Fara í efni

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd 2006-2011

7. fundur 09. desember 2006 kl. 13:00 - 15:00

Arnheiður, Bylgja, Jóhanna og Petrína

  1. Bylgja sagði frá fundi sínum með sveitarstjóra sem var mjög jákvæður gagnvart því að sveitarfélagið greiði fyrir hundahreinsun. Hreinsunin verður að Skipanesi en Gunnar Gauti dýralæknir ákveður dagsetningu.
  2. Sorphirðumál. Arnheiður, Bylgja og Jóhanna höfðu ráðfært sig við ýmsa aðila innan sem utan sveitarfélagsins varðandi sorphirðugjöld. Nefndin var sammála um að það skipti miklu að ræða þetta mál í kjölinn og komast að sameiginlegri niðurstöðu þótt það tæki langan tíma og mikla vinnu. Arnheiður lagði fram tillögu sína byggða á umræðum fyrri fundar nefndarinnar um sama málefni, og var gengið til umræðu um hvern lið fyrir sig.  Eftirfarandi samþykkt var gerð:

 

-          Fyrirtæki í Hvalfjarðarsveitséu undanskilin sorphirðugjaldi, og sjái þess í stað um sín úrgangsmál sjálf. (Umræða: önnur sveitarfélög sem eru aðilar að verksamningi um sorphirðu (dags. 16. des. 2005) hafa farið þessa leið. Fyrirtæki eru ólík hvað varðar starfsemi þeirra og umfang, og því nánast útilokað að leggja á sanngjarnt sorphirðugjald. Þá telur umhverfis- og náttúruverndarnefnd hægara fyrir fyrirtækin að móta sér sína eigin stefnu í úrgangsmálum og ná fram hagræðingu í málaflokknum, sé hann á þeirra eigin ábyrgð). Nefndin óskar í kjölfar þess eftir að gerð verði skrá yfir fyrirtæki í sveitarfélaginu.

-          Sorphirðugjald á sumarhús(byggingarstig 7 og yfir) verði 7.914 krónur. (Umræða: Samkvæmt gefnum forsendum og útreikningum mun sú upphæð standa undir um 75% af raunkostnaði. Nokkur óvissa ríkir um valda þætti, s.s. fjölda sumarhúsa, fjölda grenndarstöðva sem greitt er fyrir og sorpmagn úr þeim. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd hefur sett sér það markmið að funda með fulltrúum sumarhúsafélaga í Hvalfjarðarsveit snemma á næsta ári, bæði til að gefa þeim færi á að koma sínum hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri við Umhverfis- og náttúruverndarnefnd og til þess að vinna sameiginlega að staðsetningu grenndarstöðva. Með því móti vonast nefndin til að hægt verði að ná fram sátt um grenndarstöðvarnar og hagræðingu í rekstri þeirra.

-          Sorphirðugjald á íbúðarhúsverði 9.294 krónur. (Umræða: samkvæmt gefnum forsendum og útreikningum mun sú upphæð standa undir um 60% af raunkostnaði. Nokkur óvissa ríkir um valda þætti, s.s. fjölda íbúðarhúsa). Umhverfis- og náttúruverndarnefnd beinir þeim tilmælum til sveitarstjórnar að þeir sem uppfylla skilyrði  til lækkunnar á opinberum gjöldum njóti þess einnig varðandi álagninu sorphirðugjalda.

 

 

 

Frekari tillögur og ábendingar umhverfis- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar varðandi sorphirðu og úrgangsmál:

 

-          Umhverfis- og náttúruverndarnefnd leggur til að sveitarstjórn geri það að stefnu sinni að sorphirðugjald muni standa undir kostnaði. Því markmiði verði náð með að innheimta sorphirðugjald og endurskoða verksamning um sorphirðu. Þetta muni gerast í nokkrum áföngum á næstu 5 árum. Í þessu sambandi vill Umhverfis- og náttúruverndarnefnd minna sveitarstjórn á að samkvæmt lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er óheimilt að niðurgreiða kostnað vegna förgunnar úrgangs úr sjóðum sveitarfélagsins. Að sama skapi er rétt að benda á að gjald fyrir meðhöndlun úrgangs (hirðingin fyrir utan urðun) má ekki mynda tekjur inn í sveitarsjóð.

-          Umhverfis- og náttúruverndarnefnd leggur eindregið til að úrgangsmál í sveitarfélaginu séu skoðuð heildrænt og möguleikar á frekari endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs í sveitarfélaginu kannaðir. Hugmyndir nefndarinnar  eru m.a. eftirfarandi:

o   Komið verði  upp a.m.k. einni grenndarstöð þar sem íbúum er boðið upp á grófa flokkun (pappír, fernur, dósir og jafnvel fleira).

o   Útbúinn verði staður þar sem íbúar geti skilað af sér mold og garðaúrgangi og jafnvel ónýtum heyrúllum (jarðgerðarnáma).

o   Samhliða aðgerðum sveitarstjórnar um að láta sorphirðu standa undir kostnaði, verði mikil áhersla lögð á hagræna hvata, sem hvetur fólk til flokkunar og lágmörkunar úrgangs. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd leggur til að skoðaður verði möguleikinn á að sorp sé sótt annað hvert skipti til þeirra sem þess óska og að sama skapi þurfi viðkomandi ekki að greiða nema helming sorphirðugjalds. Annar möguleiki er að í stað þess að sorp sé sótt á 10 daga fresti, sé það sótt hálfsmánaðarlega og kostnaður við aðra tunnu sé talsverður. 

o   Leitað verði leiða til að innleiða heimajarðgerð í sveitarfélaginu. Kannaðir verði þeir möguleikar sem í boði eru, og jafnvel stofnaður jarðgerðarhópur.

 

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd ítreka við sveitarstjórn að um gríðarlega umfangsmikinn málaflokk er að ræða. Ljóst er að tækifæri Hvalfjarðarsveitar í málaflokknum eru mörg, en ógnanirnar að sama skapi til staðar. Nefndin hefur lagt mikla vinnu í ofanlagðar upplýsingar, en betur má ef duga skal. Þróunin er sú að sorpmagn frá heimilum fer sífellt vaxandi, enda um neyslutengdan málaflokk að ræða. Ekki má slaka á, heldur þvert á móti þarf að hefjast handa við undirbúning þeirra verkefna sem hér hafa verið upptalin. Að lokum telur Umhverfis- og náttúruverndarnefnd nauðsynlegt að hennar verksvið sé skýrt hvað varðar heimild til þess að leita utanaðkomandi aðstoðar eða ráðgjafar við einstaka málaflokka, eins og t.d. úrgangsmálin, sem hún telur sérstaklega viðamikinn.

 

 

 

  1. Seyrumál. Nefndin sammála um að gera engar athugasemd við tillöguna sem barst henni um eyðingu og urðun.
  2. Undirbúningur fyrir starfsárið 2007. Nefndarmenn komu með tillögur um verkefni sem sett yrðu í forgang hjá Umhverfis- og náttúruverndarnefnd á næsta ári og kostnað við þau. Talsverðar umræður urðu um verkefnin, hvernig skyldi raða þeim og hugsanlegan kostnað við framkvæmdir. Ákveðið að sameina listana og hafa tilbúinn fyrir næsta fimmtudag.

 

Fundi slitið kl 15:10

Efni síðunnar