Samgönguáætlun 2019-2023 og 2019-2033.

Mánudagur, 26. nóvember 2018
Á 274. fundi Sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þann 23. október 2018 var tekið til kynningar frá nefndarsviði Alþingis, tillögur til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023 og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033.
Í framhaldi af því sendi Sveitarstjórn eftirfarandi umsögn:
 
Hringvegur 1  Kjalarnes – Sundabraut
 
Það er ánægjulegt að sjá að í samgönguáætlun 2019-2023 er gert ráð fyrir fjármunum til framkvæmda á veginum um Kjalarnes með gerð 2+1 vegar. Þær framkvæmdir munu án efa bæta umferðaröyggi til mikilla muna og stytta ferðatíma á þeirri leið. Enda hefur þetta verið helsta baráttumál sveitarfélaga á Vesturlandi á undanförnum árum. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar vill árétta mikilvægi þess að farið verði af fullum þunga í að skoða valkosti vegtenginga við höfuðborgarsvæðið t.a.m með lagningu Sundabrautar. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar  vill í því sambandi benda á mikilvægi þess að efla og stytta vegalengdina frá Grundartangahöfn til höfuðborgarsvæðisins m.t.t. aukinna flutninga þar á milli. Þessar vegabætur munu einnig stækka atvinnusóknarsvæðið út frá höfuðborgarsvæðinu og bæta mjög tækifæri íbúa á Vesturlandi.
 
 
Hringvegur 1 frá Hvalfjarðargöngum og í Borgarnes
 
Í samgönguáætlun 2019- 2033 er gert ráð fyrir fjármunum á öðru og þriðja tímabili til framkvæmda við 2+1 veg á 20 km. leið frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar vill árétta að þessum framkvæmdum verði hraðað sem kostur er, þannig að framkvæmdir á þessum vegkafla komi helst í framhaldi af framkvæmdum á Kjalarnesi.  
Nauðsynlegt er að huga strax að nokkrum öryggisþáttum á þessum vegkafla, má þar helst nefna vegtengingar sem þarfnast úrbóta á þessum kafla á hringvegi 1. Gerðar hafa verið endurbætur á nokkrum vegtengingum á þessum kafla á undanförnum árum, t.a.m. er nýlokið við að lagfæra vegamót að Grundartanga sem er fjölmennasta atvinnusvæði á Vesturlandi en um 1000 manns sækir þangað vinnu daglega auk þess sem miklir flutningar eru að og frá svæðinu. Þar er þó nauðsynlegt að bæta við góðri lýsingu við þau vegamót, en mjög blint getur verið við þau í skammdeginu.  
Vegtenging hringvegar 1 við þéttbýliskjarnann Melahverfi þarfnast líka úrbóta en þar er sjónlína mjög stutt sem skapar mikla hættu við akstur inná hringveg 1.
Fleiri vegtengingar á þessum kafla þarfnast úrbóta svo dregið sé úr slysahættu á þessum hluta hringvegar 1.
Á þessum vegkafla er líka nauðsynlegt að huga að hvíldarsvæði og útskotum þar sem ferðafólk getur lagt bílum á öruggan hátt.
 
 
Sjóvarnir í Hvalfjarðarsveit
 
Það kemur fulltrúum í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á óvart að ekki er fyrirhugað að verja neinum fjármunum í samgönguáætlun 2019 – 2023 til sjóvarna í Hvalfjarðarsveit. Er það á engann hátt í samræmi við væntingar því full þörf er á að fara í aðgerðir gegn landbroti á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu. Má í því sambandi nefna nokkra staði sem fram koma í yfirlitsskýrslu Siglingarstofnunar frá árinu 2011 og ekki hefur verið farið í framkvæmdir á.  
 
Tengivegir
 
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar telur nauðsynlegt að verulega verði aukið við það fjármagn sem áætlað er til viðhalds og uppbyggingar á tengivegum almennt en þörf er á stórátaki í þeim efnum á landsvísu.
Má í því sambandi nefna gjörbreytta vinnusókn íbúa í dreifbýli og aukna umferð vegna ferðamanna. 
Í Hvalfjarðarsveit eru tengivegir sem ekki hefur verið lokið við að leggja á bundið slitlag, má þar nefna Melasveitarveg 505 með ÁDU 166 bíla og SDU 234 bíla (samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar 2017). Mjög mikil umferð þungra bíla er á þessum vegi vegna starfsemi stærsta þauleldisbús svína á landinu að Melum í Melasveit. Ólokið er að leggja á ca. 9 km. kafla á þessum vegi.
Svínadalsvegur 502, ÁDU er um 90 bílar og SDU umferð er um 154 bílar, ólokið er að leggja á hluta þessa vegar en talsverðir flutningar og umferð ferðafólks auk íbúa er um þennan veg.
Dragavegur 520, umferð um þennan veg er þó nokkur og hefur aukist að þessi leið sé farin þegar veður eru válynd undir Hafnarfjalli á hringvegi 1. Líklegt má telja að umferð myndi aukast ef vegurinn yrði lagfærður og lagður bundnu slitlagi.