Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

12. fundur 04. janúar 2023 kl. 15:30 - 17:50 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit

2210038

Umhverfisfulltrúi hefur tekið saman minnisblað vegna breyttrar úrgangsstjórnunar í Hvalfjarðarsveit í samræmi við ný lög sem öðluðust gildi um áramótin.
Þar er m.a. fjallað um nýja gjaldskrá fyrir úrgangshirðu og eyðingu ásamt nýrri samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Hvalfjarðarsveit, fjölgun íláta undir úrgang, kynningarfund fyrir íbúa, ráðningu sérfræðings í úrgangsmálum á vegum SSV, talningu íláta niður á staðföng, nýtt sorphirðudagatal ásamt því helsta sem framundan er í málaflokknum á næstu vikum.
Umhverfisfulltrúi fór yfir minnisblað um úrgangsmál í Hvalfjarðarsveit og lagði fram nýsamþykkta gjaldskrá fyrir sorphirðu og eyðingu í Hvalfjarðarsveit.
USNL-nefnd samþykkir eftirfarandi:

- Að afhending á nýjum 240 lítra sorpílátum fari fram eins fljótt og kostur er miðað við veðuraðstæður og færð. Nefndin áréttar að mikilvægt er að tilkynna íbúum um þessa afhendingu, bæði með dreifibréfi og með tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins. Afhending á tunnum og merkingar á þeim verður í höndum þjónustuaðila sveitarfélagsins í úrgangsmálum.
- Að senda dreifibréf á öll heimili í sveitarfélaginu með kynningu á breyttri úrgangsstjórnun í Hvalfjarðarsveit.
- Að boðað verði til íbúafundar þann 25. janúar kl. 17.30 um breytta úrgangsstjórnun sem byggir á nýjum lögum um hringrásarhagkerfi sem tóku gildi um áramótin.
- Að fram fari talning á ílátum (sorptunnum) í samræmi við leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
- Að Hvalfjarðarsveit taki þátt í verkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðlögun á gjaldskrá og innheimtukerfi sem er sniðið af því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér. Tilkynna þarf þátttöku í verkefnið fyrir 5. janúar nk.
- Að þessum breytingum verði fylgt eftir með reglulegum fréttum og fræðslu til íbúa.

Umhverfisfulltrúa falið að vinna að þessum málum áfram og koma þeim í framkvæmd og farveg eins og við á.

2.Ósk um stækkun friðlands í Grunnafirði

2212037

Erindi dags. 14.12.2022 frá Umhverfisstofnun.
Þann 20. nóvember 2022 barst Umhverfisstofnun erindi landeigenda þriggja jarða við Grunnafjörð þar sem óskað var eftir stækkun friðlandsins í Grunnafirði í Hvalfjarðarsveit.
Umhverfisstofnun óskar eftir afstöðu sveitarfélagsins til mögulegrar stækkunar friðlandsins og hvort umrædd stækkun sé í samræmi við skipulagsáform á svæðinu.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

3.Fellsendavegur-héraðsvegur

2012031

Tilkynning frá Vegagerðinni.
Með bréfi dags. 6. desember 2022 tilkynnir Vegagerðin fulltrúum landeigenda Fellsenda um afturköllun á niðurfellingu Fellsendavegar nr. 5040-01 af vegaskrá.
Með bréfi dags. 14.02.2017 boðaði Vegagerðin fyrirhugaða niðurfellingu Fellsendavegar af vegaskrá þar sem lögheimilisskráning á Fellsenda var fallin niður.
Landeiganda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins.
Engar athugasemdir bárust og með bréfi dags. 15.03.2017 tilkynnti Vegagerðin um niðurfellingu Fellsendavegar af vegaskrá.
Í tilkynningarferlinu láðist Vegagerðinni að upplýsa aðra landeigendur við Fellsendaveg um málið og veita þeim andmælarétt líkt og lög gera ráð fyrir.
Í ljósi málsmeðferðarinnar mun Vegagerðin því hefja ferlið vegna niðurfellingarinnar að nýju og gefa öllum landeigendum við Fellsendaveg kost á að koma að sjónarmiðum sínum vegna málsins.
Lagt fram til kynningar.

4.Gjaldskrárbreyting - Skipulags- og byggingarfulltrúi

2112013

Erindi til kynningar frá Hvalfjarðarsveit.
Ný gjaldskrá skipulgsfulltrúa og byggingarfulltrúa hefur þann 6. desember 2022 verið auglýst í B-deild stjórnartíðinda og hefur því þegar öðlast gildi.
Um er að ræða annars vegar gjaldskrá vegna m.a. skipulagsmála, lóðamála, framkvæmdaleyfa og þjónustu skipulagsfulltrúa Hvalfjarðarsveitar og hinsvegar gjaldskrá fyrir m.a. afgreiðslu umsókna, leyfisveitinga og þjónustu byggingarfulltrúaembættis Hvalfjarðarsveitar.
Lagt fram til kynningar.

5.Lóðaúthlutun til Qair Iceland ehf á Grundartanga

2301001

Stjórn Faxaflóahafna hefur veitt hafnarstjóra heimild til þess að undirrita samning við Qair Iceland ehf. um úthlutun lóðarinnar Katanesvegar 30 fyrir framleiðslu á rafeldsneyti. Í samningsdrögum er gert ráð fyrir að lóðinni verði skipt upp í þrjár nánast jafnstórar lóðir og einni þeirra úthlutað nú. Jafnframt er þar fyrirvari um að samningar náist um vatnsöflun og byggingu hafnar fyrir starfsemina.

Í gildi er samningur á milli Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna sem kveður á um að samningsaðilar taki sameiginlega ákvörðun um hvort til úthlutunar lóða komi á Grundartanga. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um fyrirhugaða starfsemi á lóðinni þá er að mati Faxaflóahafna ljóst að henni fylgir ekki mengun sem hamlar því að til úthlutunar komi með vísan til samnings Faxaflóahafna og sveitarfélagsins.

Qair Iceland ehf. hefur afhent Skipulagsstofnun lokaútgáfu skýrslu frá VSÓ Ráðgjöf sem ber heitið "Framleiðsla á vistvænum orkugjöfum á Grundartanga - Matsáætlun" sem sveitarstjórn hefur samþykkt að uppfylli ákvæði a-liðar 2. gr. áðurnefnds samnings. Á grundvelli þeirrar skýrslu óska Faxaflóahafnir eftir að Hvalfjarðarsveit veiti samþykki sitt fyrir úthlutuninni.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við úthlutun lóðarinnar Katanesvegar nr. 30.
Nefndin vill benda á að úthlutun hluta lóðarinnar þarf að vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar.

6.Melahverfi-deiliskipulag.

2203054

Erindi frá Eflu dags. 16.12.2022 þar sem kynnt er vinnslutillaga vegna endurskoðunar gildandi deiliskipulags fyrir Melahverfi.
Helstu breytingar eru þær að lóðarmörkum er sums staðar breytt, gert ráð fyrir nýjum stíg meðfram Bugðumel og austur fyrir svæðið, gert ráð fyrir nýrri þjónustulóð s.s. fyrir nýjan leikskóla.

Vinnslutillaga lögð fram til kynningar.

7.Móar 207358 - Umsókn um byggingaráform og byggingarheimild eða -leyfi,

2211046

Erindi dags. 29. nóvember 2022 frá Grétari Jónssyni en erindinu var vísað til USNL-nefndar frá byggingarfulltrúa.
Um er að ræða byggingarleyfi fyrir braggahúsi/vélaskemmu í landi Móa.
Í gildi er deiliskipulag frá árinu 2021 og skv. skilmálum fyrir skipulagssvæðið er heimilt að byggja 60 m2 kalda vélaskemmu á byggingarreit B6.
Umrætt hús fer ca. 2 m2 umfram leyfilegt byggingarmagn skv. gildandi deiliskipulagi.
Umrætt hús er innan reits B6 og hlaut stöðuleyfi árið 2020.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að afgreiða málið skv. 3. málsgrein, 43. greinar skipulagslaga nr. 123 frá 2010.

8.Hafnarland Lísuborgir - byggingarheimild v. geymsluskúr

2210060

Erindi frá byggingarfulltrúa.
Sótt er um leyfi fyrir 40 m2 geymsluskúr.
Burðarvirki húss er timbur.
Stærð 5 x 8 m að grunnfleti.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi fyrir umræddum geymsluskúr.
Arnheiður Hjörleifsdóttir, umhverfisfulltrúi sat fundinn undir liðum 1,2 og 5.

Fundi slitið - kl. 17:50.

Efni síðunnar