Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

29. fundur 18. júní 2008 kl. 17:00 - 19:00

Arnheiður Hjörleifsdóttir, Baldvin Björnsson, Petrína Helga Ottesen, Andrea Anna Guðjónsdóttir og Gauti Halldórsson 

 

Arnheiður setti fundinn, bauð fólk velkomið og var síðan gengið til dagskrár.

1. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014, minkun

og breytt skilgreining efnistökusvæðis E6 í landi Hafnar II Hvalfjarðarsveit. Erindi frá Skipulagsstofnun dags. 10. janúar 2008.

Í erindi Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin gerir athugasemdir við efni og form tillögunnar og bendir á að leita þarf umsagnar náttúruverndarnefndar sveitarfélagsins.

Nefndin ræddi efnisatriði tillögunnar, ásýnd núverandi efnistöku, vatnsverndarmál og stefnumörkun sveitarfélagsins í Staðardagskrá 21. Arnheiði falið að ganga frá umsögn nefndarinnar í samræmi við þær umræður sem fóru fram á fundinum.

2. Umhverfisviðurkenningar 2008. Tillaga formanns. Arnheiður lagði fram tillögu að fyrirkomulagi umhverfisviðurkenninga í Hvalfjarðarsveit árið 2008, en áður hefur verið samþykkt að umhverfisviðurkenning í ár komi hlut fyritækis eða stofnunar í sveitarfélaginu. Tillaga Arnheiðar samþykkt samhljóða en hún felur m.a. í sér að auglýst verður eftir rökstuddum tilnefningum í dreifibréfi og á heimasíðu sveitarfélagsins. Tilefningarnar þurfa að berast fyrir 8. ágúst nk. Arnheiði falið að vinna áfram að málinu.

3. Digrilækur 1. Tillaga að nýju deiliskipulagi. Erindi til umsagnar nefndarinnar, sent frá Skipulags- og byggingarfulltrúa þann 23. maí sl.

4. Digrilækur 1. Varðar breytingu á aðalskipulagi. Erindi til umsagnar

nefndarinnar, sent frá Skipulags- og byggingarfulltrúa þann 23. maí sl.

Nefndin samþykkir að fjalla um lið 3 og 4 samhliða. Undir þessum lið lagði

Arnheiður fram minnisblað frá Mannviti verkfræðistofu, tekið saman fyrir

umhverfisnefnd. Talsverðar umræður urðu um málefnin m.a út frá aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar. Nefndin sammála um að hér sé um verulega breytingu á landnýtingu og starfsemi á svæðinu að ræða sem skoða þurfti betur. Samþykkt að ganga frá umsögn til skipulags- og byggingarfulltrúa um málið á næstu dögum.

5. Hundahald í Hvalfjarðarsveit, erindi frá sveitarstjórn dags. 15. maí sl.

Athugasemdir við reglur um hundahald í Hvalfjarðarsveit.

Nefndin minnir á að það var ekki tillaga umhverfisnefndar að Stóra-

Lambhagahverfið yrði skilgreint sem íbúakjarni í drögum að hundasamþykkt fyrir Hvalfjarðarsveit. Sveitarstjórn bætti því við í endanlegri útgáfu. Þá áréttar nefndin að hún hyggst endurskoða hundasamþykktina reglulega í samráði við hundaeftirlitsmann sveitarfélagsins, með það að markmiði að sníða af hugsanlega hnökra sem reynslan kann að leiða í ljós. Þá fagnar nefndin öllum góðum, gagnlegum og vel rökstuddum ábendingum.

6. Flúormengun í sauðfé, bókun sveitarstjórnar á fundi sínum þann 1. apríl sl. Nefndin leggur á það ríka áherslu að vandað verði til við sýnatökur komandi haust og einnig að gengið verði eftir því að einstaka bæir falli ekki út úr mælingunum.

7. Samráð við sveitarfélög varðandi Héraðsáætlanir Landgræðslunnar. Erindi frá sveitarstjórn dags. 1. apríl sl.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að Baldvin Björnsson verði tengiliður

nefndarinnar (og sveitarstjórnar) við Landgræðsluna.

 

Mál til kynningar

8. Erindi frá Úrvinnslusjóði, dags. 28. mars sl. og varðar breytt fyrirkomulag varðandi greiðslu fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöðvum. Lagt fram.

9. Ársfundur náttúruverndarnefnda haldinn á Egilsstöðum þann 8. maí sl.

Kynning Petrínu Helgu Ottesen, sem var fulltrúi Hvalfjarðarsveitar á fundinum. Petrína lagði fram samantekt frá fundinum sem að þessu sinni bar yfirskriftina: Friðlýst svæði - tákn eða tækifæri. Umhverfisnefnd þakkar Petu greinargóða kynningu og telur mikilvægt að eiga fulltrúa á þessum fundum.

10. Umhverfisdagur Norðuráls og ÍJ haldinn á Hótel Glym þann 21. maí sl.

Kynning Arnheiðar á málinu sem fór á kynninguna. Hún lagði fram

vöktunarskýrslu fyrir rekstrarárið 2007 fyrir iðnaðarsvæðið á Grundartanga sem og glærur frá fundinum.

11. Erindi frá Umhverfisstofnun, dags. 26. maí sl. og varðar viðmiðunartaxta ríkisins vegna refa- og minkaveiði uppgjörstímabilið 1. sept. 2007 til 31. ágúst 2008. Lagt fram.

12. Fræðslustarf á vegum Umhverfisráðuneytis. Erindi, bæklingar og rit sent frá skrifstofu sveitarfélagsins þann 10. júní sl. Ýmis kynningarrit og bæklingar lagðir fram fundarrmönnum til kynningar.

 

Fleira var ekki rætt fundi slitið kl. 19:25.

Næsti fundur áætlaður 11. ágúst 2008.

Andrea Anna Guðjónsdóttir ritaði fundargerð

Efni síðunnar