Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

60. fundur 14. febrúar 2011 kl. 17:45 - 19:45

Birna María Antonsdóttir, Valgerður Jóna Oddsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Máni Sigurbjörnsson og Arna Arnórsdóttir, sem ritar fundargerð

Auk þeirra Helga Stefanía Magnúsdóttir skólastjóri Heiðarskóla, Helga Harðardóttir fulltrúi kennara Heiðarskóla,

Sigurður Sigurjónsson skólastjóri Skýjaborgar, Sara Margrét Ólafsdóttir og Þórdís Þórisdóttir fulltrúar kennara Skýjaborgar,

Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra Skýjaborgar og María H. Eggertsdóttir fulltrúi foreldra Heiðarskóla

1. Setning fundar.


Formaður setur fundinn og býður fólk velkomið.


2. Skólamál í Hvalfjarðarsveit.


Formaður kynnir ástæðu fundarboðs sem er tillaga nefndarinnar að sameiningu leik- og grunnskóla undir eina stjórn. Þar sem tillagan nær til starfa skólastjórnenda þarf nefndin að kjósa hvort skólastjórnendur séu hæfir til að sitja fundinn.


Formaður ber upp hvort skólastjóri Heiðarskóla sé vanhæfur. Samþykkt samhljóða.


Formaður ber upp hvort leikskólastjóri Skýjaborgar sé vanhæfur. Samþykkt samhljóða.


Formaður ber upp hvort aðstoðarleikskólastjóri Skýjaborgar sé vanhæfur. Samþykkt samhljóða.


Skólastjórnendum gefst færi á að tjá sig um málefnið áður en þeir yfirgefa fundinn. Umræður voru um málefnið.


Að því loknu yfirgefa þau fundinn.


Umræður.


Tillaga


Fræðslu- og skólanefnd Hvalfjarðarsveitar leggur til og beinir því til sveitarstjórnar að sameina leik- og grunnskóla sveitarfélagsins í eina skólastofnun frá og með 1. ágúst 2011. Við breytinguna verði lagðar niður stöður stjórnenda og aðstoðarstjórnenda leik- og grunnskóla og auglýst eftir einum skólastjóra er síðan ráði til sín undirstjórnendur. Að auki leggur nefndin til að settur verði á fót samráðshópur með fulltrúum foreldra beggja skóla, fulltrúum stjórnenda beggja skóla, fulltrúum starfsmanna beggja skóla og tveimur fulltrúum fræðslu- og skólanefndar. Hópurinn verði undir stjórn utanaðkomandi aðila er ráðinn verði til ráðgjafar á meðan á sameiningarferlinu stendur. Hlutverk hópsins verði meðal annars að fjalla faglega um þau álitamál er upp kunna að koma og varða sameininguna. Eftir ráðningu nýs skólastjóra mun nýr samráðshópur verða stofnaður undir hans forystu. Sá hópur mun verða skipaður fulltrúum foreldra og kennara beggja skóla auk fulltrúa fræðslu- og skólanefndar. Hópurinn mun vinna að því að setja upp nýtt skipurit fyrir skólann og móta stefnu og starf sameinaðrar stofnunnar. Fulltrúar hópanna bera ábyrgð á að koma til samráðshópsins málum frá sínum hagsmunahópi og er einnig gert að kynna niðurstöður hvers fundar í sínum hagsmunahópi.


Greinargerð:


Miklar breytingar eru framundan á skólastarfi í Hvalfjarðarsveit með tilkomu nýs og glæsilegs skólahúsnæðis. Sem skapar ný og spennandi tækifæri. Til að nýta þá möguleika til fulls sem opnast með nýrri byggingu er það skoðun fræðslu- og skólanefndar að farsælast sé að sameina kennslu allra barna á leik- og grunnskólastigi undir eina stjórn. En í dag rekur sveitarfélagið tvær litlar skólaeiningar. Nánara samstarf og markvissari stjórnun allra þeirra er að kennslu koma, er líkleg til að skila sterkari faglegri einingu og nýta um leið það fé sem lagt er í skólann á skilvirkari hátt. Ekki er gert ráð fyrir beinum sparnaði við sameiningu skólanna þar sem ekki er gert ráð fyrir því að draga úr framlögum til skólamála. Fjölmörg sveitarfélög hafa góða reynslu af sameiningu skólastofnanna og náð fram með því kostum sem fólk telur að ekki sé hægt að ná með öðrum hætti. Kannanir hafa sýnt að hægt er að gera betur í skólastarfi í sveitarfélaginu og er tímabært að svara því kalli.


Sameining beggja skólastiga sveitarfélagsins hefur fjölmarga kosti í för með sér eins og t.d:


 Meiri samfella og sveigjanleiki milli skólastiga.
 Skilvirkari stjórnun.
 Betri nýting á mannauði.
 Betri nýting á sérfræðiþjónustu.
 Eflir faglegt samstarfi starfsfólks.
 Öflugri sí- og endurmenntun starfsfólks.
 Betri nýting fjármuna í skólastarfi.
 Hagræðing í rekstri með sameiginlegum innkaupum.
 Einföldun í rekstri í litlu samfélagi.
 Mörg tækifæri til nýbreytni og þróunarvinnu óháð aldri nemenda.


Gert er ráð fyrir að skólastarf beggja skóla haldist óbreytt til loka yfirstandandi skólaárs.


Tillagan samþykkt samhljóða.


Fræðslu- og skólanefnd vísar jafn framt tillögunni til umsagnar til skólaráðs Heiðarskóla, foreldrafélags Heiðarskóla og foreldraráðs/félags Skýjaborgar.


Fundi slitið kl. 18:52


Birna María Antonsdóttir
Valgerður Jóna Oddsdóttir
Bjarni Jónsson
Hlynur Máni Sigurbjörnsson
Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð

Efni síðunnar