní 2024.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við fyrirhugað starfsleyfi en telur að betur þurfi að gera grein fyrir þeim farvegi sem er fyrir úrgang/seyru frá starfseminni, auk farvegs vegna dýrahræja.

8.Örnefni í Hafnarfjalli.

2405013

Erindi frá Ferðafélagi Borgarfjarðarhéraðs.

Í erindinu kom fram að félagið hafi látið gera upplýsingaskilti sem sé á bílastæðinu við gönguleiðina á Hafnarfjall.

Við vinnslu kortsins uppgötvaðist að einn tindurinn í hinni vinsælu "sjö tinda hringgöngu" hafði ekki nafn.

Er í erindinu gerð tillaga um að láta hann heita Miðtind. Rökin eru þau að þegar gengið er upp Hafnarfjallsöxlina blasir hann við í miðjunni milli Gildalshnúks og Klausturtunguhóls.

Einnig fannst félaginu vanta "tind" í þessum sjö tinda klasa þ.e. Hafnarfjall - Gildalshnúkur - Miðtindur - Klausturtunguhóll - Katlaþúfa - Þverfell - Tungukollur.

Í erindinu er þess óskað að sveitarfélagið vinni málið áfram.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að óska eftir áliti Örnefnanefndar á vegum stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, varðandi tillögu að heiti. Einnig verði sambærileg ósk send landeigendum.

9.Deiliskipulag Túnfótar að Þórisstöðum.

2011011

Erindi dags. 02.05.2024 frá landeigendum Þórisstaða vegna deiliskipulags Túnfótar að Þórisstöðum.

Með erindinu er þess m.a. óskað að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfesti að misfarist hafi að hálfu sveitarfélagsins á sínum tíma, að auglýsa deiliskipulag Túnfótar að Þórisstöðum í B-deild stjórnartíðinda.

Einnig er þess óskað að sveitarfélagið sjái um og kosti endurgerð skipulags Túnfótar, auglýsingu á því og birtingu í B-deild stjórnartíðinda og að sú vinna hefjist sem fyrst.



Skv. skoðun sveitarfélagsins á erindinu við undirbúnings málsins er forsaga þess á þá leið að með bréfi Magnúsar H. Ólafssonar, arkitekts, dags. 14. september 2001, var fyrir hönd þáverandi eignenda Þórisstaða óskað eftir að deiliskipulag vegna frístundahúsalóða á Kúhallareyri í landi Þórisstaða yrði tekið til afgreiðslu. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar óskaði eftir því að Skipulagsstofnun myndi kanna hvort umrætt deiliskipulag væri í samræmi við samþykkt svæðisskipulag sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar 1992-2012. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 27. september 2001, kemur fram að stofnunin telji að deiliskipulagstillagan samræmist ekki samþykktu svæðisskipulagi. Þrátt fyrir þetta hóf þáverandi eigandi Þórisstaða að reisa byggingar á jörðinni sem ekki höfðu hlotið samþykki skipulags- og byggingarnefndar og voru í andstöðu við skiplag. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi því bréf, dags. 2. júní 2003, til þáverandi eiganda jarðarinnar þar sem á framangreint var bent og veittur kostur á að veita skýringar. Í svarbréfi, dags. 16. júní 2003, var viðurkennt af þáverandi landeigendum að ekki hafi verið rétt staðið að málum og að þeirra mati var tvennt í stöðunni, að rífa húsin eða að ganga frá skipulagi.



Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 25. júní 2008 var samþykkt að auglýsa deiliskipulag Túnfótar í landi Þórisstaða skv. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var það gert í kjölfarið með auglýsingum í Lögbirtingablaðinu, Morgunblaðinu og Skessuhorni. Engar athugasemdir bárust. Með vísan til 3. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga var deiliskipulag fyrir fyrir frístundabyggð í Túnfæti í landi Þórisstaða sent Skipulagsstofnun til yfirferðar. Að mati Skipulagsstofnunar var deiliskipulagið ekki í samræmi við stefnumörkun þágildandi aðalskipulags þar sem gert var ráð fyrir fleiri en þremur húsum á hektara. Þá voru skilmálar varðandi girðingar og skjólveggi í deiliskipulaginu taldar í ósamræmi við stefnumörkun aðalskipulagsins. Um framangreint var upplýst í bréfi Skipulagsstofnunar til byggingarfulltrúa, dags. 8. desember 2008. Vegna þessa var deiliskipulagið ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 4. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og tók ekki gildi.



Þáverandi eigendur lögðu enn á ný fram deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Túnfæti í landi Þórisstaða og var það auglýst samkvæmt 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og samþykkt í sveitarstjórn þann 17. ágúst 2010. Í kjölfarið var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 3. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga. Í svari Skipulagsstofnunar, dags. 10. september 2010, kemur fram að frístundahúsalóðir á þessu svæði séu ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Þá sé framsetning gagna ófullnægjandi m.a. þar sem vísað var til svæðisskipulags og aðalskipulags sem ekki voru lengur í gildi. Vegna þessa var deiliskipulagið ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 4. mgr. 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og tók ekki gildi.



Í kjölfarið fór af stað vinna við breytingu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar þar sem lögð var til breyting á skilgreiningu á opnu svæði til sérstakra nota á Þórisstöðum. Var það gert vegna þeirra atriða sem komu í ljós við afgreiðslu á deiliskipulagi Túnfótar í landi Þórisstaða. Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi sínu, dags. 30. mars 2011, að ekki væri gerð athugasemd við að tillagan yrði auglýst samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var það gert með auglýsingu í Lögbirtingablaði 18. maí 2011. Engar athugasemdir bárust og tók aðalskipulagið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 8. september 2011.

Á fundinum var farið yfir erindi landeiganda á Þórisstöðum og voru umræður um málið.
Af framangreindu er ljóst að deiliskipulagstillögur fyrri eigenda Þórisstaða vegna Túnfótar hafa allar verið í ósamræmi við gildandi aðalskipulag og því ekki verið auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda. Frestur til athugasemda vegna síðustu deiliskipulagstillögu vegna Túnfótar rann út 16. júlí 2010. Af 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 leiðir að deiliskipulagið taldist ógilt frá og með 16. júlí 2011 þar sem það hafði ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, en þá hafði áðurgreind breyting á aðalskipulagi ekki tekið gildi. Önnur deiliskipulagstillaga fyrir frístundabyggð í Túnfæti í landi Þórisstaða hefur ekki borist.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ekki fallist á kröfu eigenda Þórisstaða um að sveitarfélagið sjái um og kosti endurgerð skipulags Túnfótar í landi Þórisstaða og er erindinu því hafnað.

10.Galtarlækur - breyting á landnotkun í aðalskipulagi.

2405015

Erindi frá Gunnari Þór Gunnarssyni, Fellsenda f.h. At Iceland ehf eiganda jarðarinnar Galtarlækjar, landeignanúmer 133627.

Í aðdraganda samþykktar nýs Aðalskipulags Hvalfjarðarssveitar 2020-2032 var sent erindi til Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar, þann 22. mars 2021, um að breyta landnotkun neðan þjóðvegar fyrir jörðina Galtarlæk og þess óskað að landnotkun yrði breytt úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði. Var erindið á sínum tíma ekki samþykkt en heimilað í aðalskipulaginu að byggja allt að 5000 m² iðnaðarhús á jörðinni en landnotkun jarðarinnar haldið óbreyttu sem landbúnaðarlandi.

Með erindinu nú er þessi ósk endurtekin um að landnotkun Galtarlækjar neðan þjóðvegar verði skilgreind sem athafnarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Undanskilið verður um 250 - 300 metra svæði neðan þjóðvegar og um 100 metra svæði við jarðarmörk Galtarvíkur og Glóru.

Meðfylgjandi er samantekt á forsendum fyrir þessari ósk á breytingu á landnotkun í aðalskipulaginu, hugmyndafræði um notkun, ásýnd og ýmsum fleiri upplýsingum.
Á fundinum var farið yfir erindi landeiganda Galtarlækjar og voru umræður um málið.
Nefndin leggur til að USNL-nefnd og sveitarstjórn fari sameiginlega yfir málið.
Afgreiðslu málsins frestað.

11.Virkjun í landi Þórisstaða.

2310021

Erindi dags. 22.05.2024 frá landeigendum á Þórisstöðum.

Í erindinu felst áskorun til USNL-nefndar um að endurskoða höfnun á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna örvirkjunar að Þórisstöðum.

Er skorað á USNL-nefnd að skoða hvort höfnun á framkvæmdaleyfi fyrir örvirkjun að Þórisstöðum hafi byggt á réttum upplýsingum, meðalhófi og jafnræði við afgreiðslu mála af sambærilegum toga hjá sveitarfélaginu.

Er jafnframt skorað á USNL-nefnd að endurskoða afstöðu sína til umsóknar landeigenda Þórisstaða og leita álits Skipulagsstofnunar á því hvort gera þurfi deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar, ella rökstyðja kröfu um gerð deiliskipulags á annan hátt en með tilvísun í minnisblað lögmanns sveitarfélagsins.

Í erindinu er jafnframt óskað eftir svörum, skýringum og gögnum við 6 tölusettum liðum.





Á fundinum var farið yfir erindi landeiganda á Þórisstöðum og voru umræður um málið.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fela deildarstjóra umhverfis- og skipulagsdeildar að vinna áfram að málinu.
Afgreiðslu málsins frestað.

12.Móar - deiliskipulagsbreyting.

2405024

Erindi dags. 23.05.2024 frá Eflu Verkfræðistofu f.h. landeiganda Móa, landeignanúmer 207358.

Óskað er eftir óverulegri breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir Móa.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir ekki deiliskipulagsbreytinguna óbreytta en getur fallist á breytinguna með eftirfarandi lagfæringum á uppdrætti og greinargerð.
1) Að deiliskipulagsmörk svæðisins verði færð innfyrir veg nr. 5052, þannig að vegurinn verði utan skipulagsmarka.
2) Gert verði heildarskipulag og eldra deiliskipulag fellt út gildi. Með hliðsjón af þeirri breytingu verði skoðað hvort um óverulega breytingu verði að ræða (2. mgr. 43 greinar skipulagslaga nr. 123/2010) eða hvort um verði að ræða verulega breytingu (sbr. 1. mgr. 43 greinar).
3) Að stærðarupplýsingar vegna kaldrar vélageymslu (bragga) verði uppfærðar til samræmis við raunstærð húss.
4) Að staðsetning lóða og byggingarreita verði hnitsett.
5) Farið verði yfir fjarlægðir bygginga frá þjóðvegi sbr. reglur þar um. Í því sambandi vill nefndin benda á að skv. grein 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 með áorðnum breytingum, segir um "Fjarlægð milli bygginga og vega", d-lið: "Utan þéttbýlis skal ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m og ekki nær öðrum þjóðvegum eða almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Aðrar byggingar skal ekki staðsetja nær stofn- og tengivegum og öðrum þjóðvegum og almennum vegum en 50 m eins og þeir eru skilgreindir í aðalskipulagi. Heimilt er að víkja frá þessum ákvæðum þegar um er að ræða verslunar- og þjónustubyggingar en gæta skal ákvæða vegalaga um veghelgunarsvæði. Óheimilt er að færa þjóðveg eða byggja nýjan veg utan þéttbýlis þannig að fjarlægð milli bygginga og vega verði minni en framangreind mörk segja til um án undangenginnar málsmeðferðar um deiliskipulag."

Erindinu hafnað en USNL-nefnd er reiðubúin að fjalla um erindið að nýju þegar lagfæringar hafa verið gerðar á skipulagsgögnum.

13.Litla-Botnsland 1, L224375- Lýsing vegna aðalskipulagsbreytingar.

2311012

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 395. fundi sínum þann 27.03.2024 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir Litla-Botnsland, landeignanúmer 224375.

Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Lýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Skipulagslýsing fyrir Botn í Hvalfirði þar sem fyrirhugað er að byggja upp hótel og ferðamannaþjónustu. Stofnað verður nýtt svæði verslunar og þjónustu þar sem nú er skilgreint frístundarsvæði. Svæðin sem breytingin nær til er úr landi Litla-Botnslandi 1 (L224375), sem er um 12,1 ha að stærð. Innan svæðis verður m.a. gert ráð fyrir gistingu fyrir allt að 198 manns í hóteli og minni gestahúsum ásamt veitingarekstri, náttúruböðum, útivist og annarri ferðatengdri þjónustu. Ekki er þörf á matstilkynningu til Skipulagsstofnunar, í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, þar sem stærðarviðmið verða vel undir viðmiðunarmörkum greinar 12.04 í viðauka 1.



Niðurstaða:

"Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.



Skipulagslýsingin hefur nú verið auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún til sýnis á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar frá 3. til og með 17. maí 2024.



Lagðar fram umsagnir og athugasemdir sem bárust vegna auglýstrar skipulagslýsingar en alls bárust 15 athugasemdir/ábendingar vegna lýsingarinnar.
Lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem bárust á kynningartíma og voru umræður um þær.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hefur farið yfir framkomnar athugasemdir/ábendingar og munu þær verða hafðar til skoðunar við mótun frekari skipulagstillagna og mun verða gerð betur grein fyrir mörgum þessara þátta í aðalskipulagsbreytingu og/eða deiliskipulagi. Bent er á að hagsmunaaðilar munu hafa formlega aðkomu að málinu síðar í skipulagsferlinu.

14.Leirá - skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi.

2402024

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 395. fundi sínum þann 27.03.2024 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir svæði úr landi Leirár, landeignanúmer 133774.

Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Lýsing vegna breytingar á aðalskipulagi. Svæðið sem breytingin nær til er úr landi Leirár (L133774) og er um 123,7 ha að stærð. Áætlað er að 38,8 ha svæði verði skilgreint sem skógræktar- og landgræðslusvæði. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði F2 og frístundabyggðarsvæði F36 í gildandi aðalskipulagi. Áætlun fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 þar sem í Viðauka 1, lið 1.01, kemur fram um „framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til 20 ha svæðis eða stærra“ skuli senda matsfyrirspurn til Skipulagsstofnunar. Send verður fyrirspurn til Skipulagsstofnunar í samræmi við lögin.



Niðurstaða:

"Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa lýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi í samræmi við 1. mgr. 30. greinar skipulagslaga nr. 123/2010." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.





Skipulagslýsingin hefur nú verið auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún til sýnis á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar frá 3. til og með 17. maí 2024.



Lagðar fram umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýstum tíma skipulagslýsingar.



Minjastofnun Íslands sendi umsögn dags. 28.05.2024 og gerir ekki athugasemd við tillöguna en vísar til ákvæða 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir m.a. að skáning fornleifa, húsa og mannvirkja skuli fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi.



Heilbrigðiseftirlit Vesturlands sendi umsögn dags. 31.05.2024 og gerir ekki athugasemd við tillöguna.



Umhverfisstofnun sendi umsögn dags. 31.05.2024 og þar kemur fram að skógrækt stærri en 200 ha falli undir B-flokk laga nr. 111/2021. Framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum flokks B (undir 200 ha) skulu ávallt tilkynntar séu þær staðsettar á verndarsvæðum. sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka. Vistgerðir sem eru verndaðar samkvæmt Bernarsamningnum flokkast sem svæði sem falla undir 61. gr. náttúruverndarlaga og eru því verndarsvæði skv. a. lið iii. liðar 2. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Umhverfisstofnun bendir framkvæmdaaðila á að hafa samband við Skipulagsstofnun til að fá úr því skorið hvort tillagan falli undir ofangreindan lið.



Lagðar fram umsagnir sem bárust á kynningartíma og beinir sveitarfélagið því til skipulagshöfunda að kanna hjá Skipulagsstofnun varðandi þau atriði sem Umhverfisstofnun bendir á í umsögn sinni.

15.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Stóri-Lambhagi 6

2403011

Erindi frá byggingarfulltrúa.

Stóri-Lambhagi 6, landeignanúmer 236598.

Sótt er um leyfi fyrir einbýlishúsi á einni hæð, byggt úr forsteyptum einingum.

Burðarvirki þaks er timbur og þak með mæni.

Stærð íbúðar er 172,8 m2, bílgeymslu 48,1 m2, alls 220,9 m2.

Ekkert deiliskipulag er í gildi.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að genndarkynna erindið skv. 1. mgr. 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Grenndarkynnt verði meðal 4 aðliggjandi lóðarhafa auk landeiganda þ.e.a.s. hjá eigendum Stóra-Lambhaga 5, landeignanúmer 133636, Stóra-Lambhaga 2, Hlaðbúð, landeignanúmer 133631, Litla-Mel, landeignanúmer 133643, auk landeiganda Stóra-Lambhaga 2 (11), landeignanúmer 219271 (Stóra-Lambhaga 4, landeignanúmer 133659).

16.Fögruvellir 1 og 3. Tillaga að breyttu deiliskipulagi

2303028

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 384. fundi sínum að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Fögruvelli 1 og 3 í Krosslandi.

Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Erindi frá Vali Sigurðssyni hjá Valhönnun f.h. Fasteflis ehf, dags. 8. júní 2023 þar sem lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Krosslands, 1. áfanga, fyrir lóðirnar Fögruvelli 1-3, en breytingin varðar aðallega lóðina Fögruvelli 1. Í breytingunni felst að fjölga íbúðum á heildar reitnum úr 60 í 66 og að skyggni/skjólþök megi fara allt að 1 meter út fyrir byggingarreit. Búið er að auka magn bílastæða á lóðunum. Á lóðinni Fögruvöllum 1 verður skv. breytingunni heimilt að byggja 30 íbúðir, á Fögruvöllum 2 verður heimilt að byggja 14 íbúðir og á Fögruvöllum 3 verður heimilt að byggja 22 íbúðir, samtals 66 íbúðir. Skv. gildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir að á heildarreitnum væri heimilt að byggja 60 íbúðir, í stað 66 skv. þessari breytingartillögu. Nýtinarhlutfall lóðar verður óbreytt 0,76.



Niðurstaða:

"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkir að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.



Deiliskipulagstillagan hefur nú verið auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún til sýnis á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar frá 19. apríl til og með 31. maí 2024.



Lagðar fram 3 umsagnir og ábendingar sem bárust á auglýstum tíma deiliskipulagstillögunnar.



Umsögn barst þann 07.05.2024 frá Veitum ohf og eru ekki gerðar athugasemdir við tillöguna en gerðar ábendingar um reglur sem gilda um tæknilega tengiskilmála veitulagna.

Skipulagsstofnun segir í svari sínu þann 19.04.2024 að ekki sé tilefni fyrir stofnunina til að gefa almenna umsögn um tillöguna á þessu stigi málsins þar sem það sé ekki lögbundið hlutverk Skipulagsstofnunar að gefa umsögn um tillögur að deiliskipulagi á kynningartíma.

Umsögn Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar barst 29.05.2024 og er ekki gerð athugasemd við breytingartillöguna.
Deiliskipulagið hefur verið auglýst samkvæmt 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið fyrir sitt leyti og að gildistaka þess verði send til staðfestingar í B-deild Stjórnartíðinda.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

17.Flæðigryfjur Grundartanga-deiliskipulagsbreyting.

2309052

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á 385. fundi sínum að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Flæðigryfjur á Grundartanga.

Eftirfarandi var bókað:



Inngangur:

Erindi frá Faxaflóahöfnum sf. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar á flæðigryfjum á Grundartanga. Á vestursvæði Grundartanga er gert ráð fyrir athafna-, hafnar- og iðnaðarsvæðum skv. Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032. Í gildi er deiliskipulag iðnaðar- og hafnarsvæðis á Grundartanga, vestursvæði, sem upphaflega var samþykkt 13. nóvember 2007. Í aðal- og deiliskipulagi er gert ráð fyrir landfyllingum til suðvesturs frá núverandi hafnarmannvirkjum og lengingu hafnarbakkans. Á fyllingunni verður athafnasvæði hafnar- og hafnarbakkasvæði. Með síðari breytingum á deiliskipulaginu fram til 2021 var gert ráð fyrir flæðigryfjum og stækkun þeirra innan fyrirhugaðra landfyllinga Grundartangahafnar. Hvorki verður gerð breyting á umfangi landfyllinga né landnotkun innan hafnarsvæðisins. Breyting á deiliskipulagi felst í afmörkun flæðigryfju fyrir úrgang frá nálægum iðjuverum innan fyrirhugaðrar landfyllingar á hafnarbakkasvæði Grundartangahafnar. Skilmálar fyrir flæðigryfju eru skýrðir/endurskoðaðir. Samkvæmt starfsleyfum Norðuráls Grundartanga ehf. og Elkem Ísland ehf. er fyrirtækjunum heimilt að losa efni og afurðir sem ekki fara í sölu, endurvinnslu eða endurnýtingu í flæðigryfjur. Stærstur hluti framleiðsluúrgangs Norðuráls Grundartanga eru kerbrot en mestur hluti framleiðsluúrgangs Elkem Ísland er fínefni af hráefnum. Framkvæmdin, þ.e. efnislosun í flæðigryfjur, er í flokki A í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og ber því að meta umhverfisáhrif hennar. Fyrir liggur umhverfismatsskýrsla, sem unnin er af verkfræðistofunni Mannvit í janúar 2023, þar sem gerð er grein fyrir áhrifum efnislosunar í flæðigryfju á skipulagssvæðinu á umhverfið. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir staðháttum, tengslum við aðrar áætlanir og tilhögun framkvæmda. Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 (álit Skipulagsstofnunar dags. 17. ágúst 2023). Breyting á deiliskipulagi felst í því að afmarkað er sérstakt 4,2 ha efnislosunarsvæði sem nýtt verður sem flæðigryfja til viðbótar við eldri flæðigryfjur sem enn eru í notkun. Svæðið er innan stærra efnislosunarsvæðis/landfyllingar á hafnarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir hafnarbökkum og athafnasvæðum hafnar í gildandi deiliskipulagi. Árlega er gert ráð fyrir um 13.000 - 19.000 tonnum úrgangsefna frá nálægum iðjuverum til urðunar í flæðigryfjum. Gert er ráð fyrir að ný flæðigryfja endist í a.m.k. 13 ár að því gefnu að Faxaflóahafnir þurfi ekki að fylla svæðið hraðar vegna eftirspurnar eftir auknu hafnarplássi. Í nýrri flæðigryfju skv. breytingu þessari er miðað við að urða megi u.þ.b. 293.500 m³. Talsvert grjót þarf í grjótgarð utan um flæðigryfjuna vegna dýpis. Á móti kemur að unnt verður að nýta grjót úr þeim hluta af núverandi garði sem kemur til með að verða innan fyrirhugaðrar flæðigryfju. Áætluð efnisþörf er: Kjarni: 120.000 m3, grjót: 21.000 m3. Breytingin er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar. Skipulagssvæðið er skilgreint sem hafnarsvæði (H1) í aðalskipulagi með eftirfarandi skipulagsákvæðum: Höfn sem þjónustar járnblendiverksmiðju, álverksmiðju og aðra starfsemi á Grundartanga. Einnig er gert ráð fyrir almennri flutningastarfsemi og annarri hafnsækinni þjónustu. Núverandi hafnarbakkar eru alls 849 metrar og er mögulegt að lengja þá um allt að 700 metra. Á svæðinu er heimilt að vera með athafnastarfsemi. Heimilt að afmarka flæðigryfjur, fyrir úrgang, sem heimilt er að urða í samræmi við starfsleyfi, leyfilegt er að nýta flæðigryfjusvæðið sem hætt er að nota og búið er að ganga frá, sem baksvæði hafnarbakka undir gáma og annað en föst mannvirki. Staðsetning og ákvæði um flæðigryfjur skal sett fram í deiliskipulagi. Uppfylling gryfja kann að nýtast síðar til uppbyggingar hafnargarða og plana. Aðstaðan annar eftirspurn í dag og eru möguleikar til framþróunar taldir góðir. Breytingin kallar ekki á breytt mörk, landnotkun eða nýtingu í deiliskipulagi. Engin friðlýst eða vernduð svæði eru á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Framkvæmdasvæðið er utan marka mikilvægs fuglasvæðis (IBA skrá) sem nær yfir stóran hluta af Hvalfirði (sjá mynd 3.3 í umhverfismatsskýrslu Mannvits). Norðan við framkvæmdasvæðið eru fornminjar á jörðinni Klafastöðum (sjá á minjavefsjá Minjastofnunar Íslands). Þessi framkvæmd/breyting hefur engin áhrif á minjastaði.



Niðurstaða:

"Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfestir afgreiðslu Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar og samþykkir deiliskipulagið með áorðnum breytingum sem skipulagsfulltrúa er falið að koma á framfæri við landeigendur/skipulagshöfund. Ekki er þörf á lýsingu þar sem um er að ræða breytingu á gildandi deiliskipulagi sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, auk þess sem meginforsendur vegna nýs deiliskipulags liggja fyrir í aðalskipulagi sveitarfélagsins sbr. 2. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. greinar og 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010."

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.



Deiliskipulagsbreytingin hefur nú verið auglýst skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún til sýnis á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar frá 19. apríl til og með 31. maí 2024.



Lagðar fram 6 umsagnir og ábendingar sem bárust á auglýstum tíma deiliskipulagstillögunnar.



Skipulagsstofnun segir í svari sínu þann 19.04.2024 að ekki sé tilefni fyrir stofnunina til að gefa almenna umsögn um tillöguna á þessu stigi málsins þar sem það sé ekki lögbundið hlutverk Skipulagsstofnunar að gefa umsögn um tillögur að deiliskipulagi á kynningartíma.



Umsögn barst þann 28.05.2024 frá Minjastofnun Íslands og eru ekki gerðar athugasemdir við tillöguna en stofnunin vekur athygli á ákvæðum laga um menningarminjar nr. 80/2012.



Umsögn barst þann 30.05.2024 frá Hafrannsóknarstofnun. Í bréfi stofnunarinnar kemur fram að þó svo að umhverfisáhrif af fyrri gryfjum hafi ekki verið neikvæð m.t.t. mengunar skv. gögnum málsins, sé ekki víst að svo verði í framtíðinni með fleiri flæðigryfjum. Vöktun verður uppfærð og bendir stofnunin á mikilvægi hennar í samhengi við starfssvið sitt. Þá bendir stofnunin á að ástand vatnshlotanna í Hvalfirði megi ekki hnigna vegna starfseminnar eða vegna aukinna umsvifa.



Umsögn barst þann 31.05.2024 frá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun bendir á að stofnunin veitti umsögn dags. 27. mars 2023 varðandi erindi Skipulagsstofnunar þar sem óskað var umsagnar stofnunarinar um umhverfismatsskýrslu vegna áforma við gerð og rekstur nýrrar flæðigryfju á vestursvæði við Grundartanga og er flæðigryfjunni ætlað að taka við framleiðsluúrgangi frá fyrirtækjunum Elkem og Norðuráli.

Í samantekt umsagnar Umhverfisstofnunar varðandi umhverfismatsskýrslu segir: Stefnur stjórnvalda og Umhverfisstofnunar fela í sér eflingu hringrásarhagkerfis og telur stofnunin umfjöllun skýrslunnar ábótavant m.t.t. þess. Fjalla þarf betur um þá úrgangsstrauma sem falli til og möguleikana sem eru til staðar fyrir hvern þeirra, annan en förgun á þennan hátt. Stofnunin telur vanta talsvert upp umfjöllun um valkosti í umhverfismatsskýrslunni. Bendir stofnunin á að verði núllkosturinn ofan á, þ.e. að ekki verði útbúnar frekari flæðigryfjur, er framkvæmdaraðilum ekki heimilt að safna upp úrgangi á lóðum sínum eins og kemur fram í umfjöllun þeirra að yrði gert. Ekkert mat fór fram í skýrslunni á áhrifum á umhverfishætti af öðrum valkostum en óbreyttu fyrirkomulagi við urðun, eins og t.d. takmakmarkanir á hvaða efnisstraumar færu í gryfjuna með aukinni endurvinnslu og endurnýtingu annarra strauma. Þeir efnaferlar sem lýst er í matsskýrslunni til að gera jónir sem skolist úr úrgangi í flæðigryfjum óskaðlegar snúa aðefnahvörfum sýaníðs í óskaðlegri efnasambönd og útfellingu flúoríð, selenat og selenít jóna með yfirmagni kalsíum og magnesíum jóna í sjó og frá viðbættum skeljasandi og því megi gera ráð fyrir því að efnin safnist í umhverfinu yfir tíma. Vatnaáætlun Íslands var samþykkt á árinu 2022 og gerð verður krafa um uppfærslu vöktunar vegna starfsleyfa framkvæmdaraðila m.t.t. vöktunar á gæðaþáttum stjórnar vatnamála ásamt vöktun forgangsefna í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Umhverfisstofnun hefur áður bent á að flæðigryfjur til förgunar spilliefna geti varla talist langtímalausn. Stofnunin telur því eðlilegt að sett verði fram tímasett áætlun um aflagningu förgunar í flæðigryfjur með þessum hætti. Að mati framkvæmdaraðila er niðurstaða umhverfismatsins að framkvæmdin hafi nokkuð neikvæð áhrif á fugla og fjöruvistgerðir. Umhverfisstofnun telur hins vegar, með vísan í óafturkræf áhrif á svartbaksvarp, verndargildi fjörunnar og vistgerðir á lista Bernarsamningsins, að áhrifin verið talsvert neikvæð.Til viðbótar hafa fyrirtækin Elkem og Norðurál unnið áhrifamat vegna stækkunar flæðigryfja á vatnshlotið Hvalfjörður (104-1330-C) sem Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemdir við.



Umsögn barst þann 31.05.2024 frá Náttúrufræðistofnun Íslands og gerir hún eftirfarandi ábendingar:

Þó svæðið sem breytingarnar ná til sé ekki innan neinna verndarsvæða þá er það í næsta nágrenni við svæðið: „Hvalfjörður“ sem Náttúrufræðistofnun hefur tilnefnt á B-hluta náttúruminjaskrár vegna vistgerða, fugla og sela. Þá er það einnig nálægt þremur svæðum á C-hluta náttúruminjarskrár, þ.e. „Laxárvogi og Laxá í Kjós“, „Ósmel og Hvalfjarðareyri“ og „Hvalfjarðarströnd“.

Náttúrufræðistofnun hefur veitt umsagnir um málið á fyrri stigum og ítrekar hér að mikilvægt er að vel sé staðið að umhverfisvöktun og að æskilegt er að tíðni vöktunar á lífríki sjávar verði aukin aftur tímabundið þegar nýjar gryfjur verða teknar í notkun. Rétt er að kræklingavöktun fari fram á 1- 2 ára fresti til að byrja með en ekki á 5 ára fresti eins og nú er.



Umsögn barst 03.06.2024 frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Eftirfarandi kom m.a. fram í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands:



"Til að tryggja rétta virkni flæðigryfju þarf sjór að leika um þau efni sem þar eru, auk þess að bætt er við hlutleysingarefnum. Ef flæðigryfja er þurrkuð upp eins og þegar sett eru í hana fylliefni og notagildi breytt má áætla að þessi hlutleysing spilliefna hætti og lekt í sjó minnki. Svæðið verði á sama tíma gamall urðunarstaður fyrir spilliefni og af slíkum stað gæti orðið mengun í náinni framtíð og því nauðsynlegt að áframhaldandi vöktun fari fram. Ef vöktun sýnir enga mengun þá liggur eftir sem áður fyrir að þarna er búið að jarða mengandi efni og því þarf að skoða sérstaklega lögmæti framkvæmdarinnar hvort hún samræmist reglugerð um meðhöndlun spilliefna og löggjöf um meðhöndlun úrgangs. Heilbrigðiseftirlitið telur að Umhverfisstofnun þurfi að úrskurða sérstaklega um heimild til að þurrka upp flæðigryfju. Ef heimild fæst til að fylla upp í flæðigryfju þarf sérstaklega að kanna hvaða þætti þarf að vakta og hvort ekki sé rétt að merkja svæðið í skipulagi sem gamlan urðunarstað fyrir spilliefni. Eins að tilkynna svæðið inn í kortagrunn Umhverfistofnunar fyrir mengaðan jarðveg/spilliefni Í umsögn um matsáætlun var óskað eftir að fjallað yrði betur um í umhverfismatskýrslunni hvað flæðigryfja þarf að vera starfandi lengi til þess að efni innan hennar hætti að teljast spilliefni en ekki er að sjá að það hafi verið gert. Flæðigryfjunni er ætlað að endast í 13 ár, að því gefnu að Faxaflóahafnir þurfi ekki að fylla svæðið hraðar vegna eftirspurnar eftir auknu hafnarplássi. Það hljómar sérkennilega að landeigandinn Faxaflóahafnir geti stjórnað líftíma flæðigryfju, heilbrigðiseftirlitið telur að sérstaklega þurfi að fjalla um þetta atriði í starfsleyfi iðjuveranna. Tryggja þar að flæðigryfjur séu starfandi eins lengi og þær þurfa til að ná tilsettum árangri í hlutleysingu efna sem í hana eru sett.

Það ætti að gera ráð fyrir mótvægisaðgerðum til að bæta fyrir náttúrulegt búsvæði sem er fjarlægt. Námuvinnsla vegna efnistöku er starfsleyfisskyld skv. reglugerð 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, það mætti koma betur fram.

Lokaorð: Hvaða áhrif það hefur í raun og veru að sjóbleyta úrgang iðjuveranna í flæðigryfju í nokkur ár. Sannanlega hefur það gildi meðan sjávarins nýtur við, en að fáum árum liðnum er svæðið þurrkað upp. Hvað verður um mengandi efni í gryfjunni eftir þann tíma? Er í lagi að urða spilliefni á svæðinu svo lengi sem engin neikvæð áhrif mælast í sjó."



Deiliskipulagið hefur verið auglýst samkvæmt 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Hafrannsóknarstofnunar og Náttúrufræðistofnunar um að mikilvægt sé að vakta svæðið vel og fylgjast að öðru leyti vel með ástandi vatnshlotanna í Hvalfirði.
Jafnframt tekur nefndin undir sjónarmið Umhverfisstofnunar um að flæðigryfjur til förgunar spilliefna geti varla talist langtímalausn og tekur jafnframt undir þau sjónarmið að sett verði fram tímasett áætlun um aflagningu förgunar í flæðigryfjur með þessum hætti.
Loks samþykkir nefndin að ábendingum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands verði komið á framfæri við Umhverfisstofnun.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið fyrir sitt leyti og að gildistaka þess verði send til staðfestingar í B-deild Stjórnartíðinda.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

18.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71

2404006F

  • 18.1 2312024 Neðstakinn 3 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr.160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum
    skilyrðym sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
    og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 18.2 2403042 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Heynes 133688 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr.160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum
    skilyrðym sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
    og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 18.3 2207023 Íþróttahús Heiðarborg - Byggingarleyfi
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr.160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum
    skilyrðym sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
    og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 18.4 2402030 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Ferstikluland 133418 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Erindi vísað til USNL nefndar vegna skipulags.
  • 18.5 2402048 Móar 207358 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr.160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012 með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt. Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum
    skilyrðym sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum
    og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 18.6 2404095 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hafnarl. Mótel Venus 174559 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 71 Húsin uppfylla ekki skylyrði deiliskipulags, eru stærri en deiliskipulag leyfir.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72

2405001F

  • 19.1 2310057 Hrísabrekka 19 - Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 19.2 2404071 Lyngmelur 12 - lóðaumsókn.
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Endanlegri afgreiðslu er vísað til sveitastjórnar.
  • 19.3 2404070 Lyngmelur 10 - lóðaumsókn.
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitastjórnar.


  • 19.4 2404093 Lyngmelur 5 - lóðaumsókn.
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Endanlegri afgreiðslu er vísað til sveitastjórnar.
  • 19.5 2404094 Lyngmelur 9 - lóðaumsókn.
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Endanlegri afgreiðslu er vísað til sveitastjórnar.
  • 19.6 2310029 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Birkihlíð 6 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 19.7 2211004 Ásvellir 4 - byggingarleyfi f. einbýlishús
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 19.8 2403026 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Réttarhagi 2 - Flokkur 2,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 72 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, með síðari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild verður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.

20.Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 73

2405005F

  • 20.1 2403011 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Stóri-Lambhagi 6 - Flokkur 2,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 73 Málinu er vísað til USNL nefndar vegna skipulags.
  • 20.2 2404066 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Efra-Skarð 133164 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 73 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012, með síari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild vrður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í
    byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum
    skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 20.3 2402056 Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Hátröð 11 - Flokkur 1,
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 73 Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð
    nr. 112/2012, með síari breytingum og samræmist skipulagsáætlunum.
    Byggingaráform samþykkt.
    Byggingarheimild vrður gefin út að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.3.8 í
    byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að uppfylltum
    skilyrðum/athugasemdum byggingarfulltrúa.
  • 20.4 2405001 Vatnaskógur, Lindarrj 133498 - tilkynning um framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi
    Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 73 Erindi visað til USNL nefndar vegna skipulags.

Fundi slitið - kl. 18:15.

Efni síðunnar