Fara í efni

Fræðslu- og skólanefnd 2009-2014

53. fundur 30. júní 2010 kl. 17:45 - 19:45

Birna María Antonsdóttir, Valgerður Jóna Oddsdóttir, Bjarni Jónsson, Hlynur Máni Sigurbjörnsson og Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð.

Auk þeirra Helga Stefanía Magnúsdóttir skólastjóri Heiðarskóla, Sigríður Lára Guðmundsdóttir fulltrúi kennara Heiðarskóla, 

Sigurður Sigurjónsson skólastjóri Skýjaborgar, Þórdís Þórisdóttir fulltrúi kennara Skýjaborgar, Guðný Kristín Guðnadóttir fulltrúi foreldra Skýjaborgar.

 

1. Oddviti setur fundinn.

 

Oddviti setti fundinn og bauð fólk velkomið.

 

2. Kosning formanns, varaformanns og ritara.

 

Oddviti leitaði eftir tillögum að formönnum, tilnefndir voru Birna María Antonsdóttir og Hlynur M. Sigurbjörnsson. Þá fór fram kosning, Birna María hlaut 3 atkvæði og Hlynur 2 atkvæði. Birna María er því réttkjörin formaður fræðslu og skólanefndar.

Formaður tók við fundinum og við tók kosning varaformanns. Tilnefndir voru Valgerður Jóna Oddsdóttir og Hlynur M. Sigurbjörnsson. Valgerður hlaut 3 atkvæði, Hlynur hlaut 2 atkvæði. Valgerður er því réttkjörin varaformaður nefndarinnar. Þá var kosinn ritari, engin gaf kost á sér og því fór fram kjör án tilnefninga. Arna Arnórsdóttir kjörin ritari nefndarinnar.

 

3. Fundargerð 52. fundar fræðslu- og skólanefndar dags. 6. maí 2010.

 

Formaður fór yfir fundargerð 52. fundar.

 

4. Mánaðarskýrsla skólastjóra Heiðarskóla fyrir maí 2010.

 

Maímánuður var frekar hefðbundinn, veðrið lék við okkur marga daga og reyndum við eftir megni að færa kennsluna út úr skólanum.

10. bekkur var prófaður kringum miðjan mánuðinn og fór síðan í skólaferðalag ásamt 8. og 9. bekkjum 19. – 21. maí. Sigurður Tómasson, Samúel Þorsteinsson kennarar og Elín Tómasdóttir stuðningsfulltrúi fóru með hópnum.  Ferðin var að þessu sinni á Snæfellsnesið og gerðu þau út frá Laugum í Sælingsdal.

Vikuna eftir hvítasunnu fór 10. bekkur í starfskynningu en 8. og 9. bekkir þreyttu lokaprófin.  Aðrir bekkir voru líka prófaðir þessar síðustu vikur.

Miðstigið fór einn góðan veðurdag í gönguferð á Snókinn, og 6. -7.bekkir fóru með foreldrum og kennara í skemmti- og fróðleiksferð á Þingvöll með viðkomu í sundlaug.

Yngra stigið fór í gönguferðir í nágrenni skólans.

Hjóla og gróðursetningardagurinn var 31. Maí. Þá fóru miðstigið og yngsta stigið í mislanga hjólatúra. Allir unnu síðan að umhverfisverkefnum seinni hluta dagsins. Það var gróðursett, settar niður kartöflur og gulrætur, reytt frá plöntum og borinn á áburður farið í leiki og haft það skemmtilegt.

Íþróttadagurinn var með hefðbundnu sniði nema ekki var hægt að hafa töltkeppnina í ár vegna byggingarframkvæmda og vöntunar á hestagerði en vonandi verður það hægt að ári. Skólanum var slitið fimmtudaginn 3. júní. Veitt voru verðlaun fyrir framför í námi og kurteisi og háttprýði á öllum stigum.

Á yngsta stigi fengu verðlaunin; Árný Stefanía í 2. bekk fyrir framfarir og Stefán Ýmir í 4 bekk fyrir kurteisi og háttprýði.

Á miðstigi fengu verðlaunin; Sylvía Mist í 7. bekk fyrir framfarir og Guðjón Friðjónsson í 5. bekk fyrir kurteisi og háttprýði.

Á elsta stiginu fengu verðlaunin; Hólmar Páll í 9. bekk fyrir framfarir og Tanja Björk í 8. bekk fyrir kurteisi og háttprýði.

Íþróttamaður Heiðarskóla var að þessu sinni Sigrún Bára Gautadóttir úr 8. bekk

10. bekkur var útskrifaður og verðlaun voru veitt fyrir bestan árangur í grunngreinum

Íslenskuverðlaunin hlaut Aron Daði Gautason, en hann hlaut einnig verðlaun fyrir bestan heildarárangur á skólaprófum.

Stærðfræðiverðlaunin hlaut Allen Freyr Mehic, náttúrufræðiverðlaunin hlaut Sigurbjörn Kári Hlynsson, enskuverðlaunin hlaut að þessu sinni nemandi úr 9. bekk sem tók próf úr 10. bekkjar námsefni Halldór Logi Sigurðarson. Dönsku og samfélagsfræðiverðlaun hlaut Heiðmar Eyjólfsson.

Aðrir bekkir fengu síðan vitnisburði sína afhenta hjá bekkjarkennara og allir nemendur fengu birkiplöntu afhenta til gróðursetningar heima fyrir. Við vorum að þessu sinni með 7 nemendur úr 8. og 9. bekkjum sem þreyttu próf með 10. bekk í ensku og náðu öll árangri 8.0 og yfir.

Þessir nemendur hafa verið hvattir til að sækja um fjarnám í ensku í haust og munum við aðstoða þau eftir mætti. Þau munu geta notað enskutímana til að vinna í sínu námi í skólanum. Einnig er í boði áframhaldandi enskunám í skólanum kjósi þau ekki að fara í fjarnámið. Það er hinsvegar ekki metið til eininga. Kennarar luku sínu starfsári þann 8. júní og fóru þá út í sumarið. Einnig það starfsfólk sem ekki er með 12. mánaða ráðningu.

Skólastjórar hafa verið við vinnu þennan mánuð en munu nú fara í sumarleyfi.

Einnig hafa eldhúskonur verið við störf ásamt skólaliða og stuðningsfulltrúa sem hafa haft nóg að gera þessar vikurnar.

Skólastjórar koma aftur til starfa eftir sumarleyfi í vikunni eftir Verslunarmannahelgi og almennir starfsmenn tínast inn í byrjun ágúst.

Kennarar koma til starfa 16. ágúst.

 

5. Mánaðarskýrsla skólastjóra Skýjaborgar fyrir maí 2010.

 

Þann 7. maí bauð foreldrafélag leikskólans upp á leiksýninguna um Núma og höfuðin sjö sem vakti mikla lukku.

10.-13. maí færðum við eldri deild leikskólans í Furuhlíð. Þar leikum við okkur, elduðum úti, unnum ýmis verkefni og nutum útiverunnar í 3 daga. Foreldrar hjálpuðu okkur með því að koma með börnin og sækja þau í Furuhlið þessa þrjá daga. Leikskólinn er í góðu samstarfi við Skógræktarfélagið og höfum við fengið afnot af aðstöðu þeirra í skóginum. Frábærir dagar sem verða endurteknir að ári.

Tveir starfsmenn leikskólans fóru á námskeið í útieldun þann 14. maí.

Miðvikudaginn 19. maí var haldin hin árlega vorhátið/opið hús í leikskólanum frá 11-13. Í boði voru hoppkastalar, andlitsmálning og pylsur. Við fengum

aðstoð frá nokkrum foreldrum þennan dag vegna manneklu.

Þann 27. maí útskrifuðum við elstu börnin sem eru að byrja í grunnskóla í ágúst. Að þessu sinni útskrifuðust 7 börn og fara 6 af þeim í Heiðarskóla.

31. maí fórum við í okkar árlegu vorferð á Bjarteyjarsand. Þar var farið í fjöruna, fjárhúsin, leikið sér og grillað. Við fengum frábærar móttökur eins og alltaf.

Þann 1. júní var hjóladagur hjá okkur. Við fengum að loka planinu við stjórnsýsluhúsið og hjóluðum þar. Þennan dag nýttum við til þess að fara yfir öryggið í umferðinni, t.d. hjálmanotkun.

Einn nemandi kom frá Heiðarskóla í starfskynningu í 2 daga, 25. og 28. maí.

Þann 4. júní fóru 4 kennarar á málþing í Kennaraháskólanum. Málþingið var haldið í samstarfi við Samtök áhugafólks um skólaþróun, RannUng og Leikskólasvið Reykjavíkurborgar og bar heitið „ Það skal vanda sem lengi skal standa“.

11. júní var starfsdagur í leikskólanum þar sem líðandi skólaár var metið og byrjað var að undirbúa næsta skólaár.

Leikskólinn leigir sér kartöflugarð á vegum sveitarfélagsins. Þar hafa börnin sett niður kartöflur. Börnin hafa sett niður grænmeti í leikskólanum og nú er búið að setja það niður í kartöflugarðana líka. Vinnuskólinn hugsar um kartöflugarðinn meðan börnin eru í sumarfríi.

23. júní voru haldnir Skýjaborgarleikar. Íþróttakennarinn okkar sá um að skipuleggja útiþrautir af ýmsu tagi og fengu börnin viðurkenningarskjal í lok dags.

28. júní fórum við í Súlunes en þetta er annað árið í röð sem leikskólanum hefur verið boðið þangað og var ákveðið að þetta verður einn af okkar árlegu viðburðum. Kemur það sér vel þar sem Grunnafjörðurinn er og verður hluti af verkefnavinnu barnanna í tengingu við Grænfánaverkefnið. Við fengum frábærar móttökur. Farið var í fjöruna, fjósið, leikið sér og grillað.

Þann 2. júlí næstkomandi fær leikskólinn afhendan Grænfánann. Á liðnu skólaári hefur farið fram markviss vinna til að fá hann og er Grænfánaverkefnið orðið hluti af skólanámskrá leikskólans. Bjóðum við alla velkomna að fagna með okkur klukkan 11:00 og þiggja kaffiveitingar.

Leikskólinn er í samstarfi við vinnuskólann og koma unglingarnir og hjálpa til tveir í einu, tvo daga i senn.

Leikskólinn lokar 2. júlí og opnar aftur 4. ágúst. Gleðilegt sumarfrí!!!

 

6. Kennsluskipulag Heiðarskóla veturinn 2010-2011.

 

Skólastjóri Heiðarskóla útskýrði hvað hver kennari er með margar kennslustundir á viku.

 

7. Bekkjaskipulag Heiðarskóla veturinn 2010-2011.

 

Skólastjóri Heiðarskóla fór yfir bekkjarskipulag veturinn 2010-2011 og svaraði fyrirspurnum.

 

8. Spá um skólaakstur Heiðarskóla veturinn 2010-2011.

 

Skólastjóri Heiðarskóla fór yfir hve margir nemendur þurfi skólaakstur á næsta skólaári.

 

9. Skóladagatal Heiðarskóla veturinn 2010-2011.

 

Skóladagatal Heiðarskóla var ekki lagt fram á þessum fundi þar sem það var lagt fram á 52. fundi nefndarinnar og samþykkt samhljóða með fyrirvara um að bæta þurfi við útikennsludögum.

 

10. Skóladagatal Skýjaborgar veturinn 2010-2011.

 

Skóladagatal Skýjaborgar var ekki lagt fram á þessum fundi, það mun bíða næsta fundar.

 

11. Erindi skólastjóra um sérúrræði.

 

Skólastjóri Heiðarskóla kynnti sérúrræði fyrir ákveðna nemendur. Umræður um erindið.

Bókun: Skólastjóri mun vinna áfram að sérúrræðum í samvinnu við skólaráð.

Erindið samþykkt samhljóða.

Bókun: Fræðslu og skólanefnd leggur til að sveitastjórn taki jákvætt í erindið.

Athuga mætti með að færa það af lið 1183 í fjárhagsáætlun sem nefnist sérúrræði stuðningsfulltrúa.

 

12. Stefna sveitarfélagsins í styrkjamálum.

 

Formaður bar fram erindi frá sveitarstjórn þar sem óskað er eftir að fræðslu og skólanefnd móti stefnu varðandi styrkveitingar á sviði æskulýðsmála.

Valgerður Jóna Oddsdóttir tekur að sér að kynna sér hvernig þessum málum er háttað í öðrum sveitarfélögum.

 

13. Önnur mál.

 

Tillaga leikskólastjóra að fjölda barna í leikskólanum skólaárið 2010-2011.

Miðað við samsetningu barnahópsins, dvalartíma þeirra, aldri og þörfum og starfsmannahóps og umfangi sérfræðiþjónustu næsta skólaár leggur

skólastjóri til að fjöldi barna í leikskólanum verði að hámarki 16 börn á yngri deild (18 mánaða – 3ja ára) og 24 börn á eldri deild (3-6 ára).

 

Bókun: Fræðslu og skólanefnd leggur til að sveitastjórn taki jákvætt í erindið.

 

Formaður kynnti ályktun um vanda framhaldsskólamenntunar á Vesturlandi og mun bera hana upp við sveitarstjórn.

Samþykkt var einróma að fundir fræðslu og skólanefndar verði fyrsta fimmtudag í mánuði kl. 17:45 að öllu óbreyttu.

Samþykkt var að formaður nefndarinnar taki sæti fyrir hönd Hvalfjarðarsveitar í fulltrúaráði Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Formaður kallaði eftir hugmyndum frá nefndarmönnum til að efla samskipti skóla og samfélagsins fyrir næsta fund nefndarinnar.

 

Fundi slitið kl 18:25

 

Birna María Antonsdóttir

Valgerður Jóna Oddsdóttir

Bjarni Jónsson

Hlynur Máni Sigurbjörnsson

Arna Arnórsdóttir sem ritar fundargerð

Efni síðunnar