Um sveitarfélagið

Landsvæði og íbúafjöldi

Hvalfjarðarsveit varð til 1. júní 2006 með sameiningu fjögurra hreppa sem oft voru kallaðir “hrepparnir sunnan Skarðsheiðar.”  Þetta voru Hvalfjarðar-strandarhreppur, Skilmannahreppur, Leirár- og Melahreppur og Innri-Akraneshreppur.  Hið nýja sveitarfélag fékk nafnið Hvalfjarðarsveit.

Í Hvalfjarðarsveit eru tveir litlir þéttbýliskjarnar, Melahverfið og Hlíðarbær og sá þriðji er Krossland og er í uppbyggingu.

Hvalfjörðurinn sjálfur er helsta aðdráttarafl sveitarinnar ásamt Akrafjallinu sem er 643 metra hátt.  Það einkennist af mjúkum línum enda jökulsorfið að ofan. Í fjallinu er blágrýti, stuðlaberg og hátt upp eftir hlíðunum má sjá sjávarmyndanir enda hafa fundist hvalbein í 80 m hæð. Í norðaustur hluta Akrafjalls er vegleg skógrækt á vegum Skógræktarfélags Skilmannahrepps en fyrstu trén voru sett niður fyrir rúmum 70 árum.

Strandlengja Hvalfjarðarsveitar er löng og skartar sorfnum klettum og dröngum sem og leirum fullum af lífi. Grunnafjörður er friðlýstur vegna fjölbreytts fuglalífs og silungur og lax í ám og vötnum. Mikið er um æðarvarp og kræklingur með ströndum.

 

 

Hvalfjarðarsveit er blómleg sveit sem nær frá Hvalfjarðarbotni í austri, Skorradal í norðri, Borgarfjarðarbrú í vestri og Akranesi í suðri.  Landslagið er fjölbreytt, bæði allmikið undirlendi en einnigsnarbrattar hlíðar formfagurra fjalla og vogskornar og lífauðugar strendur.  Náttúrufegurð er víða allmikil og möguleikar óþrjótandi til að njóta frábærrar útiveru í nágrenni við höfuðborgarsvæðið.  Vesturlandsvegur liggur eftir endilöngu sveitarfélaginu frá Hvalfjarðargöngum að Borgarfjarðarbrú.

Margar útivistarperlur eru í Hvalfjarðarsveit, svo sem Botnsdalur, en þar eru margar gönguleiðir s.s. upp að fossinum Glym í Botnsá en hann er hæsti foss landsins. Við Þyrilsklif er vinsælt útivistarsvæði,  margir þekkja Síldarmannagöngur og svo eru fjölbreyttar gönguleiðir í og við Skarðsheiðina.  Brúin yfir Bláskeggsá er elsta steinbrú landsins, hún var nýlega endurbyggð.

Hvalfjarðarsveit á merka sögu að baki og margir kunnir einstaklingar úr Íslandssögunni koma við í Hvalfjarðarsveit. Má þar sérstaklega nefna séra Hallgrím Pétursson sem líklega orti Passíusálmana hér. Halldór Laxness lét Jón Hreggviðsson búa að Rein og Arnes Pálsson þekktasti útilegumaðurinn var í felum í skúta undir Háahnúki.  Sagan við Leirá og sagan um prentverk er samofin svæðinu við Leirá.

Hvalfjarðarsveit er landbúnaðarhérað en einnig er öflugt iðnaðarsvæði á Grundartanga.  Þar er að finna eina stærstu höfn landsins og tvö stóriðjuver.  Flestir íbúar búa í dreifbýli, en þó eru þéttbýliskjarnar í Melahverfi, Hlíðarbæ og víðar.  Sveitarfélagið rekur einn leikskóla, Skýjaborg, í Melahverfi og einn grunnskóla, Heiðarskóla, í landi Leirár í Leirársveit.

 

Íbúar Hvalfjarðarsveitar voru 612 talsins þann 1. desember 2013 samkvæmt tölum Hagstofunnar.  Landssvæðið sem Hvalfjarðarsveit nær yfir er 494 ferkílómetrar að stærð.

 

 

 

Hvalfjarðargöng er ein merkilegasta og arðbærasta samgöngubót á Íslandi.

Þjóðvegur eitt liggur í gegn um Hvalfjarðarsveit og sker sveitina sitt hvoru megin vegar.

Hvalfjarðarvegurinn var mest umtalaði vegurinn áður fyrr en með komu Hvalfjarðargangnanna breyttist umgjörðin öll, í dag er þetta fallegur hringvegur með stórbrotnu landslagi, háum fjallstindum og skógivöxnum dölum, mikil útivistarparadís.

 

Harðarsaga Hólmverja gerist að miklu leiti í Hvalfjarðarsveit og gaman er að fara á söguslóðir þeirrar sögu. Halldór Laxnes notaði sögusvið Hvalfjarðarsveitar í Íslandsklukkunni og má finna mjög mörg kennileiti sem tengjast Íslandsklukkunni og má þar helst nefna að  Jón Hreggviðsson bjó að Rein.

 

Að Leirá var mesta valdasetur á 17. og 18. öld og voru ráðsmennirnir að Leirá mjög valdamiklir þegar biskupsstólarnir að Hólum og  Skálholti fóru hnignandi. Jón Thoroddsen skáld og sýslumaður bjó að Leirá en hann mikið skáld og braut blað í skáldsagnagerð hann skrifaði m.a. Pilt og stúlku.

 

Magnús Stephensen kom upp fyrstu prentsmiðju landsins að Leirárgörðum og var mikill frömuður í prentun og útgáfu.

 

Að Saurbæ bjó sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson með konu sinni Guðríði Símonardóttur. Hallgrímur orti Passíusálmana að Saurbæ og átti þar líklega sín bestu ár.

 

Á Þyrilsnesi bjó landnámsmaðurinn Hörður ásamt Geir fóstbróður sínum. Söguslóðir Harðarsögu Hólmverja.

 

Að Draghálsi bjó Ásatrúargoðið Sveinbjörn Beinteinsson og margir þekktu vel til hans áður fyrr. 

 

Í Vatnaskógi er  KFUM sumardvöl fyrir drengi og að auki með öfluga starfsemi á staðnum allt árið.  Í Ölveri er sumardvöl fyrir stúlkur.

 

Hvalveiðar í Hvalfirði  eru tengdar lífi og starfi fólks í Hvalfjarðarsveit. Á vormánuðum 2009 voru hvalveiðar hafnar að nýju eftir meira en 20 ára stopp.

 

Hvalfjarðarsveit á Wikipedia


Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Svo hægt sé að hafa samband við þig.
By submitting this form, you accept the Mollom privacy policy.