Fara í efni

Umhverfis- skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd

1. fundur 20. júní 2022 kl. 16:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Ása Hólmarsdóttir
  • Helga Harðardóttir
  • Ómar Örn Kristófersson
  • Sæmundur Víglundsson
  • Þorsteinn Már Ólafsson 1. varamaður
Starfsmenn
  • Jökull Helgason embættismaður
  • Arnheiður Hjörleifsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Jökull Helgason Skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Svenja Neele Verena Auhage boðaði forföll.

1.Kosning formanns, varaformanns og ritara.

2206003

Kosning formanns, varaformanns og ritara.
Kosning.

Formaður umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar:
Tilnefning til formanns er Sæmundur Víglundsson. Samþykkt samhljóða.

Varaformaður umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar:
Tilnefning til varaformanns er Ása Hólmarsdóttir. Samþykkt samhljóða.

Ritari umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar:
Tilnefning til ritara er Helga Harðardóttir. Samþykkt samhljóða.

2.Ákvörðun um fastan fundartíma.

2206004

Ákvörðun um fastan fundartíma í umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd.
Ákvörðun um fastan fundartíma nefndarinnar.
Samþykkt að hafa fastan fundartíma 3. miðvikudag í mánuði kl. 15:30.
Ákveðið að senda fundarboð alltaf á aðal- og varafólk.
Ákveðið að aðalfólk sem boðar forföll, boði sjálft varafólk í sinn stað.

3.Erindisbréf umhverfis-,skipulags-,náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar.

2205021

Erindisbréf umhverfis-,skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar.
Lagt fram.

4.Sorphirðusamningur - framlenging.

2203069

Frá árinu 2017 hefur Íslenska Gámafélagið séð um sorphirðu í Hvalfjarðarsveit. Samningurinn sem í gildi er, rennur út í nóvember 2022 en hann er með framlengingarákvæði til eins árs, sem Hvalfjarðarsveit hefur ákveðið að nýta.
Lagður fram viðauki við verksamning um sorphirðu í Hvalfjarðarsveit, dags. 24.05.2022
Lagt fram.

5.Umsögn um matsáætlun vegna Holtavörðuheiðarlínu 1.

2205036

Landsnet vinnur að og hefur áform um endurnýjun byggðalínunnar og er Holtavörðuheiðarlína 1 mikilvægur hluti þeirrar uppbyggingar. Holtavörðuheiðarlína 1 er matsskyld framkvæmd samkvæmt liðum 2.02 og 10.15 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Holtavörðuheiðarlína 1 er 220 kV loftlína milli Klafastaða í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði, alls um 90 km löng. Línan er á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar Landsnets 2020-2029 og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2024.

Landsnet hf. hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun um ofangreinda framkvæmd, móttekin 2. maí 2022, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Óskað er eftir að Hvalfjarðarsveit gefi umsögn um meðfylgjandi matsáætlun ofangreindrar framkvæmdar skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Landsnet vinnur að og hefur áform um endurnýjun byggðalínunnar og er Holtavörðuheiðarlína 1 mikilvægur hluti þeirrar uppbyggingar. Holtavörðuheiðarlína 1 er matsskyld framkvæmd samkvæmt liðum 2.02 og 10.15 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Holtavörðuheiðarlína 1 er 220 kV loftlína milli Klafastaða í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði, alls um 90 km löng. Línan er á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar Landsnets 2020-2029 og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2024.

Landsnet hf. hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun um ofangreinda framkvæmd, móttekin 2. maí 2022, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Óskað er eftir að Hvalfjarðarsveit gefi umsögn um meðfylgjandi matsáætlun ofangreindrar framkvæmdar skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í umsögninni þarf eftir því sem við á að koma fram hvort umsagnaraðili hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum umsagnaraðili telur að gera þurfi frekari skil eða hafa sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.

Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd (USNL-nefnd) Hvalfjarðarsveitar álítur að línuleið Holtavörðuheiðarlínu 1 verði best fyrir komið meðfram núverandi lagnaleið Vatnshamralínu. Verði Bjarnarholtsleið fyrir valinu að þá verði strengur lagður í jörðu. Þá leggur USNL-nefnd áherslu á að samhliða uppbyggingu Holtavörðuheiðarlínu 1, verði eldri lína aflögð og möstur fjarlægð. Fram hefur komið hjá Landsneti að núverandi Vatnshamralína sem fer frá Brennimel yfir Skarðsheiði og á Vatnshamra muni ekki víkja a.m.k. fyrst um sinn. Sveitarfélagið hefur farið fram á það að ný lína og gamla Vatnshamralínan verði báðar settar á eina stauralínu til þess að minnka áhrifasvæðið og ásýndina.

Eins og fram kemur í skýrslunni þá er meira svigrúm á suðvesturhorninu en annars staðar á línuleiðinni til jarðstrengslagna þar sem flutningskerfið er sterkara. Jafnframt segir að fyrir liggi greiningar sem sýni fram á að möguleikar til jarðstrengslagna á allri leiðinni séu 3-4 km miðað við ástand kerfisins. Óskar USNL-nefnd eftir því að fá nánari upplýsingar um hvar þessi 3-4 km kafli sé á línuleiðinni. Hvalfjarðarsveit hefur áður bent á að fari línan nýja leið frá Klafastöðum og uppfyrir þjóðveg 47 þá verði hún sett í jörð þar.

Í kafla 6 um verndarsvæði, vil USNL-nefnd benda á að uppfæra mætti mynd 6.1 út frá forsendum friðlýsinga í Hvalfjarðarsveit. Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 sem friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar er að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Stærð svæðisins er tæpir 1400 hektarar. Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði og hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Þá eru í nágrenni framkvæmdasvæðisins vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar skv. 61.gr. náttúruverndarlaga eins og votlendi, stöðuvötn og tjarnir.

Í tillögu greinargerðar nýs Aðalskipulags fyrir Hvalfjarðarsveit kemur fram að strandlengjan frá Miðsandi út að Katanesi sé svæði á náttúruminjaskrá með fagra strandlengju, fjölbreyttu landslagi og ríku fuglalífi. Í tillögunni er jafnframt gert ráð fyrir hverfisvernd fyrir jökulgarðana sunnan Blákolls og Eiðisvatn og stefnt er að endurheimt votlendis og að á svæðinu verði skapaðar góðar aðstæður fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni og að fuglalíf verði auðugt.
Jökulagarðarnir sunnan Blákolls í landi Fiskilækjar, Skorholts og Narfastaða eru umfangsmiklir og bera vitni um jarðfræðisögu svæðisins. Þessa jökulgarða skal varveita í sem heillegastri mynd. Líklega verða jökulgarðarnir ekki fyrir áhrifum af framkvæmdinni en UNSL-nefnd finnst rétt að benda á þessa jarðfræðilegu sérstöðu í nágrenni framkvæmdasvæðisins.

Fuglalíf:
Samkvæmt skýrslunni er talað um möguleg bein áhrif Holtavörðuheiðarlínu 1 á fuglalíf og hætta er á áflugi fugla á loftlínuleiðara og rask og skerðing á búsvæðum fugla og óbein áhrif eru truflun á framkvæmdatíma. USNL-nefnd vill árétta fjölbreytileika og mikilvægi fuglalífs í sveitarfélaginu, og ekki hvað síst á svæðinu í nágrenni framkvæmdasvæðisins eins og votlendissvæðinu umhverfis Hólmavatn og Eiðisvatn. Áflug skiptir mestu máli hvað fugla varðar og því mikilvægt að taka tillit til þess þegar línustæði er valin staðsetning. Vill USNL-nefnd benda á örninn í þessu sambandi, þar sem hann er í mikilli hættu á ferð sinni milli varp- og fæðistöðva. Einnig má nefna himbrima sem heldur til á svæðinu og verpir mögulega á og við Eiðisvatn, ásamt grágæs, álft og öðrum öndum.

Vatnalíf:
Valkostir Holtavörðuheiðarlínu 1 þvera nokkrar ár, líkt og þær háspennulínur sem nú liggja um svæðið milli Hvalfjarðar og Holtavörðuheiðar. Í Hvalfjarðarsveit er um að ræða Laxá í Leirársveit. USNL-nefnd bendir á að bæta megi við umfjöllun um Hólmavatn, Kalmansá og Eiðisvatn.

Ásýnd:
Leið valkosta Holtavörðuheiðarlínu 1 fer um ræktað landbúnaðarland með bæjum og sumarhúsum, en einnig svæði sem bera síður ummerki mannsins. Einnig eru fyrir loftlínur á leiðum valkosta, umferðarmannvirki og staðir þar sem vegfarendur stöðva til að njóta hvíldar og útsýnis á ferð sinni. Framkvæmdin mun hafa í för með sér breytingu á ásýnd lands og getur þar með haft áhrif á nýtingu lands t.d. til útivistar og ferðaþjónustu.
Greiningin mun einnig leiða í ljós mismunandi sýnileika innan áhrifasvæðisins. Horft verður til staða sem helst eru viðkvæmir fyrir sjónrænum áhrifum, t.d. dvalarstaði fólks, útsýnisstaði og áningarstaði við fjölfarna vegi og ljósmyndir teknar á völdum stöðum.
USNL-nefnd tekur undir með framkvæmdaraðila að gríðarlega mikilvægt er að vanda vel til þegar kemur að ásýnd og sjónrænum þáttum enda háspennulínur sýnileg mannvirki sem skerða mjög upplifun af landslagi. Mikilvægt að leggja fram áætlun um mótvægisaðgerðir og bæta fyrir neikvæð áhrif eins og framast er unnt. Á það bæði við um mannabústaði, útsýnisstaði, ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi. Sama má segja um landslag því háspennulínur skerða sömuleiðis upplifun af landslagi.

Ferðaþjónusta:
USNL-nefnd bendir á að uppfæra þarf mynd 9.1 varðandi ferðaþjónustu í Hvalfjarðarsveit. Inn á þá mynd vantar einnig útivistarsvæðið í Álfholtsskógi. Þá má gjarnan koma fram að vegurinn um Hvalfjörð er mikið nýttur til hjólreiða. Þá vantar umfjöllun um hestamennsku og reiðvegi (fjallað er um göngu- hlaupaleiðir og hjólreiðar). Þá er Hvalfjarðarsveit að leggja útivistarstíg milli Melahverfis og Eiðisvatns. Mikilvægi Hvalfjarðarsveitar og svæðisins sem verður fyrir áhrifum af völdum línuleiðarinnar m.t.t. útivistar og ferðaþjónustu er mikið og alltaf að aukast.

Landbúnaður og skógrækt:
Valkostir Holtavörðuheiðarlínu 1 liggja um landbúnaðarland og víða nærri byggð. Einnig liggja línuvalkostir nálægt athafnasvæðum bújarða og yfir ræktunarsvæði í heimalöndum, beitarlönd og skipulögð skógræktarsvæði.
Í Hvalfjarðarsveit er stundaður blómlegur og fjölbreyttur landbúnaður og leggur sveitarfélagið ríka áherslu á að áhrif á landbúnað séu metin bæði á framkvæmdatíma og rekstrartíma. Einnig að dregið sé eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum og bætt fyrir neikvæð áhrif með mótvægisaðgerðum.

Hljóðvist:
Fram kemur að loftlínur geta haft áhrif á hljóðvist næst þeim. Hljóð frá línum er oftast veikt en stöku sinnum hærra. Það er af tveimur orsökum, annars vegar vegna vindgnauðs og hins vegar hljóðs af rafrænum uppruna. Í kringum leiðara raflínu skapast jafnframt rafsegulsvið sem er merkjanlegt næst línunni. Við loftlínur er einnig bæði raf- og segulsvið, sem minnkar þó hratt með aukinni fjarlægð frá línunum, og við jarðstrengi myndast segulsvið.
Hvoru tveggja skerðir mjög lífsgæði fólks í nágrenni við háspennulínur og því leggur USNL-nefnd á mikilvægi þess að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum á hljóðvist og raf- og segulsvið.

Varðandi leyfi fyrir umrædda framkvæmd, þá þarf að afla framkvæmdaleyfis Hvalfjarðarsveitar á þeim hluta línuleiðarinnar sem liggur um sveitarfélagið á grundvelli 13. og 14. gr. Skipulagslaga nr. 123/2021 og reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Að lokum vill USNL-nefnd koma því á framfæri að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur á 350. fundi sínum þann 26. apríl 2022 samþykkt að auglýsa Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2020-2032 tekur við af Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020. Tillagan verður til kynningar til 22. Júní 2022. Í stefnu nýja Aðalskipulagsins segir m.a. að sem flestar háspennulínur verði settar í jörð og þar sem háspennulínur séu ofanjarðar verði leitast við að draga úr sýnileika þeirra. Þar kemur einnig fram varðandi lýsingu á Holtavörðuheiðarlínu að hún verði samsíða Vatnshamralínu 1 að mestu að nýlegu tengivirki á Grundartanga.


6.Efnistaka í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit

2011019

Álit Skipulagsstofnunar vegna efnistöku í landi Skorholts.

Með erindinu er afrit af áliti Skipulagsstofnunar vegna málsins.

Í 5. kafla álitsins segir um niðurstöðu Skipulagsstofnunar:

Í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 hefur Skipulagsstofnun farið yfir umhverfismatsskýrslu BM Vallár um efnistöku í Skorholtsnámu sem lögð var fram samkvæmt 3. gr.laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr.111/2021.
Í umhverfismatsskýrslu BM Vallár eru kynnt áform um áframhaldandi efnistöku í Skorholtsnámu í Hvalfjarðarsveit, sem hefur verið nýtt í áratugi. Sjónræn áhrif efnistökunnar verða nokkuð neikvæð en staðbundin, sökum stærðar námunnar og því mikla svæði sem þar á að raska auk samlegðaráhrifa með núverandi Bakkanámu og fyrirhugaðri aukningu á efnistöku úr þeirri námu. Þar sem svæðið er niðurgrafið og í hvarfi frá fjölförnustu stöðunum í kring, mildar það ásýndaráhrifin að einhverju leyti. Nær öll vinnsla fer fram niðri í gryfju og gryfjubarmarnir virka sem skermun vinnslusvæðisins. Áhrif á jarðmyndanir verða nokkuð neikvæð þar sem um varanlega eyðingu jarðefna er um að ræða, þær njóta þó ekki sérstakrar verndar og þeim hefur nú þegar verið raskað áþessu svæði. Áhrif vegna foks í og við námusvæðið verða takmörkuð með kynntum mótvægisaðgerðum. Framkvæmdin hefur óveruleg áhrif á gróður og fuglalíf þar sem um sé að ræða efnistöku í gróðurlitlum mel með lítilli jarðvegsþekju og fremur fábreyttu fuglalífi, sem er sambærilegt við það sem gerist umhverfis námuna.
Lagt fram til kynningar.

7.Glymur- Famkvæmdasjóður ferðamannastaða.

2009025

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.
Í maí sl. tilkynnti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra, um úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2022. Úthlutunin að þessu sinni nemur rúmum 584 milljónum króna til 54 verkefna um allt land.
Hvalfjarðarsveit, í samstarfi við landeigendur í Stóra-Botni sóttu um styrk í framkvæmdasjóðinn til viðhalds og lagfæringar á svæðinu með áherslu á stígagerð og merkingar. Verkefnið hlaut styrk að upphæð 3.500.000.-
Undirritaður hefur verið samningur við Ferðamálastofu um verkefnið.
Lagt fram til kynningar.

8.Gönguleiðir í Hvalfjarðarsveit.

2108014

Erindi frá Samtökum Sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) vegna markaðssetningar á gönguleiðum í Hvalfjarðarsveit. Gönguleiðirnar sem um ræðir eru: Síldarmannagötur, sjö tindar Hafnarfjalls og gönguleið um Álfholtsskóg. Óskað er eftir samþykki sveitarfélagsins fyrir markaðssetningunni, en skv. upplýsingum frá SSV er búið að afla samþykkis landeigenda um leiðirnar.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar leggur til við sveitarstjórn að umræddar gönguleiðir verði markaðssettar í samræmi við beiðni SSV, að því gefnu að samþykki landeigenda liggi fyrir og eftir atvikum stofnanna eins og Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar.

9.Grjótvörn í landi Saurbæjar.

2206022

Erindi frá landeiganda Strandar, Friederike Roolf.
Strönd er gamla fiskeldisaðstaðan niður við sjó, í landi Hallgrímskirkju í Saurbæ, þar sem Fjarðarskel ehf var áður til húsa.
Þannig er mál með vexti að við gamla dæluhúsið er grjótvörn til að verja húsið brimi og sjógangi.
Síðustu ár hefur vörnin skemmst þannig að stærstu grjótin hafa losnað úr garðinum og fara út á dýpra vatn, eftir standa minni steinar og jarðvegur, sem er fljótt að láta á sjá og hverfur alveg þegar mikið brim er.
Nú er svo komið að þegar stórstreymt er og þung alda, gengur sjórinn yfir vörnina sem er horfin að hluta og fer sjórinn vestur og norður fyrir húsið og flæðir inn á jarðhæð og fyllir kjallarann.
Landeigandi hefur reynt að viðhalda vörninni og keyrt grjóti og jarðvegi í sárið, en betur má ef duga skal.
Leitar landeigandi því eftir aðstoð við að gera gangskör í viðhaldi á brimvörninni.
Skipulagsfulltrúa Hvalfjarðarsveitar falið að gera vettvangsskoðun á staðnum og ræða við landeigendur um málið.
Arnheiður Hjörleifsdóttir vék af fundi kl. 16:45.

10.Gröf 2, umsókn um landskipti stofnun lögbýlis

2205006

Lögð fram umsögn héraðsráðunautar Búnaðarsamtaka Vesturlands vegna umsóknar um stofnun lögbýlis á Gröf 2 í Hvalfjarðarsveit, en skv. henni sjá Búnaðarsamtökin enga annmarka á að skráð verði lögbýli á Gröf 2.
Lagt fram til kynningar.

11.Vindorkugarður í landi Brekku- Umsögn um matsáætlun.

2201026

Zephyr Iceland ehf. hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun um vindorkugarð í landi Brekku, móttekin 8. júní 2022, skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Óskað er eftir að sveitarfélagið gefi umsögn um matsáætlunina skv. 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og 12. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Í umsögninni þarf eftir því sem við á að koma fram hvort sveitarfélagið hafi athugasemdir við það hvernig framkvæmdaraðili hyggst vinna að umhverfismati framkvæmdarinnar, út frá sínu starfssviði, svo sem um skilgreiningu valkosta, gagnaöflun, úrvinnslu gagna, umhverfismat og framsetningu umhverfismatsskýrslu. Einnig, ef á skortir, hvaða atriðum sveitarfélagið telur að gera þurfi frekari skil eða hafa þurfi sérstaklega í huga við umhverfismat framkvæmdarinnar. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmdin er háð.
Umsögnin óskast send Skipulagsstofnun fyrir 20. júlí nk. á tölvupóstföngin: skipulag@skipulag.is og jakob@skipulag.is.
Samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að gera tillögu að umsögn sem lögð verði fram á næsta fundi nefndarinnar.

12.Narfastaðaland 4 no.2 - Íbúðarhús og stakstæð bílgeymsla

2202002

Erindi frá byggingarfulltrúa.
Með erindinu fylgdi byggingarleyfisumsókn og uppdrættir frá Grímu arkitektum, af nýju íbúðarhúsi, matshluti 01, stærð 192,3 m2 / 683,2 m3 ásamt bílgeymslu, matshluti 02, stærð 96,6 m2 / 325,2 m3, á lóð 4 nr. 2 í landi Narfastaða. Heildarstærð beggja matshluta er 288,9 m2 og 1.008,4 m3. Húsið verður forsteypt einingahús með sléttu pappaklæddu þaki. Vegur verður lagður norðaustanvert við húsið og tengist hann aðkomuvegi svæðisins. Allt skólp er leitt í viðurkennda hreinsistöð, staðsett á lóð í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands. Landeignanúmer lóðar er 203957, stærð lóðar er 4,96 ha. Á svæðinu eru verndaðar fornminjar og tekur byggingarreitur lóðarinnar mið af því. Innan lóðar eru minjar BO-103:004 skv. fornminjaskrá.
Á 155. fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar, dags. 02.02.2022 og 345. fundi sveitarstjórnar dags. 08.02.2022 var samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum og landeigendum Narfastaða. Einnig að ganga þurfi frá kvöð um aðkomu að lóðinni og aðgengi að neysluvatni.

Árið 2020 sóttu landeigendur um leyfi sveitarfélagsins fyrir borun eftir neysluvatni í landi Narfastaða og var framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins veitt fyrir því sbr. 319. fundur sveitarstjórnar dags. 08.12.2020 og holan boruð í framhaldi eða um áramót 2020/2021. Fékkst vatn á 110 m dýpi og var holan því virkjuð.
Varðandi aðkeyrslu þá nota lóðarhafar í landi Narfastaða sama veg og er að gamla bæjarstæðinu, Narfastaðir ehf. eiga veginn og halda honum við fyrir þá sem eiga land að, þetta er sami vegur og Narfasel notar í dag.

Engar athugasemdir bárust á kynningar- og athugasemdatímabili grenndarkynningar.
Umhverfis-, skipulags- náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi á grundvelli niðurstöðu grenndarkynningar sem framkvæmd var sbr. 44. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

13.Br.ASK-Draghálsvirkjun

1911008

Þann 17. janúar 2022 hélt sveitarfélagið fund með fulltrúum Dragháls þar sem m.a. var rætt um fyrirhuguð rif á óleyfismannvirkjum sem risið hafa í landi Dragháls. Á fundinum ræddu fulltrúar Dragháls um að þeir hyggðust reyna að ná samkomulagi við veiðifélagið um að nýta virkjunarmannvirkin til miðlunar vatns fyrir Laxá. Voru þessar hugmyndir ræddar á fundi veiðifélagsins í árslok 2021. Fundur var haldinn hjá Veiðifélagi Laxár miðvikudaginn 30. mars 2022 þar sem fulltrúar Dragháls hefðu farið yfir sínar hugmyndir um hvernig nýta mætti stíflumannvirki sem risin væru til vatnsjöfnunar fyrir vatnasvæði Laxár. Í framhaldi fundarins ætluðu fulltrúar Dragháls að senda veiðifélaginu formlegt erindi vegna málsins sem og var gert. Í svari veiðfélagsins með bréfi dags 18.05.2022 vísaði veiðifélagið til þess að engar nýjar forsendur hafi komið fram er breyti fyrri afstöðu veiðifélagsins.
Á 352. fundi sveitarstjórnar dags. 24.05.2022 var samþykkt tillaga nefndarinnar um að fela skipulagsfulltrúa og lögmanni sveitarfélagsins að sjá til þess að niðurrif stíflumannvirkja sem reist voru í óleyfi verði hafið sem fyrst og beitt verði dagsektum gerist þess þörf.
Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd samþykkir að beina því til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að hefja niðurrif stíflumannvirkja sem reist voru í óleyfi í landi Dragháls, að undangengnum lögformlegum samþykktum sveitarstjórnar og samskiptum við landeiganda vegna málsins.

14.Breyting á skilti við Hvalfjarðargöng - framkvæmdaleyfi

2205056

Erindi dags. 20.05.2022 frá Engilbert Runólfssyni er varðar skilti í landi Innri-Hólms.
Sótt er um breytingu á skilti við Hvalfjarðargöng, skiltinu verði breytt í einnar eða tveggja hliða LED upplýsinga- og auglýsingaskilti með meðal annars klukku og vindmæli, svipað stórt og nú er. Engar frekari jarðvegsframkvæmdir eru fyrirhugaðar og ekki verður bætt við stöplum á núverandi undirstöðu. Þarna gætu skv. erindinu m.a. birst upplýsingar um veður, færð, ástand Hvalfjarðarganga osfrv., og yrði sambærilegt og er víða að sjá við þjóðveg 1, m.a við Selfoss, Kelfalvík, í Kópavogi og í Reykjavík.
Núverandi leigusamningur um landið gildir til ársins 2026 og skv. erindinu er landeigandi upplýstur um málið.
Samþykkt að fela Skipulagsfulltrúa að funda með umsækjanda og afla frekari upplýsinga.

15.Brunavarnir í frístundabyggðum og leiðbeiningar vegna húsnæðis slökkvistöðva.

2205055

Erindi frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) annast gerð leiðbeininga um brunavarnir. Leiðbeinigar þessar eru meginreglur og í stöðugri endurskoðun.
Með erindi þessu er tilkynnt að komin eru í kynningu ný drög að leiðbeiningum sem eru nú aðgengilegar á vef HMS, https://hms.is/brunavarnir/brunavarnir/leidbeiningar-um-brunavarnir/drog-ad-leidbeiningum-til-umsagnar/

1) Leiðbeining við reglugerð 747/2018 við gr. 18, Húsnæði og fyrirkomulag slökkvistöðva og útstöðva.
2) Leiðbeining við lög nr. 75/2000 um brunavarnir við 23.gr, Brunavarnir í frístundabyggð.

Er hagsmunaaðilum hér með gefinn kostur á að kynna sér efni leiðbeininganna og senda athugasemdir, leiðréttingar og viðbætur, ef einhverjar eru, á netfangið brunavarnasvid@hms.is
Frestur til að skila athugasemdum er 30 dagar frá því að drögin birtast á vefsíðu HMS þ.e. frá 18.05.2022.
Drögin eru jafnframt meðfylgjandi erindi þessu.
Lagt fram til kynningar.
Samþykkt að óska samstarfs við slökkviliðsstjóra slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar og að sveitarfélagið skili umsögn vegna erindisins.

16.Stjórnsýslukæra nr. 55-2022, vegna byggingarleyfis Móhóll 7.

2205065

Erindi dags. 30.05.2022 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varðar stjórnsýslukæru dags. 30.05.2022, þar sem kærð er ákvörðun Hvalfjarðarsveitar um útgáfu byggingarleyfis vegna Móhóls nr. 7 í landi Hafnar.
Er þess krafist að byggingarleyfi dags. 28.09.2021, sem gefið var út af Hvalfjarðarsveit vegna byggingarframkvæmda á Móhól 7, verði fellt úr gildi.
Lagt fram til kynningar.

17.Stjórnsýslukæra nr. 33-2022, vegna vegar að Ölver 12.

2204040

Erindi dags. 20.04.2022 frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varðar stjórnsýslukæru dags. 20.04.2022, þar sem kærandi krefst þess að mega nota veg að Ölveri 12 óhindrað af landeiganda og að vegurinn verði settur inn í deiliskipulag Hvalfjarðarsveitar ef hann er ekki þar.

Á 350. fundi sveitarstjórnar þann 26.04.2022 var samþykkt að fela skipulagsfulltrúa og lögmanni sveitarfélagsins að svara erindinu og koma sjónarmiðum sveitarfélagsins á framfæri.
Lagt fram svarbréf lögmanns sveitarfélagsins vegna málsins dags. 19.05.2022.
Lagt fram til kynningar.

18.Sveitarfélagaskólinn.

2205035

Skráning er hafin í Sveitarfélagaskólann á vegum Sambands Íslenskra sveitarfélaga og hvetur Sambandið til þátttöku bæði fyrir aðal- og varamenn en námskeiðin geta einnig gagnast stjórnendum, starfsfólki nefna sem og öðru starfsfólki á skrifstofum sveitarfélaga.
Um er að ræða níu stafræn námskeið, sem hver og einn getur tekið þegar viðkomandi hentar.
Stefnt er að því að fleiri námskeið verði aðgengileg næsta haust.
Lagt fram til kynningar.

19.Námskeið fyrir nýja skipulagsnefnd

2206023

Erindi frá Eflu verkfræðistofu þar sem verið er að bjóða sveitarfélögum námskeið fyrir nýja skipulagsnefnd/sveitarstjórn m.a. til að fara yfir helstu þætti skipulagsmála.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:00.

Efni síðunnar