Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2014-2018

135. fundur 02. mars 2017 kl. 16:15 - 16:15 í stjórnsýsluhúsinu Innrimel 3
Nefndarmenn
  • Daníel Ottesen formaður
  • Dagný Hauksdóttir varaformaður
  • Björn Páll Fálki Valsson aðalmaður
  • Berglind Jóhannesdóttir aðalmaður
  • Ingibjörg María Halldórsdóttir aðalmaður
  • Guðmunda Júlía Valdimarsdóttir áheyrnafulltrúi
  • Marie Greve Rasmussen áheyrnafulltrúi
  • Örn Arnarson áheyrnafulltrúi
  • Elín Ósk Gunnarsdóttir áheyrnafulltrúi
  • Sigríður Lára Guðmundsdóttir embættismaður
  • Eyrún Jóna Reynisdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði: Ingibjörg M. Halldórsdóttir ritari
Dagskrá

1.Tillaga-Stjórnskipulag Leik- og grunnskóla.

1702019

Frestað á síðasta fundi.
Tillaga Fræðslu- og skólanefndar um stjórnskipulag Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar

Í desember 2016 fól sveitastjórn Fræðslu- og skólanefnd að meta faglega og rekstrarlega sameiningu leik-og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar s.l fimm ár. Lögð var fram tillaga Gunnars Gíslasonar ráðgjafa um hvernig nálgast mætti verkefnið. Jafnframt lágu fyrir samantekin gögn skýrslur/kynningar/álit frá hagsmunaaðilum sem unnin voru fyrir og eftir sameininguna.

Eftir að nefndin hafði farið yfir tillögur Gunnars og fyrirliggjandi gögn um málið var það álit nefndarmanna að nýta frekar gögn sem til eru um skólastarf í Hvalfjarðarsveit en að afla nýrra til að leggja mat á sameiningu skólanna. Þau gögn sem til eru hjá sveitarfélaginu varðandi skoðanir hagsmunaaðila á sameiningu leik- og grunnskólans eru nokkuð yfirgripsmikil. Um er að ræða viðhorfskannanir starfsmanna og foreldra frá árunum, 2012 - 2016 auk formlegra úttekta; Milli mjalta og málmbræðslu - Skólastarf í Hvalfjarðarsveit (2011) og Skólastarf í Hvalfjarðarsveit- fagleg úttekt (2015). Ásamt starfsskýrslum skólanna fyrir tímabilið 2015-2017. Við greiningu gagnanna voru dregnir fram þeir kostir og gallar sem þar koma fram um sameiningu skólanna. Niðurstöður þeirrar vinnu má sjá í viðauka 1.

Út frá þessum niðurstöðum var samdóma álit nefndarmanna að leggja til við sveitastjórn að farið verði í breytingar á skipuriti og starfslýsingum á starfi skólastjórnenda í leik-og grunnskóla. Þannig verður hægt að byggja á kostum sameinaðs skóla en samstarfið á milli leik-og grunnskóla hefur verið í stöðugri og jákvæðri þróun frá sameiningu, sem börnin njóta góðs af. Með slíkri skipuritsbreytingu skapast jafnframt tækifæri til að taka á þeim annmörkum sem komið hafa fram varðandi sameiningu skólanna. Nefndin álítur að með þessu sé verið að gera betrumbætur í ytra skipulagi skólastarfsins sem byggja á þeirri miklu og faglegu vinnu sem starfsfólks skólanna hefur innt að hendi síðastliðin ár.
Hugmyndin tekur til þess að skólastjórnendur verði tveir, fagmenntaðir á hvoru stigi fyrir sig, einn í Heiðarskóla hinn í Skýjaborg sem starfa saman í skólastjórn. Nefndin vildi jafnframt njóta starfskrafta Gunnars Gíslasonar til að vinna hugmyndina áfram ef hún fengi brautargengi hjá sveitarstjórn.

Í lok janúar s.l. skilar Gunnar af sér tillögum sem nefndin tók fyrir á fundi 13. febrúar s.l.. Þar var búið að stilla upp þrem kostum: Tillaga 1 - tveir skólastjórar, fagmenntaðir á hvoru skólastigi fyrir sig í sameinuðum leik-og grunnskóla, tillaga 2 - óbreytt skipurit frá sameiningu og tillaga 3 - sameiningu slitið og skólarnir reknir sem sjálfstæðar einingar. Nefndin frestaði afgreiðslu af afloknu kynningar og umsagnarferli hagsmunaaðila.

Haldnir voru kynningarfundir fyrir sveitastjórn, fræðslu- og skólanefnd, starfsfólk Skýjaborgar, starfsfólk Heiðarskóla og stjórn Foreldrafélags leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar. Jafnframt var málið kynnt og rætt í skólaráði. Foreldar fengu hugmyndirnar sendar í tölvupósti og gafst þeim tækifæri til umsagnar.

Á fundi nefndarinnar 23. febrúar var málið tekið fyrir ásamt þeim umsögnum sem borist höfðu frá hagsmunaaðilum. Ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins til fimmtudagsins 2. mars þar sem hagsmunaaðilar fengu of knappan tíma til umsagna og nefndin til úrvinnslu þeirra.

Umsagnir bárust frá; Starfsfólki Skýjaborgar, Eyrúnu Jónu Reynisdóttur, Söru Margréti Ólafsdóttur, Foreldrafélagi Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar, Ásu Hólmarsdóttur, Sigurbjörgu Friðriksdóttur, Skólaráði Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar og starfsfólki Heiðarskóla.

Niðurstöður þeirra eru eftirfarandi: Enginn vildi halda áfram með tillögu 2 (núverandi skipurit), nánast allir voru jákvæðir fyrir tillögu 1 og/eða sáu í henni tækifæri. Einn vildi eingöngu sjá tillögu 3 en nokkrir töldu að hægt væri að halda áfram góðu samstarfi milli stofnanna þó svo að þeim væri stýrt í sitthvoru lagi.

Umsagnaraðilar komu með eftirfarandi athugasemdir sem nefndin vann áfram með:
Hagsmunaaðilum gefinn of knappur tími til að kynna sér málið og koma með umsagnir
Ekki sérstakur kynningarfundur fyrir foreldra
Athugasemdir um kynninguna sjálfa og skoðanir ráðgjafa
Hvernig hefur sambærilegt fyrirkomulag gengið í Mosfellsbæ ?
Starfslýsingar þurfa að vera skýrar fyrir alla
Hugnast illa að starfsfólk flakki milli stofnanna nema þá sérstakir “flakkarar”
Leikskólinn verði undir - stærri stofnunin taki yfir
Áhyggjur af stjórnunarlegum ágreiningi
Ábendingar um flótta leikskólakennara úr leikskólanum eftir sameiningu
Áhyggjur af að leikskólastarfið verði grunnskólamiðað
Enn þörf á að auka samtal og skilning milli fagstétta í leik- og grunnskólanum
Ekki leitað ráðgjafar hjá leikskólamenntuðum einstaklingi - Gunnar er grunnskólamenntaður
Nefndinni bent á að kynna sér nýjar rannsóknir á því hvernig og við hvaða námsaðstæður (skólaskipulag) börn læra best og þá með áherslu á leikskólastarf. (samskipti, leikur og nám)

Úrvinnsla athugasemda
Umsagnarfrestur hagsmunaaðila lengdur til 28. febrúar 2017
Foreldrum send skýrslan í tölvupósti í stað kynningarfundar
Rætt við núverandi skólastjórnendur og fulltrúa kennara af báðum skólastigum um ákveðin atriði er fram komu frá umsagnaraðilum
Starfslýsingar skólastjórnar verður unnin fyrir umsóknarferli
Tekin var saman tafla um mönnun leikskólans frá árunum 2009-2016 (viðauki 2)
Leita ráðgjafar hjá Örnu H. Jónsdóttur lektor við HÍ

Niðurstaða nefndarinnar
Af umsögnum hagsmunaaðila að dæma virðist ríkja almenn sátt um skólastarf í Hvalfjarðarsveit um þessar mundir og ekki afgerandi vilji til að slíta sameiningunni. Starfsfólk skólanna er ánægt með það fyrirkomulag stjórnunar sem verið hefur þetta skólaár og leggjast ekki gegn þeirri skipuritsbreytingu sem hér um ræðir og flestir sjá í henni tækifæri.

Það er vilji Fræðslu- og skólanefndar að skólastigin haldi áfram því samstarfi sem þróast hefur undanfarin ár í kjölfar sameiningar. Með tillögu 1 er sveitarfélagið að sýna þann vilja í stefnumörkun sinni með því að skapa samstarfsflöt stofnananna með sameiginlegri skólastjórn. Það er mat núverandi skólastjórnenda að aukið samstarf leik- og grunnskólakennara undanfarinna ára hafi skilað meiri skilningi á störfum hvers annars og að orðræðan sé jákvæðari milli skólastiga. Núorðið nær samstarfið því ekki er einungis til yfirfærslu milli skóla til að draga úr spennu og kvíða fyrir börnin heldur hefur áherslan einnig verið á aukna samfellu í námi milli skólastiga, t.d. með mótun sameiginlegrar læsisstefnu og samfellu í stoðþjónustunni. Að okkar mati mun slíkt samstarf annars ekki vera eins markvisst og ylti meira á áhuga og vilja skólastjórnenda hverju sinni.

Almenn ánægja hefur verið með fyrirkomulag stoðþjónustu skólans frá sameiningu. Foreldrar og starfsfólk upplifa samfellu í þjónustu á milli skólastiganna þar sem sömu fagaðilar sinna börnum bæði í leik- og grunnskólanum. Auðveldar það til muna yfirfærslu milli skóla sem oft er flóknari fyrir börn sem þurfa á stoðþjónustunni að halda en önnur. Til dæmis hefur sami aðili (sérkennari) þekkingu á greiningarprófinu HLJÓM-2 sem lagt er fyrir í leikskólanum og nýtir m.a. niðurstöðurnar við skipulagningu á sérkennslu í grunnskólanum. Sérkennarinn þekkir börnin því vel og veit nákvæmlega þeirra stöðu þegar í grunnskólann kemur. Sameiginlegt Nemendaverndarráð hefur einnig gefið góða raun, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta.

Við teljum að skólarnir muni áfram halda sérstöðu sinni líkt og þeir hafa gert og litlar líkur séu á að áhrif stærri stofnunarinnar gæti á þá minni þar sem skólastjórnendur verða fagmenntaðir á hvoru stigi fyrir sig og hafa jafnt vægi í skólastjórn. Jafnframt má líta á fjarlægðina milli starfsstöðva sem kost í þessu samhengi. Við sjáum enn frekar í því tækifæri og viljum styðja við að starfsaðferðir leikskólans muni frekar gæta upp í yngstu bekki grunnskólans við aukið faglegt samtal og skynjum við vilja til þess af báðum skólastigum. Í ljósi reynslunnar annarsstaðar frá er aftur á móti mikilvægt að sveitastjórn og fræðslu- og skólanefnd sé meðvituð um þessa hættu og styðji við leikskólastjóra í að standa vörð um leikskólastarfið.

Lengi hefur verið erfitt að fá fagmenntaða leikskólakennara til starfa á Skýjaborg, bæði fyrir og eftir sameiningu. Eins og sést á töflunni í viðauka 2 sem spannar stöðuna í lok árs frá árunum 2009-2016. Mest hafa leikskólakennarar verið fjórir, árið 2010 og 2013 og minnst tveir, árið 2012 og 2015. Árið 2011, 2014 og 2016 voru þeir þrír. Skortur á leikskólakennurum er alvarlegt vandamál sem þekkist víðar en í Hvalfjarðarsveit og er það m.a. mikið áhyggjuefni hversu stórt hlutfall leikskólakennara starfa ekki við fag sitt. Fræðslu- og skólanefnd hefur fullan skilning á því að sumum leikskólakennurum huggnist ekki að vinna undir stjórn þeirra sem eru ekki fagmenntaðir á sviðinu. Þó er ekki hægt að draga þær ályktanir með óyggjandi hætti að það sé helsta ástæða skorts á leikskólakennurum síðastliðin ár í Hvalfjarðarsveit. Við teljum þó eðlilegt og sjálfsagt að faglegur leiðtogi Skýjaborgar sé leikskólakennari og er það ein ástæða þess að nefndin leggur til þessar skipuritsbreytingar.

Ef tillaga 1 fær brautargengi í sveitastjórn er mikilvægt að ráða til starfa skólastjórnendur sem deila þessari sýn og viðhorfum. Nauðsynlegt er að þeir hafi hæfileika og vilja til náinnar samvinnu í skólastjórnarteymi. Það að tveir skólastjórar fari með stjórnun í sama skóla er ekki óþekkt stjórnskipulag, hvorki hér á landi né erlendis en telst þó ekki hefðbundið. Helstu kostir slíks kerfis eru; sameiginleg ábyrgð, stuðningur, samskipti og samstarf. Áskoranirnar snúa hinsvegar að hversu vel stjórnendurnir ná að vera samstíga. Starfslýsingar og verkferlar þeirra þurfa að vera skýrir. Jafnframt þurfa þeir að ræða og útbúa áætlun um hvað gera skuli ef upp kemur ágreiningur sem þeir ná ekki að leysa úr með málamiðlunum.

Nefndin leitaði ráðgjafar hjá dr. Örnu H. Jónsdóttur lektors við Háskóla Íslands sem skilaði greinargerð vegna tillagna Gunnars Gíslasonar ráðgjafa að skipuriti leik- og grunnskóla og minnisblaði fræðslu- og skólanefndar Hvalfjarðarsveitar. Þar fjallar Arna um þau ákvæði í lögum og aðalnámskrám skólastiganna sem í gildi eru um samrekstur leik- og grunnskóla svo og um tengsl þeirra og samstarf. Jafnframt gerir hún grein fyrir áliti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands vegna sameininga skóla í Reykjavík, segir frá helstu rannsóknum á málefninu og ásamt því að fjalla um tillögur og greinargerð Gunnars Gíslasonar. Í skýrslunni dregur Arna m.a. fram þann ávinning og hindranir sem fram koma í skýrslum og rannsóknum tengdum sameiningum skóla og vill nefndin byggja á þeirri samantekt og vinna áfram með hana í samvinnu við nýja skólastjórnendur og starfsfólk skólanna. Búið er að sameina skólana en ljóst er að áframhaldandi stefnumörkun og eftirfylgd með hagsmuni allra að leiðarljósi var verulega ábótavant í kjölfar sameiningar. Sá árangur sem þó hefur náðst er að öllu leyti faglegri vinnu starfsfólks skólanna að þakka. Við teljum að sátt geti ríkt um þessa tillögu í samfélaginu.

Nefndin leggur til að Gunnar Gíslason verði fenginn til að sjá um ráðningarferli skólastjórnenda ásamt sveitastjóra og Fræðslu- og skólanefnd og að auglýst verði um miðjan mars 2017.

Fundi slitið - kl. 16:15.

Efni síðunnar