Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

36. fundur 06. maí 2024 kl. 15:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Þorsteinn Már Ólafsson ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Helga Harðardóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Önnur mál í USNL nefnd

1504031

Í fundargerð 35. fundar USNL-nefndar þann 17. apríl 2024, láðist fundarritara að geta þess í fundargerð að formaður nefndarinnar hefði vikið af fundi í máli nr. 14.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fela starfsfólki Umhverfis- og skipulagsdeildar að leiðrétta fundargerð 35. fundar nefndarinnar á þann veg að fram komi að formaður nefndarinnar hafi vikið af fundi við afgreiðslu 14. máls fundarins, til samræmis við framkvæmd fundarins.

2.Sorphirða - útboð

2401057

Farið yfir stöðu mála með GB Stjórnsýsluráðgjöf slf, vegna fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu í Hvalfjarðarsveit.
Farið yfir minnispunkta sem fram komu í yfirferð GB Stjórnsýsluráðgjafar slf.
Fram kom að vinnu við útboðsgögn vegna fyrirhugaðs útboðs miðar vel af hálfu undirbúningshóps.

3.Umsögn vegna erindi Landsnets um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

2404092

Erindi frá Innviðaráðuneyti þar sem óskað er umsagnar um beiðni Landsnets um skipun raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

Óskað er eftir að svar berist í síðasta lagi í viku 19.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd tekur jákvætt í að skipuð verði raflínunefnd vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðrasveitar.

4.Umsögn um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku), 900. mál.

2404086

Erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku), 900. mál

Umsögn óskast svarað í gegnum umsagnargátt Alþingis en óskað er eftir að svar berist í síðasta lagi í viku 19.

Lagt fram.

5.Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, 899. mál.

2404087

Erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til laga, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, 899. mál.

Umsögn óskast svarað í gegnum umsagnargátt Alþingis en óskað er eftir að svar berist í síðasta lagi í viku 19.
Lagt fram.

6.Qair, umsögn um matsskyldu vegna vetnisframleiðslu.

2305052

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga, mál nr. 0284/2024: Kynning umhverfismatsskýrslu (Mat á umhverfisáhrifum), sem verið hefur til kynnningar í Skipulagsgátt.

Á 35. fundi USNL-nefndar þann 17.04.2024 fjallaði nefndin um málið og fól nefndin Umhverfis- og skipulagsdeild Hvalfjarðarsveitar að vinna umsögn um umhverfismatsskýrsluna sem byggi á þeim umræðum sem voru á fundinum. Umsögnin verði síðan send nefndinni.

Lögð fram tillga að umsögn sem unnin hefur verið áfram frá því á síðasta fundi USNL-nefndar.
Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn Hvalfjarðarsveitar vegna framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga, mál nr. 0284/2024: Kynning á umhverfismatsskýrslu (Mat á umhverfisáhrifum), sem nú er til kynningar í Skipulagsgátt.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd hefur á fyrri stigum málsins skilað inn umsögn um matsáætlun vegna fyrirhugaðrar verksmiðju. Nú liggja fyrir ítarlegri upplýsingar um verkefnið.

Ásýnd:

Reisa þarf byggingar yfir framleiðslueingarnar svo sem eins og verkstæði og starfsmannaaðstöðu en einnig umfangsmeiri byggingar eins og framleiðslutanka og turna. Flestar byggingarnar framleiðslueininganna eru 10-20 metra háar og ammoníaks ofn og tenging við háspennulínur standa upp úr allt að 30 metra háar. Þrjár loftskiljur eru um 40 metra háar og kyndill, er hæsta mannvirkið, um 60 metra hár turn sem mun standa á vesturenda lóðarinnar. USNL-nefnd leggur áherslu á að hugað verði vel að þessum þætti, þar sem hæð og umfang bygginga er enn óljós og virkt samtal við sveitarfélagið verði þar um.

Aðföng:

Gríðarleg orkuþörf er fyrir alla áfangana eða 840 MW og óljóst er enn með orku til framleiðslunnar.

Vatn er takmörkuð auðlind í sveitarfélaginu þegar rætt er um aukna uppbyggingu á Grundartanga. Fram kemur í skýrslunni að Vatnsveitufélag Hvalfjarðarsveitar, sem Faxaflóahafnir eru aðili að, vinnur nú að aukinni vatnsöflun fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Unnið er að aukinni vatnstöku inn á veitusvæði vatnsveitunnar en engir augljósir kostir eru í stöðunni í dag.

Hljóðvist:

Tekið er fram að hávaði frá tækjabúnaði verði undir viðmiðunarmörkum reglugerða. Hvalfjarðarsveit beindi því til Skipulagsstofnunar á fyrri stigum að gerðar yrðu hljóðvistarmælingar á Grundartanga en borið hefur á því að kvartanir berist vegna hávaðamengunar frá svæðinu. Brugðist hefur verið við því og með matsskýrslu fylgir nú tæknileg hljóðgreiningarskýrsla, unnin af verkfræðistofunni COWI. Einnig er tekið fram að hönnun taki mið af hljóðvist bæði á hönnunartíma og á rekstrartíma. Í niðurstöðum mats á áhrifum á hljóðvist er starfsemi Qair á Grundartanga talin hafa óveruleg neikvæð áhrif á hljóðvist og að hljóðvistargreining sýni að starfsemin uppfylli viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða frá iðnaðarstarfseminni. Þrátt fyrir það, er ljóst að með tilkomu verksmiðju Qair á Grundartanga bætast við á bilinu 1-3 dB í nálægri byggð. Nú þegar berst bæði niður og högg frá framkvæmdasvæðinu í því magni að það skerðir lífsgæði íbúa, bæði í næsta nágrenni við iðnaðarsvæðið, í Melahverfi og víðar. USNL-nefnd beinir því til Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðila og landeiganda að þrátt fyrir að hávaði frá verksmiðjunni sé undir viðmiðunarmörkum, sé um truflandi þátt að ræða og því brýnt að finna leiðir til að lágmarka hljóð og hljóðmengun frá svæðinu öllu.

Hættuleg efni:

Vegna sprengihættu lagði Hvalfjarðarsveit ríka áherslu á að gert yrði áhættumat fyrir framleiðsluna. Það liggur nú fyrir skýrsla frá verkfræðistofunni COWI um þessi þrjú efni: ammoníak, vetni og súrefni. Öllum þessum efnum fylgir áhætta, þó líkur á óhappi séu taldar litlar í skýrslu VSÓ/Qair. Það eru ekki taldar miklar líkur á stórslysi af völdum ammóníakleka og ljóst að gerðar verða miklar kröfur varðandi hönnun og fleira þegar um varasöm efni í þessu magni er að ræða. USNL-nefnd ítrekar að hvergi verði veittur afsláttur þegar kemur að öryggismálum.

Áfangaskipting verksmiðjunnar:

Framleiðslan er fyrirhuguð í þremur áföngum og hver um sig hefur um 250.000 tonna framleiðslugetu af ammoníaki. USNL-nefnd leggur til að áföngum verksmiðjunnar verði fjölgað og umfang þeirra minnkað, svo mögulega sé hægt að sannreyna þau umhverfisáhrif sem verksmiðjan er talin hafa, sér í lagi í ljósi margra óvissuþátta, sem snúa t.d. að aðföngum og framleiðsluferlinu.

Umhverfisvöktun:

Á kynningarfundi framkvæmdaraðila kom fram að verksmiðjan yrði hluti af þeirri vöktunaráætlun sem unnin er fyrir nokkur fyrirtæki á Grundartangasvæðinu, skv. starfsleyfi þeirra. USNL-nefnd óskar eftir nánari upplýsingum um þennan þátt og með hvaða hætti fyrirhuguð verksmiðja Qair tekur þátt í þeirri vöktun, hvaða þættir bætast við umhverfisvöktunina með tilkomu nýrrar verksmiðju sem er ólík annarri starfsemi á svæðinu.

Lífríki á landi:

Í umhverfismatsskýrslunni kemur fram að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á vistgerðir og gróður verði staðbundin. Sama á við um áhrif á fuglalíf. Niðurstaða matsins er því óveruleg neikvæð áhrif. USNL-nefnd vill að þessi þáttur sé rökstuddur betur en gert er í skýrslunni. Svæðið er mikilvægt búsvæði fyrir fjölbreytt fuglalíf á og við Katanes í fjölbreyttu landi; votlendi, graslendi og strandlengju. Auk þess er framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar bryggju innan svæðis sem Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að tilheyri B-hluta Náttúruminjaskrár vegna fjöruvistgerða, fugla og sela.

Skipulagsmál:

Framkvæmdin er í samræmi við aðalskipulag en gera þarf breytingar á deiliskipulagi miðað við framlögð gögn.

Samráð:

Að lokum bendir USNL-nefnd Hvalfjarðarsveitar á að á opnum kynningarfundi um verkefnið, var rætt um að fundargerð þess fundar ásamt viðbrögðum framkvæmdaraðila yrðu gerð opinber og yrðu hluti af þeim gögnum sem fylgdu verkefninu. Í ljósi þess að á fundinum endurspegluðust ýmis sjónarmið leggur USNL-nefnd á það áherslu að virkt samtal verði við íbúa sveitarfélagsins.

7.Gröf II 207694 - UFF2 - Umsókn um byggingarleyfi - Deiliskipulag

2306036

Deiliskipulag fyrir Gröf II.

Deiliskipulag Grafar II í Hvalfjarðarsveit var auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulaglsaga nr. 123/2010 frá 6. mars til og með 17. apríl 2024.

Eftirtaldir aðilar sendu sveitarfélaginu viðbrögð vegna tillögunnar:

Fiskistofa dags. 14. mars, Umhverfisstofnun dags. 14. mars, Hafrannsóknarstofnun dags. 14. apríl, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands dags. 4. apíl, Landsnet dags. 20. mars, Minjastofnun Íslands dags. 5. apríl, Míla dags. 6. mars, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 17. apríl, Rarik dags. 17. apríl, Samgöngustofa dags. 20. mars, Skipulagsstofnun dags. 6. mars, Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar dags. 9. apríl, Vegagerðin dags. 8. mars, Veitur dags. 8. mars.



Fiskistofa, Hafrannsóknarstofnun, Landsnet, Minjastofnun Íslands, Samgögnustofa og Vegagerðin gera ekki athugasemd. Míla óskar eftir samráði þegar til framkvæmda kemur og Náttúrufræðistofnun Íslands hvetur til að raski verði haldið í lágmarki. Rarik óskar eftir að gert verði ráð fyrir 9 m2 lóð fyrir jarðspennistöð og Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar óskar eftir að burðargeta vega verði 18-20 tonn, snúnigsplani og telur æskilegt að hringakstur væri mögulegur á svæðinu til að tryggja flóttaleið. Gerð er krafa um aðgengi slökkviliðs að slökkvivatni. Veitur eru ekki með dreifikerfi á svæðinu.

Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Skipulagsstofnun skila ekki efnislegri umsögn.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir deiliskipulagið fyrir sitt leyti með þeim breytingum að ný lóð fyrir jarðspennistöð verði komið fyrir, upplýsingum um burðargetu vegar um svæðið verði breytt og veginum lýst sem svokölluðum D4 vegi samkvæmt stöðlum Vegagerðarinnar um Héraðsvegi sem er 4 metra breiður vegur með útskotum og 60-80cm hár.
Nefndin hvetur landeiganda til að huga að slökkvivatni á svæðinu en gerir ekki kröfu um breytingar á deiliskipulagsuppdrætti vegna þess.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

8.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Neðstiás 11 - Flokkur 1,

2309050

Grenndarkynningu er lokið en Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkti á 31. fundi sínum að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi Neðstaáss í landi Kambshóls frá árinu 2009, skv. 2. mgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt var að grenndarkynna fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóða, Neðstaási 9, 12 og 14, auk landeiganda Kambshóls.



Ein athugasemd barst frá landeiganda þar sem m.a. kom fram að stefna áætlaðs gestahús væri ekki í samræmi við deiliskipulag og að skv. deiliskipulaginu eigi að byggja mannvirki með mæni í miðju húsi. Var fyrirhugaðri framkvæmd leigutaka lóðarinnar, mótmælt f.h. landeiganda.
Í ljósi þeirra mótmæla sem landeigandi landsins hefur komið á framfæri við sveitarfélagið, sbr. liður 2 og 3 í athugasemdabréfi landeiganda, hafnar nefndin umræddri breytingu á skipulagi svæðisins.
Erindi um byggingarheimild eða -leyfi er því hafnað.

9.Framkvæmdaleyfi - Cobra borholur á Katanesi.

2404106

Cowi Ísland ehf, sækir um framkvæmdarleyfi vegna graftar á könnunargryfjum og borunar á Cobra-borholum á Katanesi í landi Faxaflóahafna fyrirh hönd Qair Ísland ehf.

Gryfjurnar verða á bilinu 8-10 talsins. Cobra-borholurnar verða um 30-32 talsins. Staðsetning gryfja og borhola má sjá á yfirlitskorti sem fylgdi með umsókn.

Stærra svæði hefur verið rannsakað áður á þessum slóðum, árið 2003 og 2014 og er þetta framhald af því.
Samþykkt.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt vegna fyrirhugaðs graftrar og borunar, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

10.Tengivegaáætlun fyrir árin 2024-2028.

2404104

Erindi frá Vegagerðinni.

Lögð fram til kynningar tengivegaáætlun fyrir árin 2024-2028.

Áætlunin er send til upplýsinga og kynningar á öll sveitarfélög á Vestursvæði ásamt SSV og Vestfjarðastofu sem hafa aðstoðað við forgangsröðun.
Lagt fram til kynningar.

11.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Nýlenda 133418 - Flokkur 1,

2402030

Erindi frá byggingarfulltrúa.

Sótt er um viðbyggingu við sumarhús, Nýlendu í landi Ferstiklu.

Svæðið sem um ræðir er skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi, ekkert deiliskipulag er í gildi.



Skv. ákvæðum 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir m.a. í 3. málsgrein, að skipulagsnefnd sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.
Að mati Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar varðar erindið ekki aðra en sveitarfélagins og umsækjanda. Því samþykkir nefndin að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum athugasemdum og skilyrðum byggingarfulltrúa.

12.Framkvæmdaleyfi - vegur í landi Hafnarbergs L-208217.

2403028

Erindi frá landeiganda.

Ósk um framkvæmdaleyfi fyrir aðkomuveg að Hafnarbergi í landi Hafnar.

Lóðin Hafnarberg Hafnarland, landeignanúmer 208217 er 10 ha að stærð.

Vegagerðin hefur samþykkt vegtengingu við þjóðveg 1 fyrir sitt leyti.

Vegurinn verður svokallaður D4 vegur samkvæmt stöðlum vegagerðarinar um Héraðsvegi sem er 4 metra breiður vegur með útskotum og 60-80cm hár.

Erindið var áður á dagskrá 34. fundar USNL-nefndar þann 20.03.2024 og óskaði nefndin þá eftir frekari upplýsingum frá landeiganda.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt til landeiganda vegna fyrirhugaðs aðkomuvegar, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar.

13.Framkvæmdaleyfi - vegur í landi Grafar II.

2404105

Sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir vegi í landi Grafar II skv. uppdrætti dags. 22.04.2024 sem fylgdi með erindinu.

Fyrir liggur samþykki Vegagerðarinnar dags. 3. nóvember 2023 fyrir tengingu við Þjóðveg 1.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd leggur til að framkvæmdaleyfi verði veitt til landeiganda vegna fyrirhugaðs vegar um Gröf II, skv. því fyrirkomulagi sem lýst er í umsóknargögnum og á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Gerð verði úttekt af hálfu sveitarfélagsins, þar sem þess verði gætt að framkvæmd sé í samræmi við umsókn framkvæmdaleyfis og hjálagðra gagna hennar. Kostnaður við framkvæmdaleyfi og áfangaúttektir sveitarfélagsins eru skv. gjaldskrá sveitarfélagsins. Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Efni síðunnar