Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

10. fundur 30. nóvember 2022 kl. 15:30 - 17:30 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Sæmundur Víglundsson formaður
  • Ása Hólmarsdóttir varaformaður
  • Helga Harðardóttir ritari
  • Ómar Örn Kristófersson aðalmaður
  • Svenja Neele Verena Auhage aðalmaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá

1.Endurvinnsla kerbrota - umsagnarbeiðni

2208025

Bréf dags. 16.11.2022 þar sem kynnt er ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu Kerendurvinnslunnar á Grundartanga.

Þann 4. maí 2022 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Kerendurvinnslunni um endurvinnslu kerbrota á Grundartanga, skv. ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matskyldu skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Skipulagsstofnun leitaði umsagnar 11 aðila þar á meðal Hvalfjarðarsveitar. Umsagnir bárust frá 10 aðilum þar á meðal Hvalfjarðarsveit.
Fyrirhuguð framkvæmd felst í að byggja verksmiðju til endur- og álframleiðslu kerbrota á Grundartanga. Áformar verksmiðjan að endurvinna kerbrot frá innlendu álverunum þremur og hugsanlega flytja inn kerbrot og fullnýta afkastagetu verksmiðjunnar ef það reynist hagkvæmt. Tilgangur verkefnisins er að vinna kerbrotaúrgang álvera til nota í sementsiðnaði en ekkert af þeim kerbrotum sem falla til við íslenska álframleiðslu er endurunnin. Innanlands hjá álverunum þremur þ.e. Alcoa Fjarðaál, Norðurál og Rio Tinto á Íslandi, fellur til um 18-20 þúsund tonn af kerbrotum árlega. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður um 30-35 þúsund tonn á ári og er ein afurð úr ferlinu svokallað HiCal efni sem er notað í sementsiðnaði. Til stendur að reisa um 6.000 m2 verksmiðjuhús á Grundartanga vegna framleiðslunnar.
Framkvæmdin hefur það í för með sér að ekki þarf lengur að urða kerbrot frá álverum á Íslandi og þar með dregur mjög úr úrgangsmyndun vegna þeirra auk þess sem dregur úr landþörf til urðunar í svokallaðar flæðigryfjur.
Starfsemin hefur í för með sér aukna losun til andrúmslofts á flúori, ryki og brennisteinsdíoxíði.
Framleiðsla verksmiðjunnar í fullum afköstum hefur í för með sér losun á rúmlega 3.700 tonnum af koldíoxíði á ári en heildarávinningur af minni losun frá afurðum verksmiðjunnar er talinn vera mun meiri.
Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar kemur fram að afleidd áhrif framkvæmdarinnar felist m.a. í því að þegar urðun kerbrota verði hætt, verði tekið fyrir dreifingu mengunarefna úr kerbrotum til sjávar m.a. inn Hvalfjörð til svæðis sem þar er á náttúruminjaskrá. Þar kemur líka fram að umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda séu að mestu leyti jákvæð.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því sé framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skv. ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana er ákvörðunin kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 19. desember 2022.


Niðurstaða Skipulagsstofnunar lögð fram.
Samþykkt að óska eftir rökstuðningi Skipulagsstofnunar vegna niðurstöðu hennar um matsskyldu.
Umhverfisfulltrúa falið að vinna málið áfram.

2.Gönguleiðir í Hvalfjarðarsveit.

2108014

Umsögn frá Minjastofnun vegna gönguleiðar um Síldarmannagötur.

Skv. gögnum málsins vinnur Markaðsstofa Vesturlands að því að gps-mæla gönguleiðir á Vesturlandi en markmiðið með þessu verkefni er að kortleggja þær gönguleiðir á Vesturlandi sem eru aðgengilegar almenningi og sátt er um að kynna megi á opinberum vettvangi. Auk þess er til skoðunar hjá Markaðssofu Vesturlands varðandi aðgengi og það sem snýr að merkingum og öryggi göngufólks á umræddum gönguleiðum.
Í tengslum við verkefnið verður haft samband við landeigendur og fengið hjá þeim formlegt samþykki varðandi frekari vinnu og kynningu á hverri gönguleið. Ekki verður unnið frekar með þær gönguleiðir sem ekki er sátt um hjá landeigendum/stjórnsýslu að kynna sem aðgengilegar gönguleiðir fyrir almenning.
Þegar formlegt samþykki landeigenda/stjórnsýslu liggja fyrir, og búið að yfirfara öll atriði sem varða aðgengi, merkingar og öryggi og leiðin telst vera í því ástandi að þangað sé hægt að vísa fólki, þá fara upplýsingar um viðkomandi gönguleið inn á sameiginlegan gagnabanka og kortagrunn sem unnin er í samstarfi við Ferðamálastofu með aðkomu Landmælinga Íslands.
Stefnt er að því að þessi kortagrunnur verði svo gerður aðgengilegur almenningi og kynntur inn á vef MSV www.vesturland.is / www.west.is og ferðavef Ferðamálastofu www.ferdalag.is auk þess sem Íslandsstofa og Ferðamálastofa vinna nú að einni sameiginlegri vefgátt fyrir alla opinbera landkynningu á Íslandi bæði á íslensku og erlendum tungumálum, þar sem vefsíður markaðsstofanna munu tengjast beint undir. Einnig munu sveitarfélögin og þeir sem vilja geta sett inn link á þennan kortagrunn á sína heimasíðu.

Í umsögn Minjavarðar Vesturlands sem barst með bréfi dags. 21.11.2022, vegna markaðssetningar gönguleiðar um Síldarmannagötur, sem að hluta til er í Hvalfjarðarsveit, kemur fram að stofnunin geri ekki athugasemd við markaðssetninguna en mikið magn fjölbreyttra minja er að finna í nálægð við gönguleiðina sem taka þarf tillit til og óheimilt er að raska.
Umsögn Minjastofnunar lögð fram til kynningar.

3.Umsjónarnefnd fyrir friðlandið Grunnafjörður.

2211031

Fundargerð umsjónarnefndar friðlandsins Grunnafjarðar en fundurinn var haldinn 04.11.2022 á skrifstofu Hvalfjarðarsveitar.
Frá Hvalfjarðarsveit mættu Bjarki Borgdal Magnússon og Svenja Neele Verena Auhage, auk fulltrúa frá Umhverfisstofnun.

Eftirfarand kom m.a. fram í fundargerðinni:

Ekki er búið að gera stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Grunnafjörð og skoða þarf hvar sú vinna er stödd hjá Umhverfisstofnun. Mikilvægt er að hefja þá vinnu sem fyrst og móta framtíðarsýn um stjórnun og verndun Grunnafjarðar. Mikilvægt er að áætlunin sé til staðar ef til skoðunar kemur að fara í einhverskonar skipulag eða framkvæmdir innan hins friðlýsta svæðis.

Vegur um Grunnafjörð. Hugmynd sem hefur komið fram en ekki vitað hver staðan á þeirri hugmyndavinnu er. Væri áhugavert að skoða það.

Rannsóknir. Grunnafjörður er hluti af verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands um vöktun náttúruverndarsvæða og lykilþátta íslenskrar náttúru. Tengd þessu verkefni voru einnig gerðar talningar á fuglum á Innstavogsnesi og Blautósi árin 2020 og 2021.

Fram kom að 18 landeigendur eigi land að Grunnafirði.

Þörf á innviðum í Grunnafirði. Eitt skilti er við friðlandið og er það við Laxá. Skoða þarf hvort þörf er á frekari innviðum í og við friðlandið og verður það gert í vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar.

Meðal verkefna framundan er m.a. að halda kynningu fyrir landeigendur um friðlandið og hvað það þýðir fyrir svæðið að vera Ramsar svæði. Finna til rannsóknir sem gerðar hafa verið í friðlandinu og gera yfirlitsskrá.

Stefnt að því að halda fundi a.m.k. einu sinni á ári og oftar eftir þörfum.
USNL-nefnd hvetur til þess að vinna við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Grunnafjörð hefjist sem fyrst.
Umhverfisfulltrúa falið að koma áherslum USNL-nefndar til formanns Grunnafjarðarnefndar.
Fundargerðin framlögð.

4.Framkvæmdaleyfi vegna endurnýjunar á aðveitulögn hitaveitu í landi Narfastaða, Móhólsmela og Höfn.

2211038

Umsókn frá Veitum ohf., dags. 18.11.2022 um framkvæmdaleyfi vegna HAB endurnýjunar, hitaveita Akraness og Borgarfjarðar sem fær vatn frá Deildartungu í Borgarfirði.

Veitur ehf sækja um framkvæmdarleyfi vegna endurnýjunar á aðveitulögn hitaveitu í landi Narfastaða, Móhólsmela og Hafnar.
Lögð verður DN450 foreinangruð lögn í jörðu í stað DN400 asbestlagnar sem nú er í notkun.
Með umsókninni fylgdu ýmis fylgigögn.
Stefnt er að útboði á framkvæmd fljótlega.

Áfangi sem sótt er um framkvæmdarleyfi fyrir er um 6.900 m í landi Hafnar, Móhólsmela, Narfastaða og Fiskilækjar að litlum hluta. Verkefnið gengur út á að leggja DN450 stállögn neðanjarðar og fjarlægja núverandi asbestlögn þegar búið verður að tengja nýju lögnina. Verkið verður boðið út. Hönnun er unnin af verkfræðistofunni Eflu. Framkvæmdatími verður 2023-2026. Skipulagsstofnun úrskurðaði að verkefnið væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Skv. 5. grein reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru framkvæmdir við stofn-, dreifi- og flutningskerfi hitaveitu og verulegar breytingar á slíkum mannvirkjum, háðar framkvæmdaleyfi.
Samþykkt að leita umsagnar umsagnaraðila svo sem Veiðimálastofnunar/Fiskistofu, veiðifélags Hafnarár, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins ofl.
Skipulagsfulltrúa falið að kanna hvort lagnaleið fari um náttúruverndarsvæði eða hvort á svæðinu séu náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar.
Fyrir liggur álit Minjastofnunar Vesturlands.
Afgreiðslu málsins frestað.

5.Aðalskipulag-endurskoðun-2020-2032

1901286

Lagðar fram tillögur að svörum til þeirra sem gerðu ábendingar/athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sbr. ákvæði 1. mgr. 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.
Tillögurnar hafa tekið breytingum eftir vinnu sem skipulagsfulltrúi og formaður USNL-nefndar hafa unnið frá síðasta fundi nefndarinnar, en nefndin fól þeim að vinna að breytingum í samræmi við umræður á sl. fundi.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar og landbúnaðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillögur að svörum til þeirra sem gerðu ábendingar/athugasemdir við auglýsta tillögu að aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 sbr. ákvæði 1. mgr. 32. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

USNL-nefnd hefur fjallað um og tekið afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni.

Greinargerð og uppdráttur uppfærður skv. afgreiðslu nefndarinnar og svörum til þeirra sem gerðu ábendingar/athugasemdir.
Endanlegri afgreiðslu vísað til sveitarstjórnar um að vísa tillögunni til afgreiðslu og staðfestingar Skipulagsstofnunar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. ákvæði 32. greinar skipulagslaga nr. 1213/2010.


6.Leirá - tillaga að deiliskipulagi - Réttarhaga I og II

2204032

Afgreiðsla Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags smábýlabyggðar í Réttarhaga í landi Leirár sbr. bréf dags. 21.11.2022.
Í deiliskipulaginu sem unnið var af Landlínum ehf, fólst m.a. að skilgreina tvær landbúnaðarlóðir úr landi Leirár. Aðkoma að lóðunum verður um ca. 300 m langan nýjan veg sem mun tengjast Skólastíg.
Skipulagsstofnun gerir athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.
Ástæðan er sú að ekki er gert ráð fyrir aðkomu að Réttarhaga í gildandi deiliskipulagi svæðisins sbr. áðurnefndan veg sem tengjast mun Skólastíg.
Er þessi athugasemd með tilvísun til greinar 5.3.2.5 í skipulagsreglugerð.
Einnig gerir skipulagsstofnun athugasemd við að skilgreina þurfi betur kvöð um aðkomu að lóðum Réttarhaga í umræddri deiliskipulagstillögu fyrir Réttarhaga.

Skv. fundi sem skipulagsfulltrúi átti með fulltrúum landeigenda þann 28. nóvember sl., var ákveðið að landeigandi láti vinna breytingu á deiliskipulagi Heiðarskóla og Heiðarborgar vegna umrædds vegar svo koma megi til móts við sjónarmið Skipulagsstofnunar og ljúka megi gildistöku deiliskipulags fyrir Réttarhaga úr landi Leirár.

7.Galtarvík 2 - byggingarleyfi innan þynningarsvæðis

2210035

Umsókn um byggingarleyfi á svæði sem er innan þynningarsvæðis skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020.
Í ljósi þess að umrædd byggingarleyfisumsókn er á svæði sem telst vera þynningarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020, hafnar nefndin erindinu.
Skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjanda um reglur sem gilda um þynningarsvæði í aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar.

8.Landamerki Teigs og Krosslands eystra.

2211039

Lagt fram bréf lögmanns dags. 16.11.2022 f.h. Valdísar Heiðarsdóttur og Harðar Jónssonar, Teigi er varðar landamerki Teigs, landeignanúmer 133714 og Krosslands eystra, landeignanúmer 205470.
Leitað var til sveitarfélagsins vegna stofnskjals fyrir síðarnefndu eignina sem útbúið var og þinglýst í febrúar 2006.
Fram kemur í bréfi lögmannsins að eigendur Teigs telji ótvírætt að landamerki jarðanna séu ranglega skráð.
Sveitarfélagið hefur þann 21.06.2022 fundað með landeigendum Teigs vegna málsins og jafnframt sendi Skipulagsfulltrúi þeim bréf dags. 27.09.2022.

Lagt fram.

9.Beiðni um umsögn sveitarstjórnar með vísan til 8. mgr. 10. gr. jarðalaga nr. 81-2004.

2211029

Erindi frá Matvælaráðuneyti sbr. bréf og tp dags. 15.11.2022.
Beiðni um umsögn með vísan til 8. mgr. 10. gr. jarðalaga nr. 81 frá 2004.
Á 364. fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 23.11.2024 var erindinu vísað til umfjöllunar í USNL-nenfnd.

Fram kemur í bréfinu að óskað hefur verið eftir samþykki matvælaráðherra sbr. 10. gr. a. jarðalaga nr. 81/2004 á kaupum félagsins FEK ehf. á hlut í jörðinni Fiskilæk í Hvalfjarðarsveit. Óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar vegna málsins.

Í meðfylgjandi umsókn koma fram upplýsingar um aðrar eignir umsækjanda og tengdra aðila. Með vísan til 8. mgr. 10. gr. a jarðalaga er óskað eftir umsögn sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar vegna ofangreinds. Sérstaklega er óskað eftir sjónarmiðum sveitarfélagsins um það hvort fyrirhuguð ráðstöfun fasteignar og áformuð nýting hennar samrýmist skipulagsáætlunum Hvalfjarðarsveitar, landsskipulagsstefnu eða annarri stefnu um landnýtingu eftir því sem við á. Enn fremur hvort áformuð nýting fasteignar sé að mati sveitarfélagsins í samræmi við stærð, staðsetningu og ræktunarskilyrði hennar, sem og gæði og fasteignaréttindi sem fylgja henni og hvort ráðstöfunin styrki landbúnað og búsetu á viðkomandi svæði.

Skv. erindinu eru FEK ehf að huga að kaupum á hluta jarðarinnar Fiskilæk, en jörðin er í óskiptri sameign. Í kjölfar kaupanna hyggst FEK ehf gera öðrum eigendum jarðarinnar tilboð í eignarhlut þeirra, eða ganga til samninga við sameigendur um nýtingu jarðarinnar.
FEK ehf er þegar eigandi að jörðunum Melum og Ási, sem Stjórnugrís hf leigir, en þær jarðir eru aðliggjandi Fiskilæk. Stjörnugrís hf rekur grísabú að Melum og nýtir ræktarland til kornræktar og hefðbundinnar nýtingar á grasi. Að Ási er rekið nautgripabú og er nautgripum beitt á óræktað land þeirrar jarðar og jarðarinnar Mela. Hyggst FEK ehf leigja Stjörnugrís hf jörðina til að stórauka kornrækt og þar með draga úr kolefnisspori grísabúsins að Melum og nýta það land sem ekki hentar til kornræktar til nautgriparæktar en markmið Stjörnugríss hf er að stækka nautabú sitt umfram það sem jarðirnar Ás og Melar geta fóðrað. Verður ræktun á innlendu fóðri stóraukin í kjölfar kaupanna, gangi áform FEK ehf eftir.

USNL-nefnd telur að umrætt erindi sé í samræmi við þá landnotkun sem þegar er í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins þ.e. landbúnaðarland en rétt er að benda á að hluti landsins er friðland/hverfisverndað og einnig vatnsverndarsvæði.

10.Tillaga um breytingar á samkomulagi um grænar áherslur í starfsemi, uppbyggingu, gatnagerð og frágang lóða á Grundartanga.

2012034

Fyrirspurn frá Hafnarstjóra varðandi túlkun á 2.gr. Samkomulags um grænar áherslur á Grundartanga frá 2015 og varðar umhverfisskýrslu sem lóðarumsækjandi lætur Faxaflóahöfnum og Hvalfjarðarsveit í té vegna úthlutunar á lóðum á Grundartanga.
USNL-nefnd gerir ekki athugasemd fyrir sitt leiti við að umrædd matsáætlun, sem VSÓ Verkfræðistofa vinnur nú fyrir starfsemi Qair, sé nýtt sem sú umhverfisskýrsla sem 2. gr. samkomulags um grænar áherslur á Grundartanga gerir ráð fyrir.

Fundi slitið - kl. 17:30.

Efni síðunnar